17.05.1976
Efri deild: 117. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4445 í B-deild Alþingistíðinda. (3863)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara. Þetta mál var tekið fyrir á mjög skömmum nefndarfundi sem stóð stutt og við höfðum ekki aðstöðu til þess að skoða þetta mál náið í n. Ég vil þó taka það fram varðandi þann þátt sem snýr að mjólkursölunni, að það er ágreiningslaust frá okkar hendi, alþb.-manna, sömuleiðis 1., 2. og 3. gr. Ég get auðvitað ekki stillt mig um að benda þó á tvennt í þessu sambandi, þ.e.a.s. vandamál þeirra kvenna sem vinna nú í mjólkurbúðum Mjólkursamsölunnar er nú verða bráðlega lagðar niður. Þau vandamál verða vissulega ekki leyst að fullu. Það er rétt að Kaupmannasamtökin hafa lofað því að þessar konur fái forgang til vinnu hjá þeim, en það er vitað að það verður aldrei nema um lítinn hluta þeirra að ræða sem fær vinnu við svipað eða sams konar starf á nýjan leik.

Á hinu er rétt að vekja athygli líka sem kom fram mjög glögglega í Nd., umsögn borgarlæknis um þetta mál, mjög merkilegri umsögn borgarlæknis. Þar kom fram alveg sérstaklega jákvæð umsögn hans um mjólkurbúðir Mjólkursamsölunnar, hvað þær hefðu verið til fyrirmyndar, og ótti hans í sambandi við það og að menn ættu að vara sig á þessari breytingu og það yrði að hafa hert eftirlit með henni svo að hún skaðaði ekki neytendur hvað vörugæði snertir. Einnig benti borgarlæknir í umsögn sinni á vandamál ýmissa eldri hverfa hér í borginni. Út í það skal ég ekki fara hér þar sem mjólkurbúðir Mjólkursamsölunnar leggjast niður og e.t.v. taka engir þar við. Og þá benti hann sérstaklega á vandamál eldra fólksins í þessum hverfum. Þetta verður að vona að verði tekið til náinnar athugunar, því að þessi umsögn borgarlæknis var hin merkasta og ástæða til fyrir þá, sem eiga að stjórna þessum málum framvegis, að taka þar fullt tillit til.

En aðalágreiningsefnið, sem varð um þetta mál í Nd., kemur fram í nál. frá minni hl. landbn, þar, þeim Eðvarð Sigurðssyni og Benedikt Gröndal, en þar segir — með leyfi hæstv. forseta — orðrétt í þeirra nál.

„Eins og að framan segir, eru þau nýmæli í frv. að verðjöfnunargjald af öllum búvörum skuli talið til dreifingarkostnaðar og að við ákvörðun verðjöfnunargjalds skuli heimilt að taka tillit til fjármagnskostnaðar sláturhúsa og mjólkurbúa. Þessari veigamiklu breytingu á lögunum erum við andvígir og teljum að hún geti haft stórfelld áhrif til hækkunar á verði allrar búvöru til neytenda.

Í þessu sambandi viljum við minna á að nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á verðmyndunarkerfi landbúnaðarvara og hefur verkalýðshreyfingunni verið boðið að eiga fulltrúa við þá endurskoðun. Alþýðusambandið hefur þegar tilnefnt sinn fulltrúa í n. Það er áreiðanlega áhugamál neytenda að það kerfi, sem ræður verðmyndun landbúnaðarvara, verði endurskoðað, og þegar sú endurskoðun stendur fyrir dyrum verður það að teljast bein árás og móðgun við neytendur og verkalýðshreyfinguna sérstaklega ef knýja á í gegn þá breytingu á lögunum að telja verðjöfnunargjald og fjármagnskostnað vinnslustöðva skilyrðislaust til dreifingarkostnaðar. Af ókunnum ástæðum hefur sú endurskoðunarnefnd, sem hér um ræðir, ekki enn verið kölluð til starfa. Var það kannske ætlunin að knýja fyrst fram þessa breytingu á lögunum og koma þar með í veg fyrir að starf n. gæti borið árangur?“

Á þessari spurningu lýk ég tilvitnun í nál. minni hl. landbn, í Nd.

