18.05.1976
Neðri deild: 115. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4508 í B-deild Alþingistíðinda. (4050)

287. mál, vegalög

Frsm. minni hl. (Karvel Pálmason):

Hæstv. forseti. Það hefur ekki gefist tími til þess einu sinni að koma fjölrituðu nál. minni hl. samgn. á borð hv. þm. Það er nú svo hart keyrt að nefndafundum er vart lokið þegar viðkomandi mál er tekið á dagskrá hér á hv. Alþ. til afgreiðslu. Ég vil því leyfa mér að lesa nál. frá minni hl. samgn. varðandi það mál sem hér er til umr., þ.e.a.s. breyt. á vegalögum:

„Minni hl. samgn. telur að með frv. þessu viðurkenni ríkisstj. í reynd algera uppgjöf sína í sambandi við framkvæmdir í vegamálum.

Með frv. er lagt til að fella úr gildi þau ákvæði vegalaga að gerð skuli áætlun til fjögurra ára varðandi framkvæmdir við vegi, en þau vinnubrögð hafa að flestra dómi gefist mjög vel.

Með frv. þessu er því stigið stórt skref til baka sem er vafalaust til hins verra, og ástæða þess er getuleysi hæstv. ríkisstj. Vegáætlun er eitt veigamesta mál þingsins, enda eru samgöngumál einn mikilvægasti þáttur í vexti og viðgangi landsbyggðarinnar.

Það er athyglisvert og dæmigert fyrir vinnubrögð stjórnarflokkanna hér á hv. Alþ. að frv. þetta skuli lagt fram næstsíðasta dag þingsins. En þar sem hér er um að ræða ákvörðun meiri hl. hér á Alþ. og ekki eru líkur á að komið verði í veg fyrir afgreiðslu málsins með þessum hætti, ekki síst vegna þess hve vegáætlun er seint fram komin og ekki hefur gefist nægilegur tími til að reyna til þrautar hvort hægt væri að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstj. í máli þessu munu undirritaðir sitja hjá við afgreiðslu málsins.“