17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4417 í B-deild Alþingistíðinda. (3818)

132. mál, dýralæknar

Ingólfur Jónsson:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð. Með því að samþykkja þetta frv. eru stofnuð tvö dýralæknisembætti. Hv. 2. þm. Vestf. flutti frv. í Ed. um að stofna sérstakt dýralæknishérað í Strandaumdæmi. Yfirdýralæknir ræddi við mig á fyrra ári um það að nú væri orðið svo mikið ósamræmi í sambandi við Helluhérað miðað við önnur héruð, eftir að dýralæknum hefur fjölgað, að það væri óhjákvæmilegt að bæta dýralækni við í Rangárvallasýslu. Hann gaf upp gripafjöldann og benti á ósamræmið. Það er fróðlegt að rifja það upp að það eru ekki nema fáir tugir ára síðan dýralæknir settist að á Selfossi og var eini dýralæknir á Suðurlandi. Löngu síðar var stofnað sérstakt dýralæknishérað á Hellu fyrir alla Rangárvallasýslu og enn nokkru síðar var stofnað dýralæknishérað í Laugarási þannig að í Árnessýslu urðu tveir dýralæknar. Fyrir nokkrum árum var stofnað sérstakt dýralæknishérað fyrir Vík og tvo austustu hreppa Rangárvallasýslu og einnig fyrir austurhluta Vestur-Skaftafellssýslu að Kirkjubæjarklaustri. Nú þykir það allt of mikið fyrir einn mann að hafa 9 hreppa í Rangárvallasýslu og var bent á ósamræmið með gripafjöldann í héraðinu. Yfirdýralæknir tók það sérstaklega fram að dýralæknirinn á Hellu gegndi sínu starfi mjög vel og væri ekkert undan því að kvarta, en með þeirri ræktun og með þeirri aukningu á búpeningi, sem orðið hefur í sýslunni, og miðað við það hversu dýralæknum hefur fjölgað víðs vegar um landið, þá væri ekki lengur við það unandi að hafa aðeins einn dýralækni í Helluhéraði eins og verið hefur.

Mér finnst rétt að vekja athygli á þessu vegna þess að nú er talað um að það séu þeir tímar sem ekki eigi að stofna til fjölgunar í embættisrekstrinum. Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að yfirdýralæknir telur þetta nauðsynlegt, og þess vegna var það, eins og hv. frsm. lýsti hér áðan, að hv. Ed. hefur samþykkt frv. einróma og landbn. þessarar d. mælir eindregið með því að frv. verði samþykkt.