17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4420 í B-deild Alþingistíðinda. (3827)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. minni hl. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. minni hl. hefur einn nm. skrifað undir það álit með fyrirvara, og ef menn huga að brtt. á þskj. 844 og 845, þá munu menn sjá í hverju sá fyrirvari er fólginn. En hv. þm. Magnús T. Ólafsson mun gera grein fyrir fyrirvara sínum hér á eftir í ræðu. Brtt. á þskj. 844 flytjum við minni hl. n. og auk okkar hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason. Brtt. á þskj. 845 flyt ég ásamt hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni.

Það var rétt, sem kom fram í máli hv. frsm. meiri hl., að þetta frv. hefur verið ákaflega mikið rætt, hann sagði að vísu bæði utan þings og innan, en ég hygg að réttara sé þó að þetta mál hafi verið rætt meira utan þings. En þær umr., sem þar hafa farið fram, virðast ekki hafa náð hingað inn í hv. Alþ. og ekki verið tekið tillit til þeirra grundvallarsjónarmiða sem námsmenn sjálfir hafa lagt fram. Í rauninni er öll meðferð málsins verri en þetta. Það er ekki einu sinni svo að till. námsmanna hafi ekki fengið hljómgrunn, heldur hefur ríkisstj. tekið till. námsmanna og afskræmt þær svo að niðurstaðan út úr þessu verki ríkisvaldsins er sú að hér er verið að stofna sjóð sem veitir óhagstæðustu lán sem til eru á Íslandi ef að lögum verður.

Hv. frsm. meiri hl. tók fram að verðtrygging hefði verið till. námsmanna. Ég vil leggja á það áherslu að það er ekki hægt að orða það svo að verðtrygging hafi verið till. námsmanna. Í till. þeirra fólst einungis það að verðtrygging skyldi ná til hátekjumanna eingöngu, en lágtekjumönnum hlíft. Þetta var grundvallarskilyrði í till. námsmanna og verður að líta á allt málið í ljósi þess. Þeir voru reiðubúnir, námsmenn, að fallast á að endurgreiðslukjörin yrðu endurskoðuð og verðtryggð fyrir hátekjumenn. Kröfur þeirra voru einnig þær að þegar svo væri komið, að sjóðurinn efldist með þessu nýja endurgreiðslukerfi, þá væri unnt að ná fram meginkröfu þeirra, sem var 100% brúun umframfjárþarfar. Á þetta hefur hæstv. ríkisstj. og hv. meiri hl. menntmn. ekki viljað fallast, þannig að ég tel engan veginn verjandi lengur að tala um till. námsmanna í þessu sambandi. Þetta verður að skoðast sem algert afsprengi ríkisstj., og hún verður að standa ábyrg fyrir sínu verki og þeim afleiðingum sem þetta frv., ef að lögum verður, kemur til með að hafa.

Ég hef ekki heyrt nein frambærileg rök stjórnarsinna fyrir því að sú dæmalausa stefna hefur verið tekin sem nú er komin í ljós. Jafnvel þótt menn væru ósamþykkir till. námsmanna um að hlífa láglaunafólki, þá er sá ágreiningur engan veginn réttlæting þess að fara þá leið sem hér er farin, að gera endurgreiðslukjörin þau langhörðustu sem við þekkjum. Hér er beinlínis stefnt að því að fæla menn frá því að taka þessi lán, og það liggur í augum uppi að einungis þeir, sem eiga von í háum launum að námi loknu, muni treysta sér til þess að taka þennan skuldabagga á sig, en aðrir ekki. Með þessu frv., námslánafrv., er því augljóst að ríkisstj. er að ýta undir það að hálaunamönnum fjölgi, því að af þessu frv. mun leiða það að ásókn eykst í þær námsbrautir eða það nám sem mun beinlínis gefa af sér háar tekjur. Hinir munu reyna að hafa þá aðferð, sem farin var áður en nokkur lánasjóður var stofnaður, þ.e.a.s. reyna einhvern veginn að klóra í bakkann með því að vinna með náminu eða þá hætta námi með öllu. Það er því eftir öðrum verkum þessarar ríkisstj. að níðast svo á lítt fjáðum námsmönnum og beinlínis loka fyrir þeim menntabrautinni.

