17.05.1976
Efri deild: 119. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4481 í B-deild Alþingistíðinda. (3899)

23. mál, umferðarlög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umr., en ég var á þeirri skoðun og ég leyfi mér að segja ásamt hv. þm. Geir Gunnarssyni að það væri nauðsynlegt að leggja þá breytingu, sem felld var niður í Nd., attur fyrir þingið. Við vorum á þeirri skoðun og öll n. að í fyrsta lagi var frv. ekki nægilega vel undirbúið þegar það var lagt fram. Það kom ekki nægilega glögglega í ljós hver sparnaðurinn var, og eins var ekki gerð nægilega vel grein fyrir því hvernig þinglýsingum eða veðsetningum yrði komið fyrir. En í öðru lagi gerði hv. allshn. Nd. fremur lítið að mínum dómi til þess að upplýsa þessa þætti, í fyrsta lagi varðandi sparnaðinn og í öðru lagi varðandi þinglýsingarnar, og þetta eru tvö veigamestu atriðin í málinu.

Það var að mínum dómi mjög slæmt að það skyldi ekki um þetta mál eins og mörg önnur stærri mál vera sameiginlegt starf. Það er mjög æskilegt, þegar um stór mál er að ræða sem eru lögð fyrir þingið, að n. vinni sameiginlega að þessum málum, en þurfi ekki eins og nú í lok þings að standa frammi fyrir því að ef breytingar verði gerðar á frv. til bóta að mínum dómi, þá verði það til þess að þær breytingar eða það frv., sem hv. Nd. samþykkti, nær alls ekki fram að ganga. Við vildum ekki tefja fyrir þessu máli, töldum mikilvægt að þær breytingar, sem samstaða var um, næðu fram að ganga, en leggjum á það mikla áherslu að hæstv. dómsmrh. leggi fram í upphafi næsta þings frv. sem feli í sér breytingar á númeraskráningunni. Það er augljóst að því fylgja mjög miklir kostir. En við leggjum einnig á það áherslu að frv. verði vel undirbúið og skilmerkilega fram sett.