18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst svara því til varðandi skýrslugjörð um þær viðræður, sem fram hafa farið við aðrar þjóðir, að ég tel sjálfsagt að gerð verði skýrsla um viðræðurnar við breta og hún birt opinberlega, þótt meginatriði í gangi þeirra viðræðna hafi þegar komið fram, og að loknum fundum viðræðunefndar okkar við vestur-þjóðverja verði slíkt hið sama gert að því er þær samningaviðræður varðar.

Ég vil taka fram að það var ekkert leyndarmál, enda upplýst í þeim gögnum sem landhelgisnefndarmenn hafa fengið' í hendur, að á samningafundi við breta í London var sett fram í spurnarformi hugmynd af hálfu íslendinga um 50 þús. tonna ársafla bretum til handa að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Spurningin, sem beint var til mín í upphafi þessa fundar, var hvort íslenska ríkisstj. hefði staðið að tilboði eða hugmynd til handa bretum um hærri hámarksafla fyrir þrem vikum eða um líkt leyti. Þeirri spurningu svaraði ég afdráttarlaust neitandi og geri enn og vil taka skýrt fram að af hálfu íslensku ríkisstj. hefur slíkt tilboð ekki komið fram fyrr en í óformlegum viðræðum utanrrh. Íslands og aðstoðarutanrrh. Bretlands á sunnudaginn var.

Ég skal svo segja það, að það er allt annað sem daghlaðið Tíminn fjallar um. Dagblaðið Tíminn fjallar í dag um viðræður milli sérfræðinga og embættismanna, og mér er kunnugt um að í þeim viðræðum var ekki eingöngu verið að tala um eina tölu. Það var verið að tala um margar tölur eða aflatakmarkanir og hvað það mundi leiða af sér ef á einhverri ákveðinni tölu yrði byggt, allt frá þeirri hugmynd, sem sett var fram í London um 50 þús. tonna hámarksafla bretum til handa, og upp í 130 þús. tonna hámarksafla, sem bretar kröfðust sjálfum sér til handa. Slíkar viðræður eru ekki samningaviðræður, þar eru skýr mörk á milli. Slíkar umr., sem nauðsynlegar eru til að upplýsa staðreyndir málsins og draga fram viðhorfin ef yrði einhver tilgreind niðurstaða, er vissulega rétt að aðskilja frá samningaviðræðum og aðskilja frá ákveðnu tilboði, sem gert er af hálfu ríkisstjórnar. Landhelgisnefnd voru því veittar réttar upplýsingar á fundinum á fimmtudaginn og raunar fyrr með framlagningu skjala um viðræðurnar.

Hér hefur verið rætt um að það væri glannaskapur og óraunsæi af íslensku ríkisstj. að nefna þetta aflamagn, 65 þús. tonn. Við skulum horfa á það að árið 1973, þegar við vorum mestan hluta ársins án samninga bæði við breta og þjóðverja, tóku þessar þjóðir upp af Íslandsmiðum nær 250 þús. tonn, bretar einir um 155 þús. tonn. Að vísu má segja að þeir hafi tekið meira en skyldi vegna þess að Landhelgisgæslan hafi verið á tímabilinu bundin við aðstoðarstörf vegna eldsumbrotanna í Vestmannaeyjum. En ef við tökum allt árið frá 1. sept. 1972 til 1. sept. 1973, þá munu bretar hafa tekið enn meira magn upp af Íslandsmiðum.

Ég vænti þess að við getum varið landhelgina betur en svo að bretar taki þetta með valdbeitingu sem þeir nú hóta og sýnast tilbúnir að beita. En við verðum hins vegar að hafa í huga, hvað er raunsætt í þessum efnum, og miða afstöðu okkar við það. Lengi má deila um hvað er glannaskapur og hvað er óraunsæi, Það er svo, að íslendingar standa frammi fyrir mjög miklum vanda hvort sem samið verður við erlendar þjóðir eða ekki. Við þurfum að kveða á um það sjálfir hvernig við hagnýtum okkar fiskimið og hvaða takmörkunum við bindum veiðisókn á okkar mið, einnig af hálfu okkar manna. Frammi fyrir þessum vanda stöndum við, hvort sem við semjum við útlendinga eða ekki, miðað við þær skýrslur Hafrannsóknastofnunarinnar sem nú liggja fyrir. Úr því að okkur tekst ekki með góðu að fá alla útlenda fiskimenn til að hverfa af okkar miðum og verðum að horfast í augu við að þeir sæki á okkar mið, hvort sem við viljum eða viljum ekki, þá er þetta vandamál vissulega stærra og þá er spurningin með hvaða hætti við getum tryggt okkur mest aflamagn og þar að auki mesta stjórn á hagnýtingu fiskstofnanna, tryggt að nauðsynlegar friðunarráðstafanir séu virtar.

Þetta er réttlæting og röksemd fyrir samningum og samningsumleitunum sem íslenska ríkisstj. hefur staðið að. Ég hef sagt það áður að vilji ríkisstj. sé að greina í landhelgisnefnd frá öllum gangi málsins og þ. á m. viðræðum við aðrar þjóðir. Þegar við ræddum um það hvenær skyldi gera opinber einstök atriði í þeim viðræðum, þá kom mjög greinilega fram hjá sumum stjórnarandstæðingum í n. að það væri ekki víst að það væri rétt af hálfu fulltrúa þeirra flokka, sem hefðu algerlega mælt á móti viðræðum við aðrar þjóðir er hefðu í för með sér veiðiréttindi þeim til handa innan 200 mílnanna, að taka þátt í störfum n. eða umr. um þær samningaviðræður. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En þá um leið vil ég undirstrika að þeir, sem halda á viðræðum við aðrar þjóðir, verða að hafa forræði á því hvenær íslenskum hagsmunum kemur það vel að opinbera einstök atriði í samningaviðræðum eða einstök atriði varðandi fyrirætlanir íslendinga um málatilhögun í samningaviðræðunum sjálfum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það mál, sem hér hefur verið vakið máls á utan dagskrár, en ítreka það að eftir að samninganefndarmenn eru komnir heim úr för sinni til Vestur-Þýskalands verður boðaður fundur í landhelgisnefnd og strax verður undirbúin skýrsla um gang viðræðnanna við breta.