Það hefur borið nokkuð á því í umr. að menn hafa einblínt á hóp hálaunamanna í þjóðfélaginu sem hefur stundað nám í háskóla. En ég vil benda á það og held að hv. þm. verði að hafa það hugfast að lánasjóðurinn veitir fleirum en háskólanemendum lán. Það eru fjölmargir skólar sem hafa nú rétt til námslána úr sjóðnum. Nægir þar að benda á Fósturskólann, Fiskvinnsluskólann, Stýrimannaskólann, Vélskólann, Tækniskólann, Kennaraháskólann. Það liggur í augum uppi að ekki gengur þetta fólk allt inn í hálaunastörf að námi loknu, auk þess sem vara ber eindregið við þeirri ímyndun að allir, sem ljúka háskólaprófi, fari í hálaunastörfin. Líklega er það aðeins minni hluti þeirra, sem ljúka háskólanámi, sem fer í hæstu tekjuflokka. Flestir háskólaborgarar lenda trúlega í miðlungstekjuflokki í þjóðfélaginu. Þetta eru staðreyndir sem menn verða að hafa í huga þegar verið er að fjalla um svona mál.

Það er allra manna mál að námslán hafa fram til þessa verið á mjög hagstæðum kjörum og þau hafa í óðaverðbólgu seinustu ára í reynd orðið að mestu leyti styrkir, og jafnvel námsmenn sjálfir voru á því að þetta þyrfti að laga, þannig að ágreiningurinn felst ekki í þessu. Og verðtrygging nokkurs hluta lánanna hefði að sjálfsögðu komið til greina og ekki verið óeðlileg. En hitt ber að víta, að námslánin séu nú í einni svipan gerð að óhagstæðustu lánum sem þekkjast á íslenskum lánamarkaði.

Ég vil, vegna þess að hv. frsm, meiri hl. kom inn á till. námsmanna, gera hér grein fyrir þeim. Í till. kjarabaráttunefndar námsmanna var námsmönnum skipað í þrjá hópa. Í fyrsta hópnum voru þeir sem munu hafa meira en tvöfaldar tekjur vísitölufjölskyldu á ári sem mun vera fast að 3 millj. kr. á núverandi verðlagi. Þessir menn hefðu endurgreitt lán sín með fullri verðtryggingu á tiltölulega skömmum tíma. Í öðrum hópnum voru þeir sem höfðu ásamt maka sínum meira en nemur viðmiðunartekjum vísitölufjölskyldu eða meira en 1400–1500 þús. kr. Þessir lántakendur áttu að greiða 3.5% af heildartekjum fjölskyldunnar í allt að 20 ár. Gagnvart þeim hærri í þessum tekjuhópi hefði því orðið um að ræða endurgreiðslu lána með fullri verðtryggingu, en gagnvart þeim tekjulægri hefðu lánakjörin orðið mjög hófleg. Í þriðja hópnum voru þeir lánþegar sem hugsanlega höfðu að námi loknu lægri tekjur en 1400–1500 þús. kr. á núverandi verðlagi að tekjum maka meðtöldum, en þeir hefðu alveg sloppið við endurgreiðslu lána a.m.k. það árið. Þetta voru till. námsmanna.

Við í minni hl. höfum lagt til, að farin yrði millileið, í þeirri von að það væri á síðustu stundu hægt að koma vitinu fyrir hv. þm. í þessari hv. d. Ég ætla fyrst, áður en ég fer að lýsa brtt. okkar, að rifja upp það sem felst í frv.

