17.05.1976
Neðri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4489 í B-deild Alþingistíðinda. (3962)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr. í hv. d., er árangur langrar endurskoðunar lagaákvæða um námslán og námsstyrki, og ég verð að segja það umbúðalaust þegar í upphafi máls míns að sú endurskoðun hefur heppnast miklu miður en skyldi og miður en efni stóðu til að mínum dómi. Þessi lög hafa verið í endurskoðun allar götur síðan árið 1972 að hausti og hafa þess vegna verið í endurskoðun í 3 ár. Það þarf ekki að mínu áliti aðrar sannanir fyrir þeirri staðhæfingu að endurskoðunin hafi, þegar henni lauk, borið lítinn árangur og lélegan, að frv. það, sem lagt var fram fyrir þetta þing, var látið taka stórfelldum breytingum í hv. Ed. af hálfu þess meiri hl. sem stendur að hæstv. ríkisstj., og það er skoðun okkar margra að enn sé hvergi nóg að gert að færa þetta frv. til betra horfs.

Frv. er mjög frábrugðið því frv., sem áður hafði verið lagt fram haustið 1973, eftir fyrsta áfanga endurskoðunarinnar sem ég minntist á. Og það er mín skoðun að betur hefði til tekist hefði verið unnið samfellt í framhaldi af því starfi sem hafði verið unnið og kom þar fram í frv. formi, en hlaut ekki afgreiðslu, ekki síst að mínum dómi vegna þess að þáv. þm. Sjálfstfl. lögðust mjög eindregið gegn því máli sem þá var lagt fyrir. Síðan, eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum, var í rauninni afráðíð að kasta á glæ öllu því starfi sem fyrri endurskoðunarnefnd hafði unnið, en í staðinn skipaðir endurskoðendur yfir frv., formlegir eða óformlegir til skiptis, tilnefndir af stjórnarflokkunum. Ég kann ekki reiður á því hversu margir hópar manna hafa fjallað um þetta mál á hálfu öðru ári sem hæstv. ríkisstj. hefur setið, en niðurstaðan, sem hér liggur fyrir, reyndist svo óburðug þegar hún kom til hv. Ed. að þar var meginatriðum í frv. breytt stórlega.

Frv., sem kom fyrir Alþ. 1973, tók mið af því að sýnt þótti að ekki væri fært lengur að una hinu lága endurgreiðsluhlutfalli, endanlegu endurgreiðsluhlutfalli lána sem kom í ljós eftir að Lánasjóður ísl. námsmanna hafði starfað um nokkurra ára bil. Þá kom það á daginn að verðbólgan í landinu fór miklu geystar en menn höfðu gert sér í hugarlund þegar lögin voru sett og gerði sjóðinn alls vanmáttugan að safna eigin fé og starfa með því. Því var það annað meginsjónarmið hins fyrra frv. að auka endurgreiðsluhlutfallið, en jafnframt var að því stefnt að framlög, sem ekki þætti rétt að veita í lánsformi til endurheimtu, skyldu veitt sem styrkir, og átti þar að miða við að bættur væri með styrkjum sá munur á námskostnaði sem lendir á þeim námsmönnum, sem þurfa að sækja nám langan veg frá heimili sínu, fram yfir þá sem stundað geta nám heiman frá sér.

Ofurlítið eimir eftir af þessari tvenns konar meðferð námsaðstoðar í því frv. sem hér liggur fyrir, en þó má segja að styrkjakerfið, sem fyrra frv. gerði ráð fyrir, sé ekki nema svipur hjá sjón. Hins vegar hefur þeim mun rækilegar verið fylgt eftir þeirri hugmynd að auka endurgreiðsluhlutfallið til Lánasjóðs ísl. námsmanna, og um það er í sjálfu sér ekki deilt að full þörf er á því að efla sjóðinn með þeim hætti. Það er ekki viðunandi að það fjármagn, sem veitt er sem lán í þessu skyni, verði í raun að eintómum styrkjum, að lán séu það að nafninu til, en endurgreiðsla í raun svo til engin vegna verðbólguþróunar sem skeður á greiðslutímanum. Undir þetta hafa námsmenn nú orðið tekið, og því hefðu átt að vera öll skilyrði til þess að mínum dómi að finna hér æskilega lausn, úr því að bæði námsmenn og stjórnvöld voru í rauninni á einu máli um þá meginreglu sem fylgja þyrfti við þessa breytingu á lögum um námslán og námsstyrki.

En það er öðru nær en svo hafi orðið. Menn vita vel, bæði innan þings og utan, að námsmannahópar eru að miklum meiri hl. a.m.k. algerlega andvígir þeirri niðurstöðu sem stjórnvöld komust að í meðferð sinni á þessu máli, því að satt best að segja rofnaði á síðasta stigi málsins sú samvinna sem lengi hafði staðið milli námsmanna annars vegar og stjórnvalda hins vegar. Þar fór afar illa og er ekki séð fyrir hvern dilk bað dregur á eftir sér.

Meginatriðið í málflutningi námsmanna hefur frá öndverðu verið það, að aukin endurheimta lánsfjármagnsins hljóti að byggjast á því að þeir endurgreiði stærri hluta af fengnum lánum sem að námi loknu hljóta hálaunuð embætti eða geta stundað mjög tekjumikla atvinnu. Hins vegar verði vægar farið í sakirnar gagnvart þeim sem eftir nám taka að sér störf sem launuð eru í meðallagi eða lakar.

