17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4402 í B-deild Alþingistíðinda. (3785)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni eitt með stærri málum þessa þings að mínu mati, og það er enginn vafi á því að við, sem nú erum að störfum síðustu daga þessa hv. Alþ., verðum að taka afstöðu til þessa máls og munum gera það. Ég heyri það á mönnum, þótt þeir séu ekki mjög ánægðir með hið efnislega innihald, sbr. tvo síðustu hv. ræðumenn sem hér hafa talað, þá eru þeir hins vegar á því að við verðum að afgreiða þetta mál. Ég er sama sinnis.

Við höfum hins vegar frammi fyrir okkur þá staðreynd að þeir menn, sem hér ætti að afgreiða í einu lagi ef ég mætti orða það svo dónalega, þeir hafa sjálfir kosið að kljúfa í milli sem í sjálfu sér er ekki nokkur ástæða til, vegna þess að það er starfið sjálft sem á að gera út um það hvaða kaup menn eiga að fá, það er ekki hvort einhver maður hafi setið á rassinum í háskóla í svo eða svo mörg ár. Lögregluþjónn þarf ekki að vera 8 ára háskólamaður. Hann gæti alveg eins verið úr Samvinnuskólanum og hefði staðið vel undir sínu starfi sem lögregluþjónn þótt hann hefði ekki setið í háskólanum í nokkur ár.

Bandalag það, sem varð til eftir að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja varð til, var því miður klofið að mínu mati. Ég álít að samþjöppun, hvort sem er á þessu sviði eða öðru hjá launþegasamtökunum, hafi verið nauðsynleg. En því miður urðu þarna nokkrir aðilar til þess að stuðla að þessu, og þetta er mikill ágalli. Og það þarf enginn að segja mér að það þurfi endilega að vera menn með háskólapróf til þess að gegna ákveðnum stöðum sem þeir hinir sömu gegna í dag. Þetta er út af fyrir sig ekki það, sem varðar þetta mál beint. En ég vil samt sem áður nú nota þetta tækifæri til þess að benda á ábendingu og samþykkt Alþýðusambands íslands í sambandi við æviráðninguna.

Það hafa, held ég, nær allir innan Alþýðusambands Íslands, hvort sem þeir koma úr hægri eða vinstri röðum eða einhverjum öðrum röðum sem líka finnast þar, þeir hafa verið meðmæltir því að þessir aðilar fengju sinn rétt til þess að fara í verkfall. En hins vegar virðist í þessu frv. að mínu mati vera þannig komið í sumum kringumstæðum að allir hinir hærra launuðu geti haldið áfram og eigi að halda áfram starfi meðan skrifstofustúlkurnar fari í verkfall til þess að berjast fyrir hærra kaupi fyrir hina sömu sem vinna áfram sína vinnu.

Við skulum segja að þetta sé fyrsta skrefið sem er verið að stíga til þess að þetta fólk fái þennan rétt, og m.a. vegna þess mun ég greiða atkv. með þessu frv. þótt ég sjái á því marga ágalla. Ég tel að þeir, sem að því stóðu að semja þetta frv. og ná samkomulagi, bæði hæstv. fjmrh., hans starfsmenn og aðrir, hafi unnið þarna ákaflega gott starf og þeir mega eiga allan heiður af því. Hins vegar, eins og ég tók fram áðan, eru margir ágallar á því, en við skulum þá reyna að lagfæra þá í næsta áfanga. En þarna er fyrst og fremst um að ræða samkomulag við viðkomandi aðila, og við getum ekki borið á móti því að þarna er samkomulag á milli þessara aðila, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Að sjálfsögðu eiga þeir ekki að koma hingað og segja: Við pöntum svo lagasetningu eftir að við höfum samið um eitthvað. En ég held að þetta mál sé búið að vera í deiglunni það lengi að við verðum að taka afstöðu til þess hér á hv. Alþingi.

Hv. síðasti ræðumaður, sem reyndar er annar þm. Sjálfstfl. sem hér hafa talað um þetta mál, báðir hafa verið heldur á móti þessu máli. og það var þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs til þess að láta vita að ég er með málinu og við eigum að samþykkja þetta mál eins og það er. Ég veit að þetta verður erfitt mál, það verður erfitt í framkvæmd. En hvað er ekki erfitt í sambandi við okkar vinnulöggjöf? Persónulega er ég sjálfur á því að við eigum að vera menn til þess, ekki síst þeir sem koma úr verkalýðshreyfingunni, vera menn til þess að endurskoða löggjöf sem sett var 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, og við eigum ekkert að óttast það að endurskoða hana, heldur vera með opin augu fyrir því að tímar hafa breyst. Og sama er nú að ske í sambandi við opinbera starfsmenn. Við erum að opna augu okkar fyrir því að þetta fólk á líka að hafa sinn rétt þó að við verðum líka að hafa neyðarréttinn til hliðar, um það að ákveðnir aðilar verði að gegna sínum skyldustörfum þegar þannig stendur á, enda geri ég ráð fyrir því að það verði enginn sjómaður sem mundi nokkurn tíma láta sér detta það í hug að hann færi í verkfall kl. 12 einhvern tíma að nóttu til eða degi úti á sjó og segði: Við erum hættir að sigla, við ætlum að láta reka þangað til verkfallið leysist, — enda geri ég ekki ráð fyrir því að það sé heldur meiningin hjá opinberum starfsmönnum.

Ég held að það, sem er mótað í þessari löggjöf sem við erum núna að ræða um, sé á nokkurn hátt táknrænt fyrir það sem við verðum að horfast í augu við, hinir sem komum frá almennu verkalýðsfélögunum. Ég ætla ekki að segja til um það hvort mitt mat sé að það eigi endilega að vera svona eða öðruvísi. En ég er alveg viss um að við verðum að fara að opna augu okkar fyrir því að vinnulöggjöfin í dag er úrelt og ef þetta getur orðið til þess að móta það sem skynsamlegt er hjá okkur, þá segi ég að það er gott.

Það kom fram hjá síðasta ræðumanni í sambandi við félagsdóm, hann varpaði fram þeirri hugmynd ef atvinnurekandi eða fulltrúi atvinnurekanda væri ekki aðili að félagsdómi. Ég tók ekki eftir því að hann hefði orð á því að máske væri svo að fulltrúi launþegans ætti ekki heldur sæti undir þeim kringumstæðum í félagsdómi. Máske hef ég misskilið þetta, en ég vil bara benda á það að í sjálfu sér er félagsdómur ekki annað en samkomulagsgrundvöllur með oddaaðila sem sker úr um hvor hafi á réttu að standa. Auðvitað fylgir hvor sínum að venju, a.m.k. þegar lögfræðingar eiga í hlut, enda fá þeir greitt fyrir það.

Virðulegi forseti. Ég vil, án þess að fara að taka fyrir frekar einstakar gr. í frv., aðeins mæla með samþykkt þess. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru margir agnúar á því, og um leið og við erum að afgreiða þetta frv., þá verður okkur að sjálfsögðu horft til ýmissa annarra atriða í annarri löggjöf, sem er löggjöfin um stéttarfélög og vinnudeilur. Ef við getum verið menn til að samþykkja þetta frv. nú, þá eigum við líka að geta verið menn til að samþykkja nauðsynlegar breytingar á núgildandi vinnulöggjöf, og þýðir þá ekki fyrir nokkurn mann að vera að snúa út úr mínum orðum, hvorki í Morgunblaðinu 1. maí né á öðrum tíma, þegar ég bendi á staðreyndir sem eru okkur í verkalýðshreyfingunni til háborinnar skammar.