17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4409 í B-deild Alþingistíðinda. (3790)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Það er ekki hægt að sitja undir fullyrðingum eins og hv. 8. landsk. þm. kom með áðan varðandi vinnulöggjöfina og hugsanlegar breytingar sem kunna að vera gerðar á henni í framtíðinni án þess að svara því og einnig þeim málflutningi sem hann hafði uppi í sambandi við þá málsmeðferð sem núv. félmrh. hefur haft í sambandi við þetta mál.

Hv. þm. sagði að hann ætlaði að vara við því að breytingar yrðu gerðar á vinnulöggjöfinni, en áður var hann búinn að fullyrða að það ætti að knýja fram breytingar á vinnulöggjöfinni án samráðs við verkalýðshreyfinguna, það væri ásetningur núv. ríkisstj. Ef hann hefur ekki sagt það, þá er það ágætt, þá hefur mér misheyrst.

Ég veit ekki betur en hæstv. félmrh. hafi skýrt miðstjórn Alþýðusambands Íslands frá hugmyndum hlutlausra sérfræðinga varðandi hugsanlegar breytingar á núgildandi vinnulöggjöf. Það voru þrír menn fengnir til þess að fara yfir vinnulöggjöfina eða leggja fram hugmyndir til breytinga. Meðal þessara manna er Jón Þorsteinsson fyrrv. þm. Alþfl., og ég geri ráð fyrir því að hv. 8. landsk. treysti honum manna best til þess að fjalla þannig um þessi mál að það ætti ekki að skaða alþýðu manna í landinu.

Annars finnst mér það utan við meginefni þess máls, sem hér er til umr., að vera að ræða um vinnulöggjöfina. Vinnulöggjöfin er ekki hér til umr., heldur breytingar á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna. Það hefur komið hér fram, m.a. hjá hv. 7. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðssyni, að það, sem hér er til umr., þ.e.a.s. þau frv., væri raunverulega fyrsta skrefið í þá átt að veita opinberum starfsmönnum fullan verkfallsrétt. Hann talaði einnig um það að með því að veita þann takmarkaða rétt, sem felst í frv. væri ekki verið að veita opinberum starfsmönnum sama rétt og félögunum í almennu verkalýðsfélögunum, þ.e.a.s. hinu almenna launafólki úti í atvinnulífinu sem ekki flokkast undir það að vera opinberir starfsmenn og verndaðir samkv. því með löggjöf. Ég vil vekja athygli á því að hinn almenni launamaður úti á vinnumarkaðnum nýtur ekki sama réttar á mörgum sviðum eins og opinberir starfsmenn njóta nú í dag án þess að þessi löggjöf komi til. Ég vil vekja athygli á því að opinberir starfsmenn hafa hlunnindi sem hinn almenni launamaður nýtur ekki. Minni ég þar sérstaklega á það að þeir hafa verðtryggðan lífeyrissjóð. Það er ekki lítil kjarabót, ekki hvað síst á verðbólgutímum. Þá vil ég minna á það að opinberir starfsmenn njóta hagkvæmari orlofskjara heldur en hinn almenni launamaður. Og síðast, en ekki síst vek ég athygli á því, að þeir njóta svokallaðrar æviráðningar. Og æviráðning er ekki lítils virði og hefur aldrei verið lítils virði.

Ég er þeirrar skoðunar að það skref, sem verið er að stíga með þeim lögum sem hér eru til umr., muni hafa mikil og djúpstæð áhrif í för með sér í framtíðinni, miklu meiri áhrif en ég held að hv. þm. annaðhvort vilja kannast við eða fjalla um frammi fyrir alþjóð í þessum umræðum.

Það hefur ekki verið minnst á það hvað sá fjöldi sé mikill sem mun fá verkfallsréttinn, en njóta jafnframt æviráðningar. Eftir því sem opinberar skýrslur greina frá munu vera 10–12 þús. opinberir starfsmenn í landinu. Lauslega áætlað munu vera um 40 þús. manns á hinum almenna vinnumarkaði sem flokkast ekki undir opinbera starfsmenn, þ.e.a.s. ársstarfsmenn, og auk þess koma bændur, sjálfstæðir vinnuveitendur, o.s.frv. þar til viðbótar. Þessi mikli fjöldi opinberra starfsmanna, sem ég tel auðvitað eins og allir hv. þm. að eigi að njóta góðra kjara eins og aðrir launþegar í landinu, hefur því miður reynst íslensku þjóðinni fjárhagslega ofviða síðustu árin. Það er hið mikla vandamál hv. Alþ. og ríkisstj. hvernig á að leysa fjármál hins opinbera á hverjum tíma. Meginhluti ríkisútgjalda er launakostnaður. Atvinnuvegirnir rísa varla undir hinu mikla ríkisbákni þannig að spurningin er sú: Hvað er hægt að gera til þess að draga saman seglin? Það hefur ekki enn tekist að finna lausn á því máli vegna þess m.a. að það er ekki hægt að leggja niður störf hjá ríkinu eða breyta þar til með sama hætti og á almennum vinnumarkaði.

Ég er ekki að leggja til, nema síður sé, að það eigi að segja upp opinberum starfsmönnum sem slíkum. En það getur verið nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að gera breytingar hjá hinu opinbera eins og annars staðar í atvinnulífinu eftir því sem aðstæður og möguleikar þjóðarinnar gefa tilefni til á hverjum tíma.

