17.05.1976
Efri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4452 í B-deild Alþingistíðinda. (3868)

270. mál, ábúðarlög

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég tel mig ekki þurfa að hafa langa framsögu fyrir því nál. sem landbn. sendir frá sér um þetta frv. til ábúðarlaga. Það nægir að mestu leyti að vísa til ræðu sem hæstv. landbrh, hélt þegar hann lagði málið fram hér í hv. d. En mér þykir þó rétt að minna á það að ábúðarlög þessi, sem við ræðum hér frv. að, kemur í staðinn fyrir þrenn lög sem áður voru í gildi um ábúðarmálefni, lög frá 1933, 1951 og 1961. Einnig eru felld inn í þetta frv. ákvæði um erfðaábúð sem voru í sérstökum lögum frá 1962. Þetta frv., sem hér er til umr., hefur því þann kost að hér eru sameinuð og samræmd þau ákvæði sem voru í eldri lögum, en breytingar eru til þess að gera litlar gerðar í frv. 1. gr. frv. er algerlega að efni til shlj. gr. í lögum frá 1961 þar sem er skýrgreining á orðinu „jörð“. Má segja líkt um einstakar gr. frv. Hins vegar hafa þessi lög verið samræmd því frv. til jarðalaga sem nú liggur fyrir Nd.

Landbn. ræddi málið á nokkrum fundum, og hún mælir með því að frv. verði samþ. Það er samhlj. álit n., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kynnu að koma. En mér er ekki kunnugt um að fram hafi verið lagðar brtt. við þetta frv. og gerir það málið vissulega einfaldara í hugum okkar þar sem menn hafa ekki séð ástæðu til þess að bera fram brtt. við það. Vil ég ítreka það að lokum að landbn. mælir með því að frv. verði samþykkt.