17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4418 í B-deild Alþingistíðinda. (3826)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. meiri hl. (Ellert B. Schram):

Virðulegi forseti. Frv. til l. um námslán og námsstyrki var lagt fram í Ed. og fékk þar ítarlega skoðun í þeirri n. sem málinu var vísað til, þ.e.a.s. menntmn. Að þeirri athugun lokinni voru lagðar fram nokkrar brtt. og í því formi var frv. samþ. úr þeirri hv. deild.

Menntmn. Nd. hefur athugað frv. og er skemmst frá því að segja að n. hefur klofnað í afstöðu sinni til þess. Meiri hl. n., sem ég er frsm. fyrir, mælir með að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur nú fyrir.

Ég tel ástæðulaust að hafa langa framsögu með þessu áliti meiri hl. Frv. um námslán og námsstyrki og málefni þessa lánasjóðs hafa verið rædd ítarlega, bæði utan sem innan þings, og liggur fyrir að ágreiningur er um þetta mál og í sjálfu sér til lítils gagns að vera að rökræða það mikið á þessu stigi málsins. Þó vil ég aðeins fara nokkrum orðum um aðalatriði þessa máls.

Það hefur legið ljóst fyrir í nokkuð langan tíma að Lánasjóðurinn stendur ákaflega illa fjárhagslega. Lán námsmanna hafa þróast með þeim hætti að um er að ræða að mestu leyti styrki og tekjur sjóðsins vegna endurgreiðslna eða afborgana og vaxta frá lánþegum eru mjög óverulegar. Var því flestra, ef ekki allra dómur að nauðsynlegt væri að endurskoða þessa löggjöf og herða nokkuð endurgreiðslufyrirkomulagið og gera þannig sjóðnum kleift að standa a.m.k. betur undir greiðslum úr honum. Það var líka almennt álit manna að breyta þyrfti löggjöfinni á þann veg að námsmenn fengju fyllri aðstoð og að mörg ákvæði laganna þyrftu að vera nákvæmari og ítarlegri en nú er.

Af hálfu rn. var skipuð n. til þess að yfirfara löggjöfina og gera till. um breytingar. Í þessari n. áttu sæti fulltrúar rn., fulltrúar þingflokka, ríkisstj. og fulltrúar námsmanna. Fljótlega kom í ljós að námsmenn voru til viðræðu um að lánin yrðu verðtryggð, enda yrði þá tekið tillit til tekna námsmanna þegar endurgreiðslur þeirra væru ákveðnar. Á þetta meginsjónarmið var fallist í n. og virtist vera útlit fyrir að samkomulag gæti orðið um sameiginlegar till. frá þessari n. Þar kom þó að ágreiningur kom upp um hvort rétt væri að hafa löggjöfina þannig að víss hluti námsmanna, sem fengið hefði undir vissum kringumstæðum veruleg lán úr sjóðnum, gæti sloppið við að greiða nokkuð til baka, ef sem sagt tekjur þeirra gæfu ekki tilefni til þess.

Það var mat a.m.k. mitt og nokkurra annarra að það væri ekki réttlátt, það væri ekki skynsamlegt að ganga þannig frá löggjöfinni að slíkt yrði mögulegt. Það yrði að gera þá meginkröfu að hver einstakur lánþegi greiddi til baka til sjóðsins einhverja ákveðna upphæð án tillits til tekna, einhverja lágmarksupphæð, en síðan yrði tekið tillit til tekna hvað snertir afborgunina sjálfa. Forsendan fyrir þessari skoðun minni og ýmissa fleiri var sú, að möguleikar fólks, sem stundað hafa nám, og reyndar í öllum stéttum þjóðfélagsins, — möguleikar þessa fólks til þess að telja fram tekjur sinar eru mjög mismunandi og það er opinbert leyndarmál ,á Íslandi að margir hafa allgóðar tekjur án þess að þær komi fram, og það væri ekki réttlátt að þeir slyppu alfarið við að greiða af lánum sínum. Því kom upp sú hugmynd að setja ákveðna lágmarksupphæð sem mönnum yrði gert að greiða án tillits til teknanna. Voru nefndar í því sambandi 50 þús. kr. og það var sett inn í frv. upphaflega. Sú upphæð hefur nú verið lækkuð í 40 þús. kr. Að frágenginni þessari lágmarksupphæð er gert ráð fyrir því í frv. að endurgreiðslur miðist við tekjur manna.

Um það má að sjálfsögðu deila hver þessi upphæð á að vera, hvort hún á að vera 50 þús., 40 þús., eitthvað lægri eða eitthvað hærri. En eftir atvikum er það mitt álit að meiri hl. n., sem um þetta hefur fjallað nú, að hér sé ekki um of háa upphæð að ræða og ætti ekki að vera venjulegum borgara ofvaxið að greiða það sem lágmarksupphæð til baka vegna þeirrar fyrirgreiðslu sem viðkomandi hefur fengið hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Að þessari lágmarksupphæð frágenginni, þá er sem sagt meginstefnan í frv. sú að endurgreiðslur miðist við tekjur, og er það í samræmi við upphaflegar till. námsmanna.

Annað atriði, sem orðið hefur nokkur ágreiningur út af, er orðalag í 3. gr. frv. þar sem segir: „Stefnt skal að því að opinber aðstoð við námsmenn samkv. lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði“ o.s.frv. Námsmenn sérstaklega hafa átalið að ekki skyldi kveðið fastar að orði og beinlínis tekið fram að hin opinbera aðstoð skuli nægja hverjum námsmanni o.s.frv. Það skal viðurkennt að það orðalag hefði verið ótvíræðara og æskilegra. En það er mat hæstv. menntmrh. og stjórnvalda nú og hefur reyndar verið raunin áður að mjög erfitt er fyrir stjórnvöld hverju sinni að fullnægja þeim kröfum sem slíkt ákvæði mundi gera og það gæti orðið erfitt í framkvæmd eins og á stendur í fjármálum þjóðarinnar að gefa út slíka ótvíræða skuldbindingu. Með hliðsjón af þessu ástandi og þessum viðhorfum, með hlíðsjón af reynslunni í gegnum árin, þá hefur meiri hl. n. orðið sammála um að láta þetta orðalag standa óbreytt. En það er gert í trausti þess að núv. ríkisstj. og stjórnvöld í framtíðinni stefni að því að opinbera aðstoðin verði í raun og veru fullnægjandi fyrir hvern og einn námsmann. Og það er trú mín að af því geti orðið áður en mjög langt líður. Ekki síst er von til þess þegar tekjur Lánasjóðsins munu aukast með samþykkt þessa frv.

Þetta eru þau tvö meginatriði sem ágreiningur hefur orðið út af vegna þessa frv. Önnu minni háttar atriði hafa að sjálfsögðu komið til umr. og valdið deilum, en þau eru ekki veruleg að mínu mati og meiri hl. n., eru ekki þess eðlis að þau ráði úrslitum um það hvort frv. eigi að ná fram að ganga eða ekki, og því geri ég þau ekki að umtalsefni.

Herra forseti. Ég hef þessa framsögu ekki lengri, en legg til fyrir hönd meiri hl. n. að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.