18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár til þess að gera að umræðuefni þá atburði sem hafa verið að gerast nú hina síðustu daga í landhelgismálinu. Vel má vera að hv. þm. þyki það orðið alltítt að umr. utan dagskrár eigi sér stað varðandi landhelgismálið, en þær aðferðir og vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. hefur valið að beita við meðferð þessa máls, gera slíkt knýjandi, þ. e. a. s. öll sú leynd sem yfir þessu hvílir, hvað er að gerast, hún er ástæðan til þess að menn nauðugir viljugir eru til þess hvattir beinlínis að fara inn á þá braut sem verið hefur að undanförnu.

Það er öllum ljóst, að alls konar samningaviðræður, óformlegar, formlegar, og að því er virðist alls konar samningamakk hefur átt sér stað hér í Reykjavík undanfarna viku, og á það við bæði varðandi breta og vestur-þjóðverja. Í dag mun hafa farið til Vestur-Þýskalands sendinefnd af hálfu íslendinga til samningaviðræðna við þjóðverja um landhelgismálið. En aðalástæðan fyrir því að ég hef kvatt mér hljóðs er sú, að í viðtali við sjónvarpið í gærkvöld viðhafði aðalforsvarsmaður breta í þeim málum, Hattersley, ummæli sem ég að engu leyti get látið hjá líða að gera að umræðuefni hér á Alþ., en í þessu viðtali staðhæfði hann að boð hæstv. ríkisstj. um 65 þús. tonna kvóta til handa bretum innan landhelginnar hefði komið fram fyrir þremur víkum, þ. e. a. s. það lætur nærri að slíkt tilboð, sé rétt með farið hér af hálfu breska fulltrúans, hafi komið fram um þær mundir sem samningafundurinn í London var haldinn. Ef þetta er rétt, þessi fullyrðing Hattersleys, þá hefur okkur, sem eigum sæti í landhelgisnefnd, ekki verið skýrt rétt frá gangi mála að þessu leyti, vegna þess að þessar upplýsingar eru aðrar en okkur hafa verið látnar í té varðandi viðræður við breta í London fyrir um þremur víkum. Aðalástæðan fyrir því, að ég stend hér upp og geri þetta að umræðuefni, er þessi fullyrðing bretans um 65 þús. tonna tilboð af hálfu hæstv. ríkisstj. til handa bretum fyrir þremur vikum. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort hinn breski ofjarl hæstv. ríkisstj., að því er virðist vera, fari hér með rétt mál, því að ef svo er, þá höfum við verið leyndir þessum upplýsingum, og ég tel nauðsynlegt að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort þessi viðkomandi einstaklingur fer hér með rétt mál.

Í áframhaldi af þessu, þá er það öllum ljóst að nú er það staðreynd að íslenska ríkisstj. hefur gert bretum tilboð um 65 þús. tonna veiðiheimildarkvóta hér á næsta ári, sem bretar að vísu afneituðu að sinni a. m. k. Þetta þýðir í reynd þann alvarlega hlut, að búið er í raun og veru, ef af þessu verður, þótt síðar verði, að bretar taki þessu tilboði, þá er búið að festa raunverulega í samningum við erlenda aðila um 25–30% af því aflamagni sem talið er að megi taka hér við land á næsta ári að dómi sérfræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar. Mér a. m. k. dettur ekki í hug, verði samið við vestur-þjóðverja sem ráðamenn hæstv. ríkisstj. telja allar líkur benda til, a. m. k. sé jákvætt hugarfar hjá þeim að þeirra mati, annað en að þá sé það undanfari samninga við breta, það sé undanfari að öllum líkindum að samningum við belga, norðmenn, færeyinga, pólverja, austur-þjóðverja, rússa. Það er því ljóst að ef sú verður á raunin, sem allar líkur benda til, að samningar séu í burðarliðnum að því er varðar vestur-þjóðverja, tilboð hæstv. ríkisstj. stendur væntanlega til breta um 65 bús. tonn og síðan koma hinar þjóðirnar koll af kolli, að þá verður búið að binda innan stutts tíma svo stóran hluta af því aflamagni, sem taka má af miðunum, að hér er að mínu viti um stórhættulega stefnu að ræða.

Þetta tilboð hæstv. ríkisstj. til breta, sem hún hefur nú gert og er orðið staðreynd, felur það í raun og veru í sér að hæstv. ríkisstj. er þegar búin að festa sig í samninganetinu að því er varðar landhelgismálið. Það er vandséð með hvaða hætti hún gæti, ef sinnaskipti yrðu á því heimili, losað sig úr því neti.

Það er því ljóst að atburðir síðustu viku og nú síðustu helgar hafa leitt það í ljós að hæstv. ríkisstj. hefur stefnt og stefnir umfram allt að samningum í landhelgismálinu. Þetta er að mínu viti stefna sem býður upp á þjóðarvoða. Þetta er stefna sem beita verður öllum ráðum, tiltækum og löglegum, til að koma í veg fyrir að nái fram að ganga.

En eins og ég sagði áðan, aðalerindi mitt að þessu sinni var fyrst og fremst að óska eftir því við hæstv. forsrh. að hann gerði grein fyrir því hvort Hattersley í sinni fullyrðingu, — því að ég hygg að fleiri hv. þn. en ég hafi tekið eftir í sjónvarpsviðtali í gærkvöld að það var fullyrðing, bláköld, um að hæstv. ríkisstj. hefði gefið 65 þús. tonna tilboð til handa bretum fyrir þremur vikum, — ég óska eftir því að hæstv. forsrh. geri grein fyrir því hvort hér er um rétt mál að ræða, því að sé svo, þá höfum við í landhelgisnefnd verið leyndir því, og það er nauðsynlegt að það komi hér fram hvort svo er.