Það, sem einkum hefur farið úrskeiðis í meðförum þessa máls á síðasta stigi hjá núv. hæstv. ríkisstj., er að hún tekur hvergi nærri nægilegt tillit til þeirrar misjöfnu aðstöðu sem lánþegar hafa að námi loknu til þess að endurgreiða að verulegu leyti raungildi á hverjum tíma af því lánsfé sem þeir hafa þegið á námstíma sínum, heldur hefur verið dregið úr endurheimtunni í Ed. En ég er handviss um að þar er samt of langt gengið, og því stend ég, þótt ég skrifi undir nál. minni hl. hv. menntmn. með fyrirvara, að brtt. sem ég flyt ásamt tveim öðrum hv. þm. á þskj. 844 og eru svipaðar eða hinar sömu og fluttar voru áður í Ed. við meðferð málsins þar. Sömuleiðis stend ég að brtt. sem flutt er sem varatill. ef hinar ná ekki fram að ganga á þskj. 867.

Ég er þess fullviss að verði frv. samþ. í þeirri mynd sem það barst frá Ed., þá líður ekki á löngu að hefja verður nýja endurskoðun á þessu námslánakerfi, því að það mun koma á daginn þegar þessar endurgreiðslur eiga að hefjast eftir þeim reglum sem í frv. eru settar að fjárkrafan, krafan um endurgreiðslu á raungildi fenginna lána, er allt of hörð gagnvart meðaltekjufólki og því sem lágar tekjur hefur. Hins vegar mætti ganga nokkru lengra gagnvart þeim sem lenda í hæstu tekjuflokkum að námi loknu, og brtt. okkar, sem ég nefndi áðan, víkja eingöngu að þessu, ganga í þá átt að hafa muninn meiri á endurgreiðsluhlutfalli eftir því hverra tekna menn njóta að námi loknu.

Fyrirvari minn við nál. minni hl. byggist á því að ég tel mig ekki geta staðið að þrem brtt. sem í raun fjalla aðeins um tvö atriði og aðrir úr minni hl. munu flytja. Mestu máli skiptir brtt. við 3. gr. sem fjallar um það í rauninni að þegar skuli uppfyllt umframfjárþörf námsmanna að fullu. Ég tel að það mundi auka á misrétti í námsmannahópnum að gera slíka kröfu nú, því að það eru fleiri námsmenn sem þurfa á stuðningi að halda á námsbrautinni heldur en sá hópur sem samkv. reglum þessa frv. getur aflað fjár með lánum eða styrkjum hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Það verður líka að líta til þess stóra hóps í framhaldsskólunum sem verður hvað fjárstyrk varðar til námsins einvörðungu að reiða sig á þær fjárveitingar sem veittar eru árlega til þess að jafna námsaðstöðu manna svo að þeir, sem langt þurfa að sækja skóla, þurfi ekki að bera miklu hærri skólakostnað en þeir sem sótt geta skóla frá heimilum sínum. Ég tel af minni reynslu af stöðu og kjörum námsmanna að einmitt í þessum hóp framhaldsskólanemenda, sem þurfa að sækja skólana oft landshorna milli, sé þörfin mest til þess að verða aðnjótandi námsaðstoðar sem þeim dugi til þess að tryggja að þeir flosni ekki upp frá námi. Ég tel það ekki verjandi að uppfylla umframfjárþörf námsmanna á háskólastigi og í öðrum skólum sem koma undir lánareglur Lánasjóðs ísl. námsmanna meðan stuðningur við nemendur, segjum í menntaskólum eða öðrum framhaldsskólum sem ekki geta orðið aðnjótandi fjár úr sjóðnum, er jafn hraksmánarlega lítill og hann er og hefur verið. Auðvitað má segja að það ætti að uppfylla hvorra tveggja þarfir samtímis. En eins og nú standa sakir um fjármál ríkis er slíkt tómt mál um að tala, það verður ekki gert. Þarna verður að mínum dómi að nokkru marki að velja á milli, og þegar svo er í pottinn búið, þá tel ég að námsmannahópurinn, sem ekki nýtur styrks eða lána úr Lánasjóði ísl. námsmanna, eigi frekar kröfu á auknu fjármagni til þess að uppfylla sínar brýnu þarfir heldur en þeir, sem undir lánasjóðsreglurnar koma, eiga á því að fá að fullu og öllu uppfyllta umframfjárþörf sína.

Hin brtt., sem ég get ekki staðið að, fjallar um það að niður skuli falla krafan um ábyrgðarmenn fyrir lánunum. Ég tel ekki rétt að fella hana niður enda þótt nú sé ætlunin að breyta eðli lánanna að verulegu leyti með verðtryggingu þeirra að hluta.

En síðustu orð mín við þessa umr. málsins, nema sérstakt tilefni gefist, skulu vera þau, að alþm. munu sanna það að með því að samþykkja á námsmenn þá, sem njóta fjár úr Lánasjóði ísl. námsmanna, harðari lánakjör en á nokkurn annan lánþegahóp í þjóðfélaginu eru þeir að safna glóðum elds að höfði sér. Það verður að breyta þessum ákvæðum, sem hæstv. ríkisstj. vill setja, áður en langt um líður, og betra væri fyrir alla aðila að lina þau nú þegar heldur en að þurfa að standa í einni endurskoðuninni enn, því að ég held að allir, sem nærri hafa komið, geti borið um það, að ekki er æskilegt verkefni fyrir neinn að standa í því starfi.