17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4427 í B-deild Alþingistíðinda. (3838)

267. mál, sala Reykhóla í Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandasýslu

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Það segir í nál. að ég og hv. þm. Benedikt Gröndal höfum verið mótfallnir frv. Ég held að það sé ekki alveg rétt að orða það svo, — ég hef ekki séð nál. fyrr en ég var að lesa það núna, — en við vorum á móti afgreiðslu málsins á þessu þingi. Í ljós kom í umsögnum um málið og þá ekki hvað síst frá landbrn. að hér er margt sem þarf að athuga, og ég verð að segja að sú umsögn var í rauninni neikvæð. Eins lá fyrir hv. landbn. bréf frá einum hreppsnefndarmanni í Reykhólahreppnum sem er andvígur því að þetta mál verði nú afgreitt, og ég hygg að það sé engin samstaða í heimabyggð fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég held að það væri rétt að afgreiðsla þess væri látin biða nú og reynt að koma samstöðu í þessu máli í annað og betra horf en nú virðist vera áður en þetta frv. verður ákveðið.

Ég er út af fyrir sig ekkert andvígur því að sá þéttbýliskjarni, sem þarna er að myndast, eða sveitarfélagið fái keypt land sem það þarf, En þarna eru, eins og kom fram í framsöguræðu hv. formanns n., aðrir aðilar sem einnig þarf að taka verulegt tillit til, og ég held að það verði ekki gert nema með samkomulagi allra þessara aðila. Ég lagði áherslu á að reynt yrði að ná slíku samkomulagi áður en málið væri afgreitt á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég er samþykkur þeim breytingum sem n. leggur til. Þær eru tvímælalaust til verulegra bóta frá sjálfu frv. En ég hefði talið rétt að afgreiðsla þessa máls yrði geymd. Það er ekkert sem kallar á núna í augnablikinu að þetta frv. verði samþykkt. Sveitarstjórnin á staðnum getur áreiðanlega fengið þá aðstöðu sem hún þarf og frv. gerir ráð fyrir þó að það verði ekki samþ. núna.