18.05.1976
Sameinað þing: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4511 í B-deild Alþingistíðinda. (4065)

247. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til undir þessum dagskrárlið að eyða nokkru máli í það að ræða landhelgismálið í víðari merkingu heldur en hér er á dagskrá. Auk þess samkomulags, sem nú er tekið til umr., er einnig á dagskrá þessa fundar þáltill. varðandi samning við belga og norðmenn. En það fer ekki hjá því að undir umr. sem þessum og ekki síst vegna nýlegra ummæla hæstv. forsrh. varðandi breta, þá fer ekki hjá því að hér verði að eyða nokkru máli í umr. um meira en það sem kemur þessum samningum við.

Ég skal þó, virðulegi forseti, ekki vera langorður. Ég vil að sjálfsögðu sýna þá samningalipurð að hægt verði að ljúka þingstörfum eins og ósk hæstv. forsrh. hefur komið fram um, hvort sem það verður nú á þessum degi, kvöldi eða næsta morgni.

Menn muna það, hv. þm. muna það, að þegar hæstv, ríkisstj. tók við völdum, þá mátti greina, lesa og heyra yfirlýsingar af vörum margra hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj. um það að engir samningar í landhelgismálinu yrðu gerðir, ekki við neitt ríki, nema því aðeins að fullnægt yrði ákvæði bókunar 6 um tollfríðindi innan EBE. Á þessu var klifað vikum og mánuðum saman, og þessar yfirlýsingar hafa líklega orðið til þess að æðimargir hafa reiknað með því að þeim mætti treysta og að ekki yrði snúist þvert við gerðum í þessu efni miðað við gefin fyrirheit og orð.

Það þarf ekki að minna h.v. þm, á það hvað gerðist á s.l. hausti að því er varðar vestur-þjóðverja, þá þjóðina sem næst bretum hefur verið andstæðust okkur að því er varðar landhelgismálið þó að sem betur fer hafi hún ekki farið í kjölfar breta um valdbeitingu og vopnaða íhlutun. En hér á Alþ. í haust, í nóvembermánuði, var einmitt til umr. samkomulag við vesturþjóðverja um veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar. Þar var ekki að finna nein fyrirheit um það að samþykkt yrði það samkomulag að bókun 6 kæmi til framkvæmda. Þá var slegið striki yfir öll stóru orðin, allar mörgu yfirlýsingarnar frá hæstv. ráðh., en því haldið fram og þá haldið fyrst og fremst af hv. stjórnarliðum sem reikulir voru í rásinni að til tryggingar því, að bókun 6 kæmi til framkvæmda, væri að finna í samningsdrögunum ákvæði þess efnis að ef tollfríðindi samkv. bókun 6 hefðu ekki tekið gildi innan 5 mánaða, þá væri heimilt að fresta framkvæmd samkomulagsins þar til þessu ákvæði væri fullnægt. Og á því var klifað af hæstv. ráðh. og upp tekið af hv. þm, stjórnarliðsins að hér væri trygging fyrir því að þetta samkomulag mundi einvörðungu gilda í 5 mánuði, en að þeim tíma liðnum yrði framkvæmd þess frestað ef hin margumtalaða bókun 6 yrði ekki komin til framkvæmda. Ef menn líta yfir umr, frá þessu tímabili, þá má finna yfirlýsingar og ummæli hv. þm. og hæstv. ráðh. sem ótvírætt gáfu tilefni til þess að það mætti treysta því að við þessi fyrirheit yrði staðið. Hæstv. utanrrh. gaf hér ótvíræða yfirlýsingu á Alþ. í þessum umr. um það, eftir að einn af hv. stjórnarþm., Steingrímur Hermannsson, hafði óskað eftir því sérstaklega að slík yfirlýsing yrði gefin ótvíræð, að samningunum yrði frestað, þá gaf hæstv. utanrrh. um það hér ótvíræða yfirlýsingu að samkomulaginu yrði frestað ef bókun 6 yrði ekki komin til framkvæmda innan þessa 5 mánaða tímabíls. Og ég er ekki í neinum vafa um það að hæstv. utanrrh. hefur meint þetta, hann hefur ætlað sér þetta, ég dreg það ekkert í efa. En það eru önnur öfl sem hafa orðíð þess valdandi að við þetta hefur ekki verið staðið.

Það var sem sagt 28. apríl, ef ég man rétt, sem þessi 5 mánaða tími var útrunninn, og samkv. yfirlýsingum og gangi mála hefði átt að fresta samkomulaginu við vestur-þjóðverja frá og með þeim tíma. En það var nú ekki aldeilis að við því yrði orðið. Enn einu sinni voru marggefnar yfirlýsingar dregnar til baka og þeim kyngt, og enn í dag, þegar komið er fram undir 20. maí, þ.e.a.s. um þrem vikum eftir að samkomulagið hefði samkv. öllum yfirlýsingum átt að vera fallið úr gildi, þá er það enn í fullu gildi, samkomulag um veiðiheimildir til handa þjóðverjum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, og ekkert bendir til þess enn, nein merki sjáanleg um að þar verði nein breyting á.

