17.05.1976
Efri deild: 117. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4448 í B-deild Alþingistíðinda. (3864)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Axel Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 831, þá stend ég að því. Ég vildi samt, herra forseti, láta koma fram hér við umr. málsins að þó að flestir telji að það sé eðlilegt og nauðsynlegt að gerðar séu þær breytingar sem hér eru fyrirhugaðar varðandi sölu mjólkurvara, þá óttast ég nokkuð að við sjáum ekki út yfir þann vanda sem hugsanlega kann að koma upp í þessu sambandi. Og eins og hv. síðasti ræðumaður vitnaði til, þá mun og Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík hafa af þessu nokkrar áhyggjur. Ég þekki það sjálfur af raun, hafandi verið formaður heilbrigðisnefndar í öðrum stærsta kaupstað landsins utan Reykjavíkur, að mjólkurbúðir Samsölunnar eru búnar og reknar með hinni mestu prýði miðað við þær ströngu kröfur sem heilbrigðisreglugerðin gerir um sölu og meðferð mjólkur og mjólkurvara hérlendis. Í eldri byggðahverfum eru slíkar búðir til sem fullnægja þessum kröfum, en almennar matvörubúðir því miður ekki og hafa ekki möguleika til þess sumar hverjar að fullnægja þeim kröfum húsnæðisrýmisins vegna. Það er því hætt við að útsölustöðum mjólkurvara fækki í hinum eldri byggðahverfum. En í hinum nýrri hverfum hafa eðlilega nýju verslanirnar verið byggðar með þetta fyrir augum, byggðar samkv. ströngustu kröfum um geymslu, meðferð og sölu mjólkurvara. Ég bendi á þetta. Það er sjálfsagt nauðsynlegt að gera þessa breytingu, en ég óttast að menn sjái kannske ekki alfarið út fyrir afleiðingarnar af þessu og a.m.k. fyrst um sinn geti orðið um nokkurt vandamál að ræða varðandi sér í lagi það bráðabirgðaákvæði sem hér er að finna, að því viðbættu, eins og einnig síðasti hv. ræðumaður, 7. landsk., kom inn á, að verulega stór hópur starfsfólks, sem áratugum saman hefur unnið hjá Samsölunni, mun nú tapa vinnu hjá þeim vinnuveitanda. Þó að aðrir vinnuveitendur hafi góð orð um að þetta starfsfólk njóti forgangs hjá þeim til vinnu, þá er það í sjálfu sér ekki nema takmörkuð lausn á tímabundnu vandamáli þessa starfsfólks.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, nú við þessa umr. málsins.