18.05.1976
Sameinað þing: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4511 í B-deild Alþingistíðinda. (4064)

247. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þingflokkur Alþfl. hefur rætt þrjá samninga um heimildir erlendra þjóða til þess að veiða innan fiskveiðilögsögunnar, þ.e.a.s. samninga ríkisstj. við norðmenn, færeyinga og belga. Þingflokkurinn hefur tekið þá afstöðu að fylgja samningnum við norðmenn, vegna þess að hann feli í sér tvímælalausa viðurkenningu á yfirráðum íslendinga yfir 200 mílna fiskveiðilögsögunni og íslendingar geti einhliða ákveðið hversu mikið norðmenn megi veiða innan fiskveiðilögsögunnar og gert ráð fyrir því að íslensk yfirvöld tryggi að afli norðmanna minnki a.m.k. jafnmikið og afli íslendinga kann að dragast saman, og mælir því með þeirri samningsgerð.

Þingflokkurinn taldi hins vegar verulega meinbugi á samningsgerðinni við færeyinga. Ríkisstj. hefur ekki enn opinberlega skýrt frá neinum ákvörðunum um hvernig hún hyggist bregðast við till. fiskifræðinga um verulega minnkaða sókn í þorskstofninn sem að öðrum kosti er, eins og allir víta, í alvarlegri hættu. En í samningnum við færeyinga er gert ráð fyrir því að þeim verði heimilað að veiða verulegt magn af þorski og öðrum fiski, samtals um 85% af því magni sem þeim var heimilað að veiða samkv. fyrri samningi. En samningur hefur engu að síður verið gerður við færeyinga og við belga, og komst þingflokkur Alþfl. þess vegna að þeirri niðurstöðu, sérstaklega að því er varðar samninginn við færeyinga, að íslendingum sé eðlilegt að sýna þeim sérstakan vináttuvott og sérstaka tillitssemi umfram allar aðrar þjóðir að því er snertir veiðiréttindi innan fiskveiðilögsögunnar. Þess vegna munu þm. Alþfl. láta till. um samningana við færeyinga og belga afskiptalausar.