17.11.1975
Neðri deild: 18. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

57. mál, eignarnámsheimild Ness í Norðfirði

Flm. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er flutt að tilhlutun þm. Austurlandskjördæmis, og við þeir þrír þm. Austurlandskjördæmis, sem eigum sæti í þessari d., stöndum að flutningi frv.

Efni þessa frv. er það, að sótt er um heimild til handa bæjarstjórn Neskaupstaðar til að taka eignarnámi, ef á þarf að halda, þann hluta af bæjarlandinu sem nú er ekki í eigu kaupstaðarins. Þannig er ástatt í Neskaupstað, að Neskaupstaður á næstum að segja allt bæjarlandið. Þó er þarna lítill hluti í eigu annarra og hefur ekki tekist að ná samkomulagi við þá eigendur um kaup á þessum tiltölulega tillitla hluta. Nú óskar bæjarstjórn Neskaupstaðar eftir því að fá eignarnámsheimild til þess að geta á þann hátt eignast þennan hluta af bæjarlandinu. Bæjarlandið er að öðru leyti óskipt land. Hér er ekki um séreign að ræða, það er sameign og er raunverulega undir stjórn bæjarins, en getur þó af skiljanlegum ástæðum verið þýðingarmikið fyrir bæinn að eiga óumdeilanlega allt það land sem bærinn spannar yfir.

Hér er um mjög venjulegt frv. að ræða sem fjallar um mál af þessari tegund. Ég sé ekki ástæðu til að eyða um það fleiri orðum. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. félmn.