18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég skal með ánægju svara fsp. hv. 5, þm. Vestf., og svar mitt er að upplýsingar forsvarsmanns breta, Hattersleys aðstoðarutanrrh., eru rangar. Það hafa engin boð frá íslensku ríkisstjórnin í verið flutt bretum fyrir þremur víkum sem hljóða upp á 65 þúsund tonna hámarksafla þeim til handa hér við land. Sú hugmynd, sem fólst í 65 þús. tonnunum og hæstv. utanrrh., Einar Ágústsson, hefur gert grein fyrir í opinberum fjölmiðlum, var fram borin á sunnudaginn í óformlegum víðræðum þeirra á milli, Einars Ágústssonar og Hattersleys, og tel ég því fsp. fullsvarað.

Ég tel samt nauðsynlegt til viðbótar, að gefnu tilefni, að það komi fram að við töldum rétt, þegar útlit var fyrir að slitnaði upp úr samningaviðræðum við breta, að íslendingar gerðu lýðum ljóst, bæði samherjum sínum meðal annarra þjóða, á vettvangi hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna svo og hér innanlands, hvað þeir gætu hæst hugsað sér að fara í þeim efnum að veita bretum veiðiheimildir hér við land. Ef ófriður átti að ríkja á íslenskum miðum, þá þurfti þessi afstaða að vera kunn og gerð opinber. Það hefur þýðingu fyrir málstað okkar og fylgi við málstað okkar á alþjóðavettvangi. Hér var um hugmynd um hámarksafla að ræða, — hugmynd sem bundin var mörgum skilyrðum. Það var skilyrði um viðurkenningu á 200 mílunum og tollaívilnunum okkur til handa skv. bókun 6 í samningi okkar við Efnahagsbandalagið. Þessi hugmynd er einnig bundin þeim skilmálum að samkomulag náist um veiðisvæði, um tölu fiskiskipa og um veiðitíma, um samningstíma og um friðunarsvæði og aðrar friðunaraðgerðir.

Ég held að það fari ekki á milli mála að nú sé öllum ljóst, sem um þessi mál fjalla, bæði hérlendis og erlendis, að íslendingar hafa sýnt fullkomna sanngirni, en viðræðuaðilar okkar, bretar, fullkomna óbilgirni.

Það má vissulega meta það og vega að hve miklu leyti íslendingar eiga að leggja áherslu á að komast að samkomulagi í þessu deilumáli sínu við aðrar þjóðir. Viðmiðunin í því mati hlýtur að mínu áliti að vera með hvaða hætti íslendingar ná sem fyrst og sem frekast stjórn á íslenskum fiskimiðum. Skýrsla íslenskra fiskifræðinga sýnir að við höfum lítið sem ekkert af hendi að láta. En rannveruleikinn getur orðið sá, að það sé tekið af okkur hvort sem við semjum eða semjum ekki. Ef það er gert með valdi af öðrum, þá getur það verið gert með þeim hætti að fiskistofnunum sé meiri skaði gerður heldur en ef við með samningum náum fullkominni stjórn á okkar eigin fiskimiðum. Það er þessi viðmiðun sem er okkur til leiðbeiningar og leiðsagnar í samningum og viðræðum við aðrar þjóðir.

Vissulega ætti okkur íslendingum að vera þannig innanbrjósts og við ættum frekar en aðrar þjóðir að vera þeirrar skoðunar að leysa bæri deilumál við önnur ríki með samkomulagi. Við erum friðelskandi þjóð, viljum hafa góða sambúð við allar aðrar þjóðir, og það er markmiðið með viðræðum okkar við aðrar þjóðir vegna þessa máls.

Ég held að það verði ekki sagt, eins og nú er málum komið, að það stefni að samningum í landhelgismálinu. Ég á von á því að það verði langt tímabil sem ósamkomulag ríkir við breta, því að við höfum sagt það sem við lengst getum gengið í þessu máli gagnvart þeim. Þeir hafa nánast ekki hreyft sig frá upprunalegri stöðu sinni, og þeir um það, ef þeir telja það sæma sínum málstað. Fyrir okkur liggur ekki annað verkefni en að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að verja okkar 200 mílna fiskveiðilögsögu, og það munum við gera, á meðan við reynum samhliða að komast að sanngjörnu samkomulagi við aðrar þjóðir sem hér um ræðir. Kemur þá í ljós hvort við eigum frekari sanngirni að mæta af þeirra hálfu en af hálfu breta. Ég vænti þess og vona, þótt ekkert verði um það fullyrt á þessu stigi málsins.