17.05.1976
Efri deild: 119. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4481 í B-deild Alþingistíðinda. (3902)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh: og viðskn. hefur tekið til athugunar frv. til l. um breyt. á l. nr. 93/1971, um Framkvæmdastofnun ríkisins. N. varð ekki sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþ., en minni hl. Jón Árm. Héðinsson og Ragnar Arnalds, hv. þm., mun skila séráliti, fjarverandi atgreiðslu málsins var Albert Guðmundsson.

Ég sé ekki ástæður til að rekja í löngu máli þær breytingar sem verða á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins. Breytingarnar eru í sjálfur sér ekki mjög margar, en þær eru kannske fyrst og fremst þær að gert er ráð fyrir því að stórefla Byggðasjóð og ákveða með lögum þau lágmarksframlög sem skulu renna til þess sjóðs. Þetta ákvæði frv. og ég ætla mér ekki hér að rekja mikilvægi þess. Gera sjálfsagt allir sér ljóst hversu þýðingarmikið hlutverk þessa sjóðs er.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að lögfesta það að ríkisstj. láti semja sérstaklega heildarlánsfjáráætlun sem ætlað er að vera stefnumarkandi um framkvæmdir og framkvæmdagetu þjóðarbúsins á hverjum tíma. Þessi lánsfjáráætlun var samin á s.l. hausti og þessi háttur hefur þegar verið tekinn upp þannig að hér er í sjálfur sér ekki um mjög mikla breytingu að ræða.

Þá má nefna í þriðja lagi að það er gert ráð fyrir því að Framkvæmdastofnun annist byggðamál í auknum mæli, m.a. með stofnun sérstakrar byggðadeildar sem hafi nána samvinnu við bæði áætlanadeild og lánadeild, sérstaklega varðandi lánamál. Er þess að vænta að stofnun þessara nýju deildar verði til góðs varðandi byggðamál.

Það er gert ráð fyrir ýmsum öðrum breytingum í frv. sem eru flestar mjög smávægilegar og staðfesta það að vel hafi tekist til um stofnun Framkvæmdastofnunar ríkisins, og ætla ég ekki að rekja þær hér. Ég vil aðeins ítreka það að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt.