18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

301. mál, áætlanagerð Framkvæmdastofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka forsrh. fyrir svör við þessari fsp. Þau sýna í stórum dráttum að þótt miklum hluta þeirra áætlana, sem stofnuninni hafa verið falin, hafi á einhvern hátt verið lokið, þá er samt sem áður stór hluti þessa starfs enn þá aðeins til í áfangabúningi, bráðabirgðaskýrslum eða fyrri hluta grg., og það er ljóst að mjög stórum hluta þeirrar áætlunarstarfsemi, sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur verið falið að sinna, er enn ólokið, þ. á m. meginþorra landbúnaðaráætlana, sem ég tel einna veigamestar vegna þess vanda sem landsbyggðin á í og öllum þm. er kunnugt um. Ég vil þó fagna því að það skuli formlega koma hér fram af hálfu forsrh. og forstöðumanns áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins að öllum þessum áætlunum verði lokið á árinu 1976 eða 1977. Það er veigamikil yfirlýsing af hálfu Framkvæmdastofnunar ríkisins og forsrh. að þessu áætlunarstarfi skuli verða lokið á næsta ári og í síðasta lagi 1977. Ber í sjálfu sér að fagna því að það hefur verið skv. þessu ástæðulaus ótti að Framkvæmdastofnun ríkisins hefði ekki mannafla hvað fjölda og hæfni snertir til þess að geta lokið þessu áætlunarstarfi á allra næstu árum. Sú yfirlýsing hefur ekki legið fyrir, og fyrir alla þá fjölmörgu aðila, sem áætlanir Framkvæmdastofnunarinnar snerta, og þá einkum og sér í lagi hinar dreifðu byggðir landsins, austfirðinga, vestfirðinga, norðlendinga og fleiri aðila, er mjög mikilvægt að þetta loforð skuli hér hafa verið gefið formlega og að stofnunin skuli ekki sjá ástæðu til þess að telja að hún þyrfti á fleiri starfskröftum að halda til þess að geta lokið þessum verkefnum.

Ég vil að lokum þakka fyrir þau svör og veit, að það er fagnaðarefni öllum þessum aðilum að svo bjart horfir að það verði hægt að ljúka þessum áætlunum á næsta ári eða í síðasta lagi 1977, og vona að Framkvæmdastofnun ríkisins og forsrh. geti við árslok 1977 staðið fyllilega við þá yfirlýsingu. Ef svo er, þá er áætlunarbúskapur íslendinga, áætlunargerð á Íslandi komin lengra á veg, orðin fljótvirkari stjórnsýsla en ég og aðrir hafa ætlað. Ber vissulega að fagna því, að Framkvæmdastofnun ríkisins skuli á fáeinum árum hafa eflst svo mjög, og jafnframt vara ég við því að stofnunin verði lögð niður eða starfsgeta hennar skert í þá veru að ekki verði hægt að standa við þessar yfirlýsingar um lok áætlunargerðarinnar 1976 eða 1977.