17.05.1976
Neðri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4494 í B-deild Alþingistíðinda. (3969)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Ég hef ásamt fleirum undirritað þetta nál. með fyrirvara, og ég vil útskýra að það er vegna þess að við alþb.- menn teljum annað fyrirkomulag í raun og veru heppilegra, þ.e.a.s. að heildarskipan sé á raforkumálum.

Ýmislegt er athugavert við þetta frv. eins og það liggur hér fyrir. Mér þykir í raun og veru eðlilegt að samvinna sé um það á Vestfjörðum að nýta jarðvarma og að Orkubú Vestfjarða hafi það á sínum höndum, þ.e. jarðvarmavinnslu og sömuleiðis dreifingu raforku eða orkuveitu. Hins vegar hika ég við að samþykkja að orkuvinnslan og rannsóknirnar séu í höndum þessa fyrirtækis, en ekki í höndum t.d. Orkustofnunar eða Rafmagnsveitna ríkisins.

Það ríkir talsverður glundroði í þessum málum þegar á Vestfjörðum. Ég get nefnt sem dæmi að þegar eru t.d. þrír aðilar að vinna við rannsóknir á vatnsmagni þar. Það eru Almenna verkfræðistofan, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkustofnun. Og þarna bætist sem sagt fjórði aðili við.

En af því að mér þykir heldur vænt um vestfirðinga og veit að þar eru talsverð vandræði vegna rafmagnsskorts, þá ætla ég ekki að beita mér á nokkurn hátt gegn þessu frv. og ætla að fylgja því með þessum fyrirvara. En ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Benedikt Gröndal að flytja hér till. um ákvæði til bráðabirgða, sem er á þskj. 796, þar sem segir svo:

„Stefnt skal að því að endurskipuleggja skipan raforkumála í landinu öllu með það fyrir augum að allir landshlutar tengist saman í eitt orkuveitusvæði, en ein samstarfsstofnun ríkis og sveitarfélaga annist virkjunarrannsóknir og taki ákvarðanir um nauðsynlegar virkjanir og selji jafnframt rafmagn í heildsölu til dreifingaraðila á sama verði um land allt. Meðan þessi skipan raforkumála er ekki orðin að veruleika annast Orkubú Vestfjarða virkjunarrannsóknir og byggingu og rekstur raforkuvera á Vestfjörðum, en með nýrri skipan raforkumála skal ráðh. beita sér fyrir endurskoðun þessara laga.“

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að fram kom í dagblaðinu Tímanum um daginn að Framsfl. hefur nú samþykkt raforkumálastefnu sem er mjög í þessa átt, svo að ég vænti þess að fleiri muni fylgja þessari brtt. en stjórnarandstæðingar.