18.11.1975
Sameinað þing: 18. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

32. mál, fjáraukalög 1973

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti.

Frv. það til fjárauka fyrir árið 1973, sem hér liggur fyrir á þskj. 35, er samið af fjmrn. skv. tillögum yfirskoðunarmanna Alþ., eins og fram kemur í aths. þeirra í ríkisreikningi fyrir árið 1973. Er hér sami háttur hafður á og áður. Leitað er heimilda fyrir öllum umframgjöldum, eins og frv. ber með sér. Nemur fjárhæðin samtals 3 milljörðum 634 millj. 464 þús. kr.

Við 1. umr. fjárlfrv. fyrir árið 1975 gerði ég grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1973 og jafnframt var lögð fram grg. ríkisbókhaldsins um afkomuna. Þar var nokkur grein gerð fyrir frávikum fjárlaga og reikninga og má vísa til þeirra skýringa.

Fjárl. fyrir árið 1973 gerðu ráð fyrir gjöldum að fjárhæð 21 milljarði 318 millj. 178 þús. kr. ef gjöld Alþ. eru ekki meðtalin, enda er ekki leitað heimilda fjárlaga fyrir þeim umframgjöldum. Sambærileg fjárhæð reiknings nam 24 milljörðum 950 millj. 793 þús. eða 3 milljörðum 632 millj. 615 þús. umfram fjárlög. Sundurliðun fjáraukalaganna miðast við hvert rn. og þar sem gjöld Hagstofu Íslands reyndust 1 millj. 849 þús. kr. undir áætlun fjárlaga er samtala fjáraukalaga 3 milljarðar 634 millj. 464 þús. kr.

Ef litið er á stærstu einstöku frávikin kemur í ljós að 4/5 hlutar umframgjalda má rekja til eftirtalinna liða: Gjöld vegna Tryggingastofnunar ríkisins námu 738 millj. 567 þús. kr. umfram fjárl. og þar af 11 millj. 356 þús. vegna hækkunar markaðra tekna hennar umfram fjárlagaáætlun. Gjöld Vegagerðar námu 682 millj. 895 þús. kr. umfram fjárl. Gjöld vegna niðurgreiðslna á vöruverði námu 456 millj. 48 þús. kr. umfram fjárl. Vaxtagjöld námu 105 millj. 222 þús. umfram fjárl. Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir námu 190 millj. 340 þús. kr. umfram fjárl. Gjöld vegna útvegsmála námu 196 millj. 671 þús. kr. umfram fjárl. Dómgæsla og lögreglumál 312 millj. 596 þús. kr. umfram og þar af vegna landhelgisgæslu 92 millj. 172 þús. kr. Vegna héraðs-, barna- og gagnfræðaskólastigs 183 millj. 40 þús. kr. Vegna aðstoðar við vestmanneyinga í sambandi við jarðeldana þar í ársbyrjun 1973 110 millj. 21 þús. kr. auk lánafyrirgreiðslu vegna innflutnings sem ekki kemur með gjöldum.

Framangreindir liðir nema samtals 2 milljörðum 975 millj. 490 þús. kr. Aðrir liðir fjáraukalagafrv. nema 659 millj. 64 þús. og dreifast á ýmsa liði. Til nánari skýringar á framangreindum umframgjöldum að fjárhæð 3 milljarðar 634 millj. kr. skal þess getið að verulegur hluti þeirra byggist á ýmsum lagaákvæðum, þ. á m. ákvæðum laga um ráðstöfun tiltekinna tekjustofna ríkisins í ákveðin verkefni, lántökuheimildum til umframgjalda á vissum sviðum og notkun heimildarákvæða fjárlaga. Í grg. ríkisbókhaldsins kemur fram að þegar tekið hefur verið tillit til þessara sérstöku gjaldaheimilda námu umframgjöld 2 milljörðum 346.5 millj. kr. á árinu 1973. Hins vegar er þörf á staðfestingu þessara aukafjárveitinga með fjáraukalögum.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjvn.