17.05.1976
Neðri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4492 í B-deild Alþingistíðinda. (3963)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegi forseti. Ég vildi segja hér örfá orð í sambandi við brtt. sem ég hef lagt fram við frv. til I. um námslán og námsstyrki ásamt Ellert B. Schram og Sigurlaugu Bjarnadóttur. En áður en ég vík að brtt. vil ég víkja örfáum orðum að frv. sjálfu.

Að mínu mati er ýmislegt við þetta frv. að athuga. En úr því sem komið er er ekki svigrúm til að fjalla um mörg atriði sem ég teldi að ástæða væri til að ræða um. Það gefst væntanlega tækifæri til þess að fjalla um þessi mál að nýju n.k. haust og gera viðeigandi breytingar við það frv. sem hér er til umr. Hins vegar er ekki hægt að láta þetta frv. fara í gegnum Alþ. eins og 16. gr. hljóðar. Greinin gerir ráð fyrir því að ráðh. verði veitt heimild sem getur haft í för með sér að mati okkar flm. á þskj. 835 að um sé að ræða verulega skerðingu á persónufrelsi manna ef þeirri heimild er beitt sem ráðh. fær samkv. gr. En í 16. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er ráðh. að ákveða í reglugerð að námsmenn utan Háskóla Íslands skuli greiða hagsmunasamtökum sínum hliðstætt gjald og Stúdentaráð Háskóla Íslands fær til sinna nota af „innritunargjaldi“. Á sama hátt getur ráðh. ákveðið að Lánasjóður innheimti gjald þetta þegar útborgun námsaðstoðar fer fram.“

Við flm. brtt., sem leggjum til að 2. mgr. 16. gr., þ.e.a.s. sú málsgr. sem ég las upp, falli niður, lítum þannig á, að bað sé rangt að skylda mann til að inna af hendi greiðslu til aðila eða stofnunar sem hann er í engum tengslum við. En svo háttar samkv. þessari gr. að það á að skylda námsmenn, sem ekki eru í Háskóla Íslands, til þess að greiða félagsgjald til hagsmunasamtaka stúdenta innan Háskólans. Í því felst mikið ranglæti að skylda menn, sem eru ekki aðilar að Háskóla Íslands til þess að inna af hendi umrædda greiðslu, auk þess sem hafa verður í huga að þeir stúdentar, sem hér um ræðir, eru við nám margir hverjir erlendis og greiða þar sín félagsgjöld. Með 18. gr. óbreyttri er verið að skattleggja þá stúdenta sem hér um ræðir. Þetta nær nauðvitað engri átt og er að okkar mati algert brot á öllum mannréttindum. Sé gr. samþ. óbreytt og noti ráðh. heimildina er um freklega lögþvingun að ræða gagnvart þeim námsmönnum sem eru utan Háskóla Íslands, og er ekki hægt að láta því ómótmælt, heldur gera breytingar í þá átt sem víð gerum, að þetta ranglæti verði numið úr frv.

Þá er einnig vert að vekja athygli á því að þeir stúdentar, sem hér um ræðir, þ.e.a.s. þeir sem eru utan við Háskóla Íslands, geta ekki haft nein áhrif á umrædd hagsmunasamtök né hvernig þessi samtök nýta það fé sem hér um ræðir ef sú heimild, sem segir til um í 16. gr., verður notuð. Þar við bætist að það er í hæsta máta óeðlilegt, og ég efast um að það fyrirfinnist í nokkrum lögum sem Alþ. hefur sett, að tengja saman félagsgjald eins ákveðins hóps við væntanlega möguleika á því að hefja nám, en það er gert með þeim hætti sem segir í gr. þar sem segir: „Á sama hátt getur ráðh. ákveðið að Lánasjóður innheimti gjald þetta þegar útborgun námsaðstoðar fer fram.“ Ég held, að þetta fyrirfinnist hvergi þar sem afgreiðsla lána á sér stað gagnvart almennum borgurum í okkar þjóðfélagi, og ef þessi háttur verður upp tekinn álít ég að farið sé inn á mjög varhugaverðar ef ekki hættulegar brautir. Það er óeðlilegt að tengja saman greiðslu félagsgjalds við útborgun á námsaðstoð. Hér er um óskyld atriði að ræða. Viðkomandi stúdent sækir um sitt lán burtséð frá því hvort hann hyggst stunda nám innan Háskóla Íslands eða annars staðar, og það á ekki að skerða rétt hans til lánsmöguleika með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég ætla ekki að hafa lengri framsögu í þessu máli og vænti þess að sú brtt., sem við höfum lagt fram, fái þinglega meðferð og nái fram að ganga.