17.05.1976
Efri deild: 117. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4449 í B-deild Alþingistíðinda. (3865)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Ég vil með nokkrum orðum reyna að svara hv. 7. landsk. þm. og reyna að gera grein fyrir því hvernig ég tel að þessi lögfesting á verðjöfnun verki á verðlagsmálin.

Verðlagning landbúnaðarvara fer fram í svokallaðri Sexmannanefnd þar sem eru 3 fulltrúar bænda og 3 fulltrúar neytenda. Til þess að Sexmannanefnd komist að samkomulagi um verðlag þurfa a.m.k. 4 fulltrúar að samþykkja till. sem fram koma. Ef n. skiptist í tvo jafna hluta, þá eru alltaf till. felldar.

Einn þátturinn í verðlagningunni er verðlagning á vinnslu- og dreifingarkostnaði landbúnaðarvara. Þessi þáttur hefur verið byggður annars vegar á þeirri reynslu, sem fengist hefur af þessum kostnaði, og þá lagðar til grundvallar upplýsingar vinnslustöðvanna um rekstrarkostnað og hins vegar áætlanir þeirra um breytingar á rekstrarkostnaði, annars vegar frá ársfjórðungi til ársfjórðungs, eins og verður með mjólkurvinnslustöðvarnar, en hins vegar frá einu ári til annars, eins og verður með sláturhúsin. Þessi kostnaður, vinnslu- og dreifingarkostnaður, fer inn í verðlagíð, og sá vinnslu- og dreifingarkostnaður, sem ákveðinn er hverju sinni, á að vera sem næst meðalkostnaður við vinnslu og dreifingu. Hins vegar vantar inn í lögin skýr ákvæði um það að heimilt sé að verðjafna til framleiðanda að fullu þann mismunandi kostnað sem hlýtur alltaf að verða af ýmsum ástæðum á milli einstakra vinnslustöðva. Það skortir ekkert á að lög séu til þess að hækka eða breyta verðlagi á landbúnaðarvörum að fullu í samræmi við breyttan vinnslu- og dreifingarkostnað, hvort sem þær breytingar stafa af breyttu kaupgjaldi, breyttum kostnaði rekstrarvara eða breyttum fjármagnskostnaði. Þess vegna tel ég, að lögfesting þessara atriða, sem hér eru, eigi ekki að breyta verðlagningu til neytanda þar sem meðalkostnaður við vinnslu og dreifingu á að verða viðurkenndur í verðlaginu.

Hins vegar er það svo, að ef vinnslu- og dreifingarkostnaður er mjög mismunandi af ástæðum sem eru óviðráðanlegar, og þar tel ég t.d. mismunandi fjármagnskostnað vera óviðráðanlega ástæðu vegna þess að það er gífurlegur munur á því hvort menn búa við nokkurra ára, e.t.v. áratuga gamla vinnslustöð, sem gegnir til fulls hlutverki sínu, eða menn verða að hafa orðið að byggja nýtt yfir sig, vinnslustöðvar sem hafa kostað mikla fjármuni. Þessi mismunandi kostnaður hefur að nokkru verið verðjafnaður. En það er ekki hægt að segja að það séu ákveðin ákvæði í lögum til þess að jafna þennan kostnað að fullu. Tilgangurinn með þessu er vitanlega sá, að það sé hægt að gera hvort tveggja í senn: að selja vöruna á sama verði alls staðar og eins hitt að greiða bændum sem næst sama verð hvar sem þeir búa. Þetta er þó alls ekki verðjafnað til fulls. Kostnaður við flutning til vinnslustöðvanna er t.d. ekki verðjafnaður yfir allt landið. Og í öðru lagi hefur sú verðjöfnun, sem fram hefur farið, verið framkvæmd á þá lund, að farið er mjög nákvæmlega í reikninga þessara vinnslustöðva og ef í ljós kemur, að þær hafa óhagkvæman rekstur, t.d. vegna þess að þær nýti illa hráefni eða noti óhæfilega mikið vinnuafl, þá hafa slíkir kostnaðarliðir ekki verið teknir inn í verðjöfnunina.

Ég tel að samþykkt þessara lagabreytinga eigi ekki að hafa áhrif á að hækka búvöruverðið til neytenda, en ég tel að þær eigi að hafa áhrif á það að jafnara verð fáist til framleiðenda heldur en annars hefði verið.

Ég tók eftir því í ræðu hv. 7. landsk. að hann minntist á það að ef þessi lagasetning orkaði til hækkunar á búvöruverði, þá gæti það kostað styrjöld milli neytenda og framleiðenda. Ég vil minna á það að grundvallaratriðið í framleiðsluráðslögunum, sem óbreytt stendur, er það að verðlagningin skuli við það miðast að bændur hafi sem sambærilegastar tekjur við ákveðnar viðmiðunarstéttir. Ég tel mikla nauðsyn að þannig sé um hnúta búið að þetta geti orðið í reynd. Því miður hefur ekki verið svo. Það hefur verið mjög mikill munur á tekjum bændastéttarinnar annars vegar á undanförnum árum og viðmiðunarstéttanna hins vegar. Um þetta bera tölur í Hagtíðindum mjög glöggt vitni.

Víst er það rétt að það er verulegur mismunur líka á tekjum einstakra bænda. Þeir búa vissulega við misjafna aðstöðu innbyrðis. En tekjumunur er vissulega líka mjög mikill á milli einstakra manna í hinum svokölluðu viðmiðunarstéttum, hjá verkamönnum og iðnaðarmönnum.

Ég held að það sé ekki heppilegt að tala um styrjöld á milli launþega annars vegar og bænda hins vegar. Öllum hlýtur að vera ljóst, sem að þessum málum gá í fullri alvöru, að hagsmunir þessara starfshópa fara í mörgu mjög saman. En þó er það svo að ör verðbólga, svo að tekin séu dæmi, hlýtur að koma enn verr niður á bóndanum heldur en nokkru sinni launþeganum, og það er einfaldlega vegna þess að verðbreytingar, sem stafa af hækkuðum rekstrarvörukostnaði, hækkuðu kaupi o.s.frv., koma seinna til bóndans heldur en kauphækkanir til viðmiðunarstéttanna. Þess vegna verður það svo, að bóndinn verður á miklum verðbólguárum sífelldlega að taka af eigin kaupi til þess að greiða hluta rekstrarvaranna. Þetta hygg ég að sé ein meginorsök þess að einmitt nú, þrátt fyrir að ýmsu leyti gott samkomulag í Sexmannanefnd og að mér finnst ríkan skilning þeirra, sem þar starfa, á því að nauðsynlegt sé að bóndinn fái réttlátt verð fyrir vöru sína, þá hefur fremur dregið sundur aftur á milli þessara stétta frá því sem orðið var þegar best lét.

Ég ætla ekki, herra forseti, að flytja hér lengra mál. Ég vona að ég hafi komið að þeim atriðum sem sérstaklega var spurt um og vænti þess að þrátt fyrir það að ég sé að ýmsu leyti sammála hv. 7. landsk. þm. um að það sé ekki víst að breytingin á mjólkursölunni sé að öllu leyti til bóta, þá ætla ég samt að vona að þetta frv. verði samþ. hér. Auðvitað er hugsanlegt að breyta til aftur ef einhverjir ákveðnir þættir í frv. reynast ekki eins vel eins og þeir, sem mest berjast fyrir þeim, hafa gert sér vonir um.