17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4404 í B-deild Alþingistíðinda. (3786)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að fara að ræða þetta mál hér, en það var einkum ræða hv. 1. þm. Suðurl. sem varð þess valdandi, að ég tel mig knúinn til að segja örfá orð.

Frv. það, sem hér um ræðir, er samningamál milli opinberra starfsmanna og ríkisstj. um nýtt fyrirkomulag á samningamálum opinberra starfsmanna. Með þessu frv. og þeim samningum, sem að baki þess liggja, fá nú opinberir starfsmenn verkfallsrétt þótt ærið takmarkaður sé. Ég þarf ekki að taka það fram að að sjálfsögðu er ég fylgjandi þessu frv. og mun greiða því atkv. Ég hef oftar en einu sinni átt hlut að því hér á hv. Alþ. að flytja frumvörp um breyt. á l. frá 1915 sem banna opinberum starfsmönnum að gera verkfall. Eins og ég tók fram, þá er hér um að ræða býsna takmarkaðan rétt, sem opinberir starfsmenn fá nú, og er langt frá því að vera sami réttur og hin almennu verkalýðsfélög í landinu hafa áunnið sér og felst í vinnulöggjöfinni. Ég ætla ekki að fara að tefla hér upp þau atriði sem frábrugðin ern. Hins vegar óttast ég að þessi takmarkaði verkfallsréttur, sem opinberir starfsmenn nú fá, verði notaður sem fyrirmynd til breytinga á vinnulöggjöfinni og muni ýta undir þær mjög háværu kröfur sem atvinnurekendur hafa gert um skertan rétt verkalýðsfélaganna til verkfallsaðgerða. Það þarf ekkert að efast um að þeir muni sækja býsna mikil rök og fyrirmynd í einmitt þann samning sem nú hefur verið gerður. En ég skil ákaflega vel afstöðu og aðstöðu opinberra starfsmanna. Þeir eru nú að stíga aðeins fyrsta skrefið til þess að fá fullan verkfallsrétt.

Hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, notaði tækifærið til þess að koma fram og tala máli hinna mjög svo hörðu krafna atvinnurekenda og afturhalds í landinu um breytingar á vinnulöggjöfinni sem ættu að svipta verkalýðsfélögin þeim verkfallsrétti, sem þau hafa í dag að meira eða minna leyti. M.a. minntist hv. þm. á að sáttasemjari ríkisins ætti að fá vald í hendur til þess að fresta verkföllum í a.m.k. tvo mánuði. Það er eins og Taft-Hartley væri hér í ræðustól, nákvæmlega sama, nema það var, held ég, þrír mánuðir. Öðru munar ekki. Ég vil vara við því mjög eindregið að það verði nú farið að rífa upp vinnulöggjöfina til þess að hefta frelsi verkalýðsfélaganna.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði áðan að vinnulöggjöfin væri orðin úrelt. Ég er engan veginn sammála þessu, ætla hins vegar ekki að fara að ræða málin neitt í smáatriðum. Vissulega hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan vinnulöggjöfin var sett 1938, en engu að síður álít ég að hún standi enn þá sæmilega fyrir sínu. Vissulega hafa komið margs konar sambúðarvandamál milli verkalýðsstéttarinnar annars vegar og atvinnurekenda hins vegar öll þessi ár, ekkert frekar nú á síðustu árum heldur en á fyrstu árum vinnulöggjafarinnar. Ég er ekki þar með að segja, þó að ég telji þessi lög ekki úrelt í þeim skilningi sem mér fannst hv. þm. hafa hér um það áðan, þá er ég engan veginn að segja að ekki mætti bæta þau og færa þau kannske meira til horfs sem væri réttara í dag en var 1938. Ég vil sérstaklega nefna kaflann um sáttatilraunir, þ.e.a.s. starfssvið sáttasemjarans, en engan veginn á þann veg sem hv. 1. þm. Suðurl. nefndi. Allt þetta þarf að skoða og hefur verið skoðað undanfarin ár eða raunar frá 1972 hafa þessi mál verið í skoðun milli samningsaðila. Það er eindregin skoðun mín og ég held flestra, sem um þessi mál fjalla af hálfu verkalýðsfélaganna, að þessi mál, þessi erfiðu sambúðarmál eigi fyrst og fremst að leysa með samningum milli aðila vinnumarkaðarins, en ekki með löggjöf, nema þá að svo miklu leyti sem löggjöf væri nauðsynleg til þess að lögfesta samkomulagsatriði þeirra í milli.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja um þessi mál núna. Ég tel að eitt og annað af því, sem kom fram í ræðu hv. þm, Ólafs G. Einarssonar, hafi við rök að styðjast. Ég veit að ágallinn á þessum málum, eins og þau liggja fyrir í frv. og samningum opinberra starfsmanna, er mjög mikill. Ég sé þar alveg fyrir mér hluti sem við höfum orðið að ganga í gegnum í verkalýðsfélögunum og rekum okkur alltaf á og er slæmt að skuli ekki hafa leyst betur en gerðist í þessum samningum. Þarna verða mjög erfið mál, áreiðanlega innri mál Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og einnig þegar til framkvæmdarinnar kemur milli samningsaðilanna.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en lýsi því yfir að ég greiði atkv. með þessu frv. þó að ég sjái mjög augljósa galla. En ég sé líka og veit að hér er aðeins verið að stíga fyrstu skrefin til þess á þeirri braut að opinberir starfsmenn fái þá sjálfsögðu réttarbót í sínum málum að hafa sama rétt á þessu sviði eins og önnur launafélög í landinu.