18.05.1976
Neðri deild: 114. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4506 í B-deild Alþingistíðinda. (4040)

287. mál, vegalög

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð nú við þessa 1. umr. um þetta mál.

Það er nú skammt stórra höggva í milli hjá hæstv. ríkisstj. Fyrir nokkrum dögum lagði hún hér fram till. til þál. um vegáætlun til fjögurra ára. Nú er hér komið frv. til l. um breyt. á vegal. sem gerir ráð fyrir því að þessi nefnda áætlun verði ekki til fjögurra ára, heldur að öllum líkindum í reynd í framkvæmd til 3–4 mánaða og minna mátti nú ekki gagn gera.

Það hefur komið fram í umr. áður að afrek hæstv. ríkisstj. í sambandi við framkvæmdir í vegamálum, frá því að hún tók við völdum, eru með slíkum endemum að vart munu dæmi finnast slíks. Þetta frv. ber merki þess að hæstv. ríkissj. dregur nú uppgjafarfána að hún í sambandi við vegaframkvæmdir, og þess mun að sjálfsögðu lengi minnst hvernig hér er ætlunin að standa að afgreiðslu í sambandi við vegaframkvæmdir nú á þessu þingi. Það er ekki ástæða til að ræða frekar um þetta í sambandi við þetta frv. Þessi mál verða að sjálfsögðu meira til umr, í heild þegar vegáætlun kemur til framhaldsumr., líklega strax í dag, er óhætt að segja, ef að líkum lætur og fram heldur sem horfir. En það er ástæða til þess að vekja athygli einmitt á þeim skjótu umskiptum sem átt hafa sér stað í sambandi við áætlanir í vegagerð undir handleiðslu hæstv. ríkisstj.