Ég er þeirrar skoðunar og vil láta það álit koma fram að ég get ekki stutt það frv. eða þau frv., sem hér eru nú til umr., í því formi sem þau liggja fyrir hv. Alþ. Ég tel að þessi frv. séu ófullnægjandi og í þeim felist ákveðið misrétti gagnvart hinum almenna launamanni sérstaklega. Það er ekki nægilegt að segjast vilja skapa öðrum meiri rétt ef maður getur ekki tryggt að það sé ekki gert á kostnað fjöldans. Ég er þeirrar skoðunar að ef æviráðning og verkfallsréttur fari saman hjá takmörkuðum hópi manna, í þessu tilfelli opinberum starfsmönnum, þá muni það koma niður á hinum almenna launamanni og sérstaklega atvinnulífinu í landinu í framtíðinni ef ekki er farið varlega með þennan verkfallsrétt. Það er auðvitað grundvallaratriði.

Verkfallsréttur og æviráðning eru að mínu mati, miðað við íslenskar þjóðfélagsaðstæður, ósamrýmanleg. Það þykir kannske ekki henta að stjórnmálamaður gefi slíka yfirlýsingu, en mín skoðun er sú að ef ekki er farið varlega með verkfallsréttinn hjá hinu opinbera, þá muni það vera orð að sönnu að ósamrýmanlegt er að hafa þetta hvort tveggja á einni hendi, auk þess sem þessi tvöfaldi réttur skapar gífurlegt misrétti gagnvart öðrum þjóðfélagshópum sem njóta ekki æviráðningar og tryggingar fyrir fullri atvinnu hvað sem á dynur. Auk þessa mun þessi réttur á sömu hendi valda ríkisvaldinu og sveitarfélögunum gífurlegum vandamálum í framtíðinni. Ég leyfi mér að fullyrða vegna þeirrar reynslu sem ég hef fengið sem aðili að því að beita verkfallsvopninu að hér er raunverulega verið að búa til vopn sem setur hv. Alþ. og ríkisstj. í framtíðinni algerlega upp við vegg sé því beitt af fullri hörku og miskunnarleysi, og þá verður lýðræðinu hætt í okkar ágæta landi. (Gripið fram í: Þú beitir ekki verkfallsvopninu öðruvísi Guðmundur.) Verkfallsvopn er neyðarréttur. Það var hugsað sem neyðarréttur á sínum tíma vegna þeirra sem áttu í vök að verjast. Við höfum horft upp á það hvernig verkfallsvopnið hefur verið notað af hátekjustéttum í þessu þjóðfélagi, þ.e.a.s. hátekjufólki, og mér finnst það ekki koma nógu skýrt fram í þessu frv. hvernig línan er dregin milli þessara stétta.

Það hafa allar ríkisstj. þurft að setja brbl. til þess að forða frá verkföllum hjá svokölluðum hátekjuhópum, og ég geri ráð fyrir því að sá vandi muni einnig koma upp þegar þessi réttur verður notaður fyrir opinbera starfsmenn. Ég vil taka það einnig mjög skýrt fram að ég er fylgjandi auknum kjarahótum og auknum réttindum til handa opinberum starfsmönnum sem öðru launafólki í landinu. En þá vil ég einnig undirstrika það sem samþykkt var með öllum greiddum atkv. á kjaramálaráðstefnu Alþýðusambands Íslands 4. des. s.l., að um leið og opinberir starfsmenn öðluðust þennan rétt, þá skyldu þeir sitja við sama borð og aðrar stéttir í landinu. Þessi samþykkt var gerð 4. des. 1975 af öllum forustumönnum Alþýðusambandsins á kjaramálaráðstefnu í Tjarnarbúð í Reykjavík. Framangreindur hluti þeirrar ályktunar, sem gerð var vegna kjaramála ASÍ á þeim tíma, var ekki þannig orðaður í upphafi. En breyting var gerð á fram komnu uppkasti varðandi þennan lið. Hinir róttæku aðilar og fleiri innan Alþýðusambandsins, sem sátu þessa ráðstefnu, bættu við að þeir væru sammála því að opinberir starfsmenn fengju verkfallsrétt, en þá skyldu þeir líka sitja við sama borð og annað fólk í landinu. Með því var átt við það að fyrir verkfallsréttinn skyldi æviráðningin afnumin, sem er rökrétt hugsun, nema eitthvað annað liggi að baki hjá þeim sem sækja þennan rétt hvað ákafast fyrir opinbera starfsmenn.

Nú er mér kunnugt um það að meðal opinberra starfsmanna eru mjög skiptar skoðanir um verkfallsréttinn. Við mig hefur rætt fjöldi manns og tjáð sig um það að þeir hafi ekki áhuga á verkfallsréttinum sem slíkum.

Að lokum vil ég segja þetta: Ég er fylgjandi því út af fyrir sig að opinberir starfsmenn fái fullan verkfallsrétt, en á móti komi að þeir sitji við sama borð og aðrar stéttir þjóðfélagsins, þ.e.a.s. að þeir njóti ekki æviráðningar á meðan aðrir njóta þess ekki að hafa ætið tryggða fulla atvinnu. Með tilliti til þess að ég tel að þessi frv. fullnægi ekki þessu sjónarmiði né öðrum, er ég hef fyrr frá greint, þá mun ég ekki greiða þeim atkv. mitt.