Í frv. eins og það liggur nú fyrir, er gert ráð fyrir því að allir lántakendur greiði a.m.k. 40 þús. kr. á ári án tillits til tekna og sú upphæð á að hækka í samræmi við framfærsluvísítölu. Eins og komið hefur fram í bréfi Þjóðhagsstofnunar sem barst hv. Ed. þegar málið var þar til umfjöllunar, þá mun þessi fasta lágmarksendurgreiðsla, 40 þús. kr., ef miðað er við meðallán í þeirri úthlutun sem nú er nýlokið, skila sjóðnum hvorki meira né minna en 62% af raungildi veittra lána, og eftir því sem segir í þessari skýrslu eru þetta nákvæmir útreikningar. Þessi upphæð ein, 40 þús., sem nú á að gera að lögum, skilar sjóðnum 62% af raungildi. Ofan á þetta ætlar svo ráðh. að bæta sérstakri aukaafborgun sem svo er kölluð, en að því mun ég víkja síðar.

Á þskj. 844 leggur minni hl. til að þessi fasta lágmarksendurgreiðsla, 40 þús. kr., verði felld niður, það er 3. brtt. okkar. Við leggjum til að laun, sem eru fyrir neðan hálfar viðmiðunartekjur vísítölufjölskyldu, þ.e.a.s. eru fyrir neðan 600–700 þús. kr. tekjur á ári, sleppi algerlega við greiðslu í sjóðinn meðan launin eru ekki hærri en þetta, en þeir, sem eru fyrir ofan, greiði 2% af brúttótekjum sínum til sjóðsins allt þar til kemur upp í viðmiðunartekjur vísitölufjölskyldunnar, en þá er gert ráð fyrir að komi aukaafborgun sem nemi 2–12% af brúttótekjum allt upp í tvöfaldar viðmiðunartekjur, þó þannig að enginn greiði meira en 10% vergra tekna til skatts, en það ákvæði er sameiginlegt með till. námsmanna og till. ríkisstj. Þetta er aðaltill. okkar þremenninganna og er á þskj. 844.

Þá leggjum við til að upphaf 2. mgr. orðist eins og stendur á þskj: Í frv. er þetta svo, að Lánasjóði er eingöngu heimilt að veita fjárhagsaðstoð öðrum námsmönnum en þeim sem tilgreindir eru í 1. mgr. þessarar gr. o.s.frv., en við teljum eðlilegt að þarna sé tekið af skarið og tekið fram skýrt og skorinort að þetta skuli gera.

2. brtt. okkar varðar stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Við leggjum til að stjórn Lánasjóðs námsmanna sé óbreytt frá því sem nú er, en fylgjum þar till. kjarabaráttunefndar námsmanna. Við teljum full rök fyrir því að háskólaráð skipi einn mann í sjóðsstjórnina, en hins vegar teljum við algeran óþarfa að menntmrn. skipi tvo menn án tilnefningar. Nægilegt ætti að vera að menntmrn. skipaði einn og yrði hann þá jafnframt formaður sjóðsins. Okkur finnst í rauninni fráleitt að svipta stúdentaráð þeim rétti að tilnefna mann í stjórnina.

Þá leggjum við til að framkvæmdastjóri sjóðsins sé ráðinn samkv. till. sjóðsstjórnar.

4. brtt. okkar þremenninganna fjallar nm vanskilin, þar sem í frv. stendur með leyfi forseta: „Verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námslána skal stjórn sjóðsins heimilt að fella allt lánið í gjalddaga.“

Ég gerði þetta atriði að umtalsefni við 1. umr. málsins og tel algerlega fráleitt að hafa svo hörð ákvæði. Hér er eins og verið væri að gera ráð fyrir því að allir námsmenn væru glæpamenn, en ekki fólk, og ætti aldeilis að taka hörðum tökum ef einhver gæti ekki í eitt eða tvö skipti greitt skuld sína. Þetta ákvæði er vitaskuld svo fráleitt að ég skil ekkert í því að hv. meiri hl. skuli ekki geta komið til móts við minni hl. í þessu atriði. Við teljum rétt að hér verði beitt svipuðum reglum og beitt er í sambandi við álagningu skatta, þar sem menn eru einungis skyldaðir til þess að greiða einhverja dráttarvexti. Ég held að ég þurfi ekki að rökstyðja þessa brtt. frekar.