Hins vegar þegar hæstv. ráðh, mælti fyrir þessu frv. hér í d., þá var yfirlýsing hans allótvíræð hvað þetta snertir. Hann vildi halda fram að þessi breyting, sem hér er gerð á l., yrði ekki til þess að um verðhækkanir yrði að ræða, hér væri um jöfnun milli framleiðenda að ræða, en færi ekki í auknum mæli út í verðlagið. Og spurningin er auðvitað einmitt um þetta. Við vitum að þetta hefur án lagaheimildar, en með samkomulagi og þá eflaust innan Sexmannanefndar, verið gert að hluta. Þessum fjármagnskostnaði hefur verið dreift út í verðlagið. Ég lýsi því yfir að mín skoðun er ótvíræð í þessum efnum, að fjármagnskostnaðinn af þessum mikilvægu vinnslustöðvum verði allir að bera að sínum hluta. En vitanlega uni ég ekki við það að neytendur einir beri þennan kostnað. Ég viðurkenni að þeim eru í hag fullkomnari hús með bættri vöruvöndun, en auðvitað hljóta eigendurnir, þeir sem eiga þessi mannvirki sem eru nú orðin mjög glæsileg og er ekki nema gott um að segja, sláturhúsin og mjólkurbúin, þeir eiga vitanlega að bera sinn hluta og um það atriði verður að nást fullt samkomulag milli neytenda og bænda. Ef þetta frv. eða þessar lagagr., sem hér er verið að staðfesta, væru til hindrunar á þeim vegi að samkomulag gæti náðst milli neytenda og bænda í þessu efni, þá væri illa farið.

Eins og ég sagði áðan, þetta hefur verið að nokkru sett út í verðlagið, það er staðreynd, þá án lagaheimildar, en með samkomulagi í Sexmannanefnd. Nú er þetta hins vegar lögfest, og þá er auðvitað spurningin um það hvernig þetta verður í framkvæmd. Í þessu sambandi dettur mér það nú í hug að sláturhúsin eru fyrst og fremst dýr vegna þeirra krafna sem gerðar eru um útflutning á kjöti. Það er ekkert nema gott eitt um það að segja. En þessi glæsilegu og dýru hús eru líka nýtt 6–7 vikur á ári og síðan eru þessi hús algerlega ónotuð. Hér þyrfti að gera mikla bragarbót á að mínu viti. Það hlýtur að vera unnt að nýta þessi hús í einhverjum mæli, t.d. varðandi frekari úrvinnslu þeirra landbúnaðarafurða sem við flytjum nú óunnar úr landi. Og það að neytendur beri kostnað af þessum dýru húsum, sem aðeins eru nýtt í 6–7 vikur á ári, beri kostnað af þeim að fullu, það hlýtur auðvitað að teljast mjög vafasamt, og ég er andvígur því ef þessum lagagr. yrði beitt á þann hátt. Fyrir því er að vísu engin trygging hvernig að þessu verður staðið.

Varðandi hina verðjöfnunina, sem er í seinni mgr. 9. gr., þá hlýtur þar að verða eitthvað að gera þegar kostnaðarsamir flutningar milli sölusvæða koma til. Og ég tek undir það með hv. frsm. að það væri eðlilegast að þetta væri mál samfélagsins. Hann kom inn á þá leið og ég teldi hana að miklu leyti eðlilegri. En hæstv. ráðh. er nú ekki hér viðstaddur. Ég hefði þá viljað fá um það sem skýrust svör frá hv. frsm., sem mun eiga vel innangengt hjá hæstv. ráðh., þar sem svo mikill ágreiningur varð í Nd. um þetta mál, hvaða skilning megi leggja í framkvæmd þessara lagagr. sem hér er verið að lögfesta, ekki um það hvort þetta fer út í verðlagið, það hefur gert það og mun halda áfram að gera það, það er ekki spurning um það, heldur um það, hvort það muni gera það í auknum mæli, hvort lögfesting þessara greina verði til þess að hækka verð á búvöru frá því sem verið hefur. Það er aðalspurningin. Um það vil ég spyrja.

Verðlagsmál okkar í dag eru í of miklu ólagi og hækkanir á verðlagi of stórfelldar til þess að við getum tekið við lagagr. sem beinlínis fela í sér þá hættu að stigmagna þessa hækkun enn. Og ekki síst hefur hækkun á landbúnaðarafurðum orðið það mikil að hvert skref til viðbótar yrði til hins verra og mundi náttúrlega fyrr eða siðar leiða af sér með þessari þróun minnkandi kaup á landbúnaðarvörum sem er ekki heldur gott. Ég trúi því hins vegar ekki að það sé ætlun hæstv. ráðh. og þeirra, sem að þessu frv. standa, að efna nú til styrjaldar við verkalýðshreyfinguna enn á ný með því móti að hækka enn verð á landbúnaðarvörum með því að bæta hér við, heldur sé hér nánast um lögfestingu á því að ræða sem hefur verið í praxís og Sexmannanefnd hefur fallist á. En ekki síst með tilliti til þess, að nú er að fara í gang þessi endurskoðun þar sem fulltrúar neytenda og bænda eiga sæti, þá er nauðsynlegt að fá þetta upplýst. Ég vænti þess að hv. frsm. geti hér svarað fyrir hæstv. ráðh, og gefið yfirlýsingu um þetta mál svo að ég sjái mér a.m.k. unnt að sitja hjá við atkvgr, um þessar gr., en þurfi ekki að greiða atkv. gegn þeim.