10.10.1975
Sameinað þing: 1. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfs

Aldursforseti (Guðlaugur Gíslason):

Borist hafa eftirfarandi bréf:

„Þar sem ég vegna veikinda mun ekki geta sótt þingfundi á næstunni, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður Alþbl. í Reykjavík, Vilborg Harðardóttir blaðamaður, taki sæti á Alþ. í forföllum mínum.

Magnús Kjartansson, 3. þm. Reykv.

Bréfið er dags. 6. okt. — Enn fremur:

„Þar sem ég þarf að ráði lækna minna að dveljast erlendis fram yfir næstu mánaðamót, leyfi ég mér að biðja um orlof frá þingstörfum þann tíma. Jafnframt óska ég þess, að 1. varamaður Sjálfstfl. í Reykjavík, frú Geirþrúður Hildur Bernhöft, taki á meðan sæti mitt á Alþ. samkv. ákvæðum þingskapa og venjum þar um.

Virðingarfyllst,

Jóhann Hafstein.“

Og einnig:

„Dagana 8.–25. okt. n. k. verð ég fjarverandi í opinberum erindum. Þann tíma get ég ekki sótt fundi Alþingis. 1. varamaður Framsfl. í Vestfjarðakjördæmi, Ólafur Þ. Þórðarson skólastjóri, Suðureyri, mun sitja þingfundi þann tíma sem ég er fjarverandi.

Steingrímur Hermannsson.“

Kjörbréf frú Geirþrúðar H. Bernhöft og Ólafs Þ. Þórðarsonar hafa verið rannsökuð áður og þurfa því ekki rannsóknar við. Býð ég þau ásamt þm. öllum öðrum svo og starfsliði Alþingis velkomin til starfa.

Hins vegar hefur ekki verið rannsakað bréf frú Vilborgar Harðardóttur og vil ég biðja kjörbréfanefnd að taka það til rannsóknar. Verður gert hlé á fundinum á meðan í um það bil 10 mínútur. — [Fundarhlé.]