17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4426 í B-deild Alþingistíðinda. (3837)

267. mál, sala Reykhóla í Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandasýslu

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. var sent til umsagnar til jarðeignadeildar ríkisins, til landnámsstjóra og fleiri aðila. Það kom fram í umsögnum frá jarðeignadeild ríkisins að það þyrfti að athuga í mörgum tilvikum ýmislegt, ef ætti að selja jörðina og þarna væru hagsmunir bæði þörungaverksmiðjunnar og tilraunastöðvarinnar sem þyrfti að tryggja. N. ræddi þetta á fundum sínum. Hv. þm. Benedikt Gröndal og Eðvarð Sigurðsson voru mófallnir frv., en meiri hl. n. mælir með að frv. verði samþ. með eftirfarandi breytingu:

„Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Ríkisstj. er heimilt að selja Reykhólahreppi, Austur-Barðastrandarsýslu, jörðina Reykhóla að undanskildu því landi og aðstöðu, sem tilraunastöðin og þörungaverksmiðjan þurfa til starfsemi sinnar. Þarfnist ríki eða ríkisstofnanir lands eða byggingarlóða á landi ofangreindrar jarðar skal því heimilt að kaupa það og þá við sama verði hlutfallslega og Reykhólahreppi var gert að greiða fyrir jörðina. Hreppsnefnd Reykhólahrepps er óheimilt að selja öðrum en ríkissjóði umrædda jörð eða hluta af henni.

Um aðild hreppsfélagsins að hitavatnsréttindum fer eftir samningum milli ríkisins og hreppsins.

Náist ekki samkomulag um söluverð jarðeignarinnar skal það ákveðið af dómkvöddum mönnum.“

Það kom fram að tilraunastöðin þarf á auknu landrými að halda. Það kom líka fram að þörungaverksmiðjan þarf á aðstöðu að halda til þess að ná þangi. Þess vegna er orðalag gr. á þennan veg. Meiri hl. n. telur að það sé mjög eðlilegt að þéttbýlið, sem þarna er að rísa, fái land undir sínar byggingar, en telur að það sé vafasamt að ganga lengra, eins og á stendur með þessa jörð, og þess vegna er gr. orðuð á þann veg er ég hef lesið: