17.05.1976
Efri deild: 117. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4451 í B-deild Alþingistíðinda. (3866)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir svör hans við þeim spurningum sem ég beindi til hans áðan. Ég skal fyllilega taka undir það að hagsmunir bænda og verkamanna eiga að fara saman. Hitt er staðreynd, að þessum stéttum er oft att saman og það ekki síst af ríkisvaldinu, og það ríkisvald, sem við höfum nú yfir okkur, hefur ekki gert minna í því en aðrir að etja þessum stéttum saman.

Ég skal líka síst hafa á móti því að bændur njóti þeirra sömu tekna og viðmiðunarstéttirnar hafa. Þar kemur vitanlega margt fleira til, svo sem bætt skipulag í okkar landbúnaði í heild, svo sem bætt lánakerfi í landbúnaði okkar, þar sem hinn mikli fjármagnskostnaður bænda og þar með talinn hinn gífurlegi vaxtakostnaður þeirra kemur nú inn í af æ meiri þunga og rekstrarvörur þeirra ýmsar eru sprengdar upp úr öllu valdi og það m.a. þær vörur sem framleiddar eru hér innanlands og ríkisvaldið ætti að hafa betri og meiri stjórn á en það gerir.

Hv. þm. upplýsti að það hefði yfirleitt verið svo að meðaldreifingarkostnaðurinn hefði farið inn í verðlagið, hér væri því í raun aðallega lagt til að verðjafna til framleiðenda að fullu. Við það hef ég ekkert að athuga. Ég fagna einnig yfirlýsingu hans um að þessi lagabreyting komi ekki til með að breyta í neinu verðlagi til neytenda. Í þessu er að vísu engin trygging fólgin, en þetta veldur því þó að ég tel mig geta setið hjá við atkvgr. um þessar gr., en þarf ekki að greiða atkv. gegn þeim, sem ég hefði annars gert, ef ég hefði talið á því líkur að þarna væri um verulega hættu á vöruverðshækkun að ræða. Engu að síður verð ég að segja það, að þessi lagasetning nú hlýtur að teljast heldur óheppileg í ljósi þess sem kom fram í nál. minni hl. landbn. í Nd. Úr því að bændur og neytendur eru nú að setjast að samningaborðinu um verðmyndunarkerfi landbúnaðarins í heild, þá held ég að það sé ótvírætt að það hefði verið rétt að bíða með þessi atriði einnig og afgreiða mjólkurþáttinn þá einan hér út úr þinginu. Og það er miður að einmitt aðvaranir Eðvarðs Sigurðssonar, hv. þm. í Nd. og minni hl. landbn., um þetta atriði voru ekki teknar til greina og þessi atriði felld út úr frv., en þess frekar freistað að ná um það fullu samkomulagi í þeirri n. sem hlýtur senn að fara að taka til starfa.