17.05.1976
Neðri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4497 í B-deild Alþingistíðinda. (3980)

161. mál, skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að gera lítils háttar aths. við álit minni hl. sem hér kemur fram.

Í fyrsta lagi vil ég gera þá aths. að það sé verið að knýja þetta frv. fram með sérstökum hraða eða miklum hraða. Þetta mál er búið að vera hér í þinginu í fulla þrjá mánuði, að ég hygg, þannig að enginn sérstakur hraði hefur verið á því.

Það segir í nál. minni hl., svo sem kom fram hjá hv. frsm. áðan, að það væri verið að tala um það að færa vald í hendur embættismanna kirkjunnar og m.a. sóknarnefnda. Ég hef ekki vitað það fyrr að sóknarnefndir væru embættismenn þjóðkirkjunnar, heldur fulltrúar safnaðanna heima fyrir og stýrðu málum þeirra þar.

Þá er það líka flutt fram sem röksemd að þessu máli skuli vísað til umsagna, og það eru nefndir aðilar eins og Prestafélag Íslands, héraðsfundir og Kirkjuþing. Ég vil upplýsa það ef þeim, sem standa að nál., er ókunnugt nm það, að um þetta mál hefur einmitt verið fjallað á Kirkjuþingi og það oftar en einu sinni. Þar að auki er ákaflega umhendis að þurfa að vísa til Kirkjuþings aftur máli sem það hefur afgreitt, þar sem það er ekki stærra í sniðum en svo að það kemur örfáa daga saman annað hvert ár. Ég hygg að Kirkjuþing hafi vísað þessu máli sem og öðrum veigamiklum málum til héraðsfundanna. Ég þori ekki að fullyrða neitt hér um niðurstöðu þeirra. Prestastefna Íslands hygg ég að hafi líka fjallað um þetta mál, þannig að ég vísa því á bug að ekki hafi nægt þær umsagnir sem menntmn. Ed. fékk þegar hún hafði frv. með höndum. Hún leitaði umsagna til dóms- og kirkjumrn. sem mælir eindregið með því, telur að það sé tímabært að gera þær breytingar sem gerðar eru á lögunum frá 1907, en bendir hins vegar á að það komi til greina samræming ef einhverjar frekari breytingar verði á meðferð mála heima í héraði og þá sérstaklega með tilliti til þess hvernig veiting prestakalla fari fram. Biskup sendi umsögn sem líka lá fyrir og er þar aðeins túlkuð afstaða Kirkjuþings, þar hafði málið verið afgreitt, eins og ég sagði. Hann getur þess að þetta frv. hafi að vísu verið í meðförum þingsins og ósk þeirra að það væri afgreitt á Alþ. ásamt öðru frv. sem á hefði verið bent, þ.e.a.s. um veitingu prestakalla, en telur að það þurfi á engan hátt að fara saman samþykkt þessa frv. og samþykkt hins frv. og það sé ástæða til að gera breytingar hér án tillits til þess.

Það er svolítið merkilegt út af fyrir sig að það skuli vera lagst gegn því að frá því fyrirkomulagi sé horfið að þessir fulltrúar séu kosnir sjötta hvert ár og að aðrar slíkar breytingar séu þá gerðar í kjölfarið.

Varðandi spurninguna um það hvort kosningar skuli vera óhlutbundnar eða hvort eigi að taka upp annað fyrirkomulag, t.d. listakosningar, hvort það eigi að vera laust í lögum um það hvernig kjöri varamanna skuli háttað t.d., þá held ég að það sé ekki þarna um að ræða að ekki sé gætt fyllsta lýðræðis. Ég held að óhlutbundnar kosningar séu jafnvel taldar vera lýðræðislegri heldur en nokkurn tíma listakosningar enda þótt í ýmsum tilvikum sé hægt að tryggja vissan rétt minni hl. með listakosningum. Þetta tel ég ekki vera svo veigamikið atriði að það sé réttlætanlegt að standa gegn slíkri lagasetningu.

Ég held satt að segja að það liggi að baki þessari afstöðu að það sé annað mál á ferðinni, þ.e.a.s. þáltill. sem hefur ekki hlotið afgreiðslu hér enn þá, varðandi skipun n. til að endurskoða lög um veitingu prestakalla. Um það ætla ég ekkert að ræða hér, en ég sé ekki að ótti við það mál þurfi að hefta framgang þessa frv. sem við hér erum að fjalla um.