Þá vil ég vekja athygli á því að í brtt. okkar við 8. gr. leggjum við til að ný mgr. bætist við sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Endurgreiðslur á námslánum, sem veitt hafa verið samkv. eldri lögum, skulu hafðar til hliðsjónar við ákvörðun endurgreiðslna samkv. Íögum þessum. Skulu endurgreiðslur samkv. eldri lögum dragast frá þeirri upphæð sem lánþegi mundi ella greiða samkv. lögum þessum.“

Það er ákaflega óeðlilegt að þeir, sem hafa þegar tekið allmikil námslán samkv. núgildandi lögum og þurfa að greiða þau, að það sé ekki tekið tillit til þeirrar greiðslubyrði ef þetta frv. verður að lögum, t.d. varðandi það hvað samanlögð upphæð afborgunar og aukaafborgunar megi nema hárri upphæð. Að vísu er þakið í frv. 10% og lágmarkið 40 þús., en það væri þó sjálfsagt og eðlilegt að draga frá greiðslur vegna eldri lána, þannig að þeir, sem hafa tekið lán samkv. fyrra kerfi, borgi ekki meira en þó þessar lágmarksgreiðslur sem hér eru nefndar.

Herra forseti. Ég vil eindregið beina þeim, — ég sé að hæstv. menntmrh. var að ganga hér inn í salinn, það kann að vera að hann hafi heyrt tin mín, — en ég vil eindregið beina þeirri áskorun til hans að hann svari því hér á eftir hvernig ætlunin er að tengja þessar greiðslur saman hjá þeim sem verða skuldugir samkv. gamla kerfinu og svo þessu nýja sem ætlað er að taka við. Ég treysti því að hann muni gefa hér einhverja yfirlýsingu þess efnis að réttar þessa fólks verði gætt í hvívetna. Ég sjálf tel eðlilegt að það yrði samningsatriði milli stjórnar Lánasjóðsins og rn., — úr því að ekki verður hægt að koma neinni breytingu í frv., þá væri auðvitað æskilegt að ráðh. lýsti því hér yfir að hann kæmi slíkum samningsviðræðum á.

Ég hef gert grein fyrir þeim brtt. sem við flytjum þrjú.

1. brtt. á þskj. 845, sem ég flyt ásamt hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, fjallar nm 100% brúun umframfjárþarfar. Það virðist augljóst að þegar sjóðinn á að efla svo mjög að 80–90% lánanna muni skila sér aftur til sjóðsins með fullri verðtryggingu þegar allt er tekið með, bæði lágmarksgreiðslan og aukaafborganir, þá sé það raunar lágmarkskrafa að námsmenn fái fullt námslán.

