17.05.1976
Efri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4455 í B-deild Alþingistíðinda. (3873)

190. mál, vinnsla mjólkur í verkföllum

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. hefur fjallað um frv. til l. um að bjarga mjólk frá eyðileggingu í vinnslu þegar verkfall er. Hún hefur rætt það á nokkrum fundum sinum og fengið umsagnir ýmissa aðila sem málið varðar sérstaklega og fengið til fundar við sig meðal annarra formann Alþýðusambands Íslands sem gaf n. upplýsingar um málið.

Þær umsagnir, sem landbn. bárust, voru allar jákvæðar og mæltu með samþykkt frv., nema umsögn stjórnar Mjólkurfræðingafélags Íslands, sem taldi eðlilegt að félagið vísaði málinu til Alþýðusambands Íslands sem markaði þá stefnuna í því hvernig við þessu frv. skyldi snúist, og stjórnar ASÍ, sem lýsti einnig andstöðu við frv.

Til n. barst einnig samþykkt Búnaðarþings sem gerð var áður en þetta frv. var lagt fram hér í Alþ. Þetta álit Búnaðarþings hafði stjórn Búnaðarfélags Íslands sent stjórn ASÍ 1. mars s.l., en í því var leitað eftir viðræðum við Alþýðusamband Íslands um þau sérstöku vandamál sem steðjuðu að mjólkurframleiðendum þegar vinnudeilur væru og allsherjarverkfall, eins og varð á s.l. vetri. Búnaðarþing lagði til að það yrði kannað til hlítar hvort ekki væri unnt að koma á samningum sem yrðu til þess að koma í veg fyrir þá verðmætasóun sem átti sér stað í síðasta verkfalli. Það var svo ekki fyrr en nú rétt fyrir síðustu helgi sem Alþýðusamband Íslands tók endanlega afstöðu til þessa erlendis Búnaðarfélagsins. En það liggur nú fyrir að stjórn ASÍ hefur orðið við málaleitun Búnaðarþings og kosið 3 menn til þess að ræða við hagsmunasamtök bænda um þetta vandamál.

Landbn. varð því sammála um það, þegar þessi vitneskja lá fyrir, að það væri sjálfsagt að gera tilraun til að leysa þetta mál með samningum áður en farið væri inn á þá braut sem þetta frv. gerir ráð fyrir. En nm. voru allir sammála um það, aðrir en Helgi F. Seljan, að ef ekki hefðist að leysa málið með samningum ellegar leysa það í tengslum við þá endurskoðun vinnulöggjafarinnar sem nú er unnið að á vegum ríkisstj., þá væri nauðsynlegt að taka málið upp að nýju með sérstaka lagasetningu í huga til þess að leysa þetta alvarlega vandamál.

Ég tel að ég þurfi ekki að tala lengra mál um þetta álit okkar í landbn. Þetta skýrir sig sjálft. En okkar afstaða til málsins er sú, að við leggjum til vegna þessarar stöðu, sem upp er komin í málinu, að frv. verði vísað til ríkisstj.