18.05.1976
Efri deild: 120. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4502 í B-deild Alþingistíðinda. (4012)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. fór þess á leit við sjútvn. að hún drægi til baka þrjár af brtt. þeim sem n. flytur á þskj. 848. Einnig var mælst til þess að sameiginlegur fundur yrði með sjútvn. Nd. En við nánari könnun á möguleikum á samkomulagi eftir þá till. sem hér var samþykkt áðan um takmörkun á togveiðiheimildum kemur í ljós að enginn grundvöllur muni vera til samkomulags á milli n. og hefur því verið komist að þeirri niðurstöðu að slíkur sáttafundur sé tilgangslaus. Hins vegar hefur sjútvn. skoðað þessar brtt. og vil ég leyfa mér að leggja hér fram skriflegar brtt. við þær sem ég mun nú gera nánari grein fyrir.

N. treystir sér ekki til þess að gera breytingar á 1. till. sinni sem fjallar um ýmsar veiðiheimildir eða takmörkun réttara sagt á veiðiheimildum, telur ekki ljóst hvaða breytingar þar gætu orðið til samkomulags, enda ýmsum þeim till., sem þar eru fluttar, fylgt eftir mjög ákveðið af ýmsum nm.

Einnig dró n. til baka 3. brtt. við 8. gr. frv. og gerir nú brtt. þannig að í stað „Ráðh. setur sérstaka trúnaðarmenn“ komi: „Ráðh. getur sett sérstaka trúnaðarmenn“, færir þetta þá til sama horfs og það var í upphaflega frv. Einnig leggur n. til að í þessari brtt. verði niður felld orðin í þessari sömu mgr.: „og skipverjar eftirlits- og rannsóknaskipa“. Hljóðar þá þessi mgr. þannig:

„Ráðh. getur sett sérstaka trúnaðarmenn um borð í veiðiskip, eftir því sem þurfa þykir, og er skipstjórum veiðiskipa skylt að veita eftirlitsmönnum þessum þá aðstoð og aðstöðu um borð í skipum sínum sem nánar er ákveðið í erindisbréfum útgefnum af rn. til handa eftirlitsmönnum þessum.“

Það er ljóst að þetta innskot: „og skipverjum eftirlits og rannsóknaskipa“, á ekki heima í þessari mgr. Í þessari mgr. er eingöngu fjallað um trúnaðarmenn þá sem ráðh. getur sett um borð í veiðiskip. Telur n. því þá ábendingu hæstv. ráðh. rétta að þetta ætti að falla brott.

Þá hefur n. rætt um 6. brtt. þar sem n. lagði til að ávallt skyldi leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar og Fiskifélags Íslands. N. virðast rök fyrir því að ekki sé nauðsynlegt að gera það í öllum tilfellum, en vill hins vegar leggja áherslu á, að það verði meginregla og leggur því til að gr. verði breytt þannig að á undan „Fiskifélags Íslands“ komi: „að jafnaði“. Yrði gr. þá þannig:

„Veiðiheimildir samkv. 13.–15. gr. skulu jafnan vera tímabundnar og skal ávallt leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar og að jafnaði Fiskifélags Íslands áður en þær eru veittar.“ Og síðan heldur áfram: „Auk þess skal ráðh. leita umsagnar annarra aðila þegar honum þykir ástæða til.“

Þarna er kveðinn upp eins konar Salómonsdómur, en lögð ríkari áhersla á Fiskifélagið en er í gildandi lögum, en þó opnað þannig, að rn. geti metið það hverju sinni.

Þessar brtt. eru skriflegar og of seint fram komnar, og vil ég óska eftir því við hæstv. forseta að leitað verði afbrigða.