Ég held að það sé rétt að fara örfáum orðum um þessa umframfjárþörf. Mér finnst í því sambandi hafa gætt nokkurs misskilnings í máli manna og kannske sérstaklega hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur hér við 1. umr. Þegar hv. þm. eru að hneykslast á þessari kröfu námsmanna, þá er eins og þeir hafi í huga einhverjar geysilegar upphæðir. En þetta er ekki rétt, því að þessi fulla framfærsla er auðvitað miðuð við það sem vantar þegar búið er að taka eigin tekjur námsmannsins sjálfs inn í dæmið. Að mati Lánasjóðsins er framfærslukostnaður einstaklings utan foreldrahúsa á Íslandi fyrir yfirstandandi skólaár 581 þús. kr. eða 48 400 kr. á mánuði. Lánasjóðurinn lánar að meðaltali 60% af þannig metnum kostnaði, en námsmenn brúa með eigin tekjum 40%, og þá eru eingöngu 10% óbrúuð. Mánaðarleg útgjöld að mati Lánasjóðsins eru því fjármögnuð þannig: eigin tekjur 19 360 eða 40%, námslán 24 200 eða 50%, og önnur fjáröflun er þá 4840 eða 10%. Að vísu mun þetta kostnaðarmat Lánasjóðsins of lágt og mun þar skeika um það bil 25% hjá einstaklingi utan foreldrahúsa eða 12 100 kr. á mánuði. Liðurinn önnur fjáröflun er því í raun og veru 16 940 kr. eða 28% af raunverulegum kostnaði og lánið því ekki nema 40%. Það er því mikill misskilningur þegar menn ímynda sér að miklum fjárhæðum sé ausið í hvern einstakling þó að 100% umframfjárþörf yrði brúuð.

2. brtt. á þskj. 845 fjallar um ábyrgðarmennina. Við gerum þar till, um að 3. mgr. 6. gr. falli niður. Í þeirri gr. er gert ráð fyrir að námsmenn leggi fram yfirlýsingu tveggja manna um að þeir taki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt verðtryggingu þess. Með þessum endurgreiðslukjörum er verið að leggja bær drápsklyfjar á námsmenn sem á að innheimta í full 20 ár eftir að námsmenn hafa lokið námi að það virðist algerlega óraunhæft að gera ráð fyrir því að nokkur maður fáist til þess að skrifa upp á sjálfskuldarábyrgð fyrir svo gífurlegum lánum. Það vildu vist áreiðanlega flestir vera lausir við það líka að fara fram á það við aðra að það sé gert. Við leggjum sem sagt til að þessum ábyrgðarmönnum sé algerlega komið fyrir kattarnef, og í rauninni er þetta sérstaklega brýnt ef þetta frv. verður að lögum. Það má segja að ef okkar till. um endurgreiðslu ná fram að ganga, þá sé þetta ekki jafnnauðsynlegt. En þetta er sérstaklega brýnt ef frv. verður að lögum óhreytt.

Herra forseti. Ég get þá lokið máli mínu, nema ég er hér með eina till. enn sem er skrifl. og of seint fram komin, og verð ég því að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða. Flm. þessarar till. eru auk mín hv. þm. Magnús T. Ólafsson og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason. Þessi brtt. er við 9. gr. Við leggjum til að 3. mgr. orðist svo, með leyfi forseta: „Aukaafborgun skal nema 2% tekna umfram viðmiðunartekjur þar til náð er tvöföldum viðmiðunartekjum, en 5% tekna umfram það þar til náð er þreföldun viðmiðunartekjum. Þá skal aukaafborgun vera 10% tekna umfram þrefaldar viðmiðunartekjur.“ Hér er um það að ræða að við teljum heimild ráðh. varðandi ákvörðun um aukaafborgun vera allt of víðtæka og að Alþ. hljóti að setja einhver skilyrði af sinni hálfu um það hvernig eigi að greiða eða leggja á þessa aukaafborgun. Við teljum eðlilegt að það verði fest í lög að sú greiðsla fari stighækkandi.

Herra forseti. Ég held að ég hafi náð því að gera grein fyrir brtt. okkar í minni hl., og ég skal ekki misnota þann tíma sem hæstv. forseti gaf mér fram í matarhléið. En ég get þó ekki farið svo úr ræðustól að ég gagnrýni ekki mjög alvarlega vinnubrögð ríkisstj. í þessu máli öllu. Námsmenn hafa lagt mikla vinnu í að endurskoða Lánasjóðinn og gera till. um breytingar til bóta. En ríkisstj. hefur algerlega misnotað starf og viðleitni námsmanna. Þrátt fyrir góðan vilja og ábyrgðarfullar till. fengu námsmenn rýtinginn í bakið.