Auk þessa verður ekki hjá því komist að beina aðeins huganum að yfirlýsingum eða ummælum hæstv. forsrh. í sambandi við hugsanlegar samningaumleitanir við breta, og má það þó furðulegt teljast ef einhverjum íslendingi, einhverjum ráðamanni á Íslandi kemur það til hugar nú, eftir allt það sem á undan er gengið, að nú verði sest að samningaborði við breta og þeim veittar veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu eftir það sem þeir hafa af sér sýnt gagnvart íslendingum í þessu máli á undanförnum vikum og mánuðum og árum. En ummæli hæstv. forsrh. gefa vissulega tilefni til þess að það megi ætla að einhvers konar hugleiðingar í þá átt séu fyrir hendi innan herbúða hæstv. ríkisstj. Ég vil þó vona að það sé ekki ein af ástæðum þess eða ein mikilvægasta ástæða þess hversu hart er nú keyrt og á það stefnt að ljúka þingi sem allra fyrst og senda það heim, að meiningin sé að hafa fyrst og fremst frið til þess að gera samkomulag við breta um veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Ef það er meiningin, þá væri vissulega ástæða til þessa með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir það að Alþ. yrði sent heim á þessum tíma, — ef það er meining hæstv. ríkisstj, að senda þing heim nú til þess að hafa sem best spil og fríast til þess að geta unnið að samkomulagi við breta um veiðar í landhelginni. Ég vil ekki að óreyndu, þó að ég viti að hugur hæstv. forsrh, og ýmissa fleiri hæstv, ráðh., þ. á m. hæstv. sjútvrh., hefur alla tíð staðið og stendur enn til þess að gera samning við breta, þá vil ég ekki að óreyndu a.m.k. trúa því að það sé ein aðalástæðan fyrir því að svo hart er keyrt á að ljúka þingi, að þeir vilji fá frið til þess að gera samning við breta um veiðar í landhelginni.

Það er sem sagt augljóst að það er vart að treysta, hvort sem er yfirlýsingum hæstv. ráðh. eða fullyrðingum hv. stjórnarliða hér á Alþ. í sambandi við landhelgismálið. Með hliðsjón af því, sem gerst hefur, og reynslunni, þá er fyllsta ástæða til þess að vera tortrygginn í garð þessara aðila, vegna þess að það er vitað og hefur ekkert farið leynt að mjög sterk öfl innan hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka eru þess mjög fýsandi að gera samninga um veiðar og veiðiheimildir innan landhelginnar og það meira að segja við breta, svo furðulegt sem það þó er.

Varðandi þær þáltill., sem hér eru nú til umr. og verða síðar á þessum fundi, þ.e.a.s. um heimildir til handa norðmönnum, færeyingum og belgum til veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, þá þykist ég vita að það er miklum mun jákvæðara hugarfar hjá íslendingum almennt gagnvart samningum t.d. við norðmenn eða færeyinga heldur en ýmsar, ef ekki allar aðrar þjóðir sem óskað hafa slíks. En ef verið er að tala um samninga við eina eða aðra þjóð, þá verða menn að hafa það í huga hvert ástand fiskstofna við landið er. Það er ekki langt síðan hæstv. sjútvrh. skipaði n. til þess að gera till. um það með hverjum hætti væri best dregið úr sókn á fiskimiðin til þess að ekki væri í algert óefni stefnt. Þessari n. hafa menn gefið það heiti að kallast „sóknarnefnd“, sumir segja „framsóknarnefnd“. En till. þessarar n. liggja nú fyrir og hafa legið fyrir í nokkurn tíma, a.m.k. nokkrar vikur. N. þessi skiptist í meiri og minni hl., en í báðum þessum nefndarhlutum eru uppi hugmyndir um það að banna — bókstaflega banna þorskveiðar á Íslandsmiðum um tiltekið tímabil, í öðru tilvikinu um tvo mánuði, í hinu síðara um fjóra mánuði. Og meðan ekki er vitað um það hvað hæstv. ríkisstj. hyggst fyrir í þessum málum, hvort hún er með það í huga að banna t.d. þorskveiðar á Íslandsmiðum íslendingum sjálfum í 2 eða 4 mánuði, þá vil ég a.m.k. fyrir mitt leyti segja að ég er ekki reiðubúinn til þess að lýsa stuðningi við samningsgerð einni eða neinni þjóð til handa til þess að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, — ef það er meining stjórnvalda að gera þær ráðstafanir, sem uppi eru hugmyndir um, að banna íslendingum sjálfum með öllu veiðar á Íslandsmiðum á tilteknu tímabili. Um þetta hefur verið spurt, hver væri meining hæstv. ríkisstj. og hver áform um það að draga úr sókninni, en mér vitanlega hafa ekki enn komið neinar yfirlýsingar eða ákveðin svör hvaða ráðum verði beitt gegn þessum vanda. Ég vil því segja strax fyrir mitt leyti að ég mun greiða atkv. gegn öllum þessum samkomulagshugmyndum, þáltill. öllum þrem. Ég mun greiða atkv. gegn samningum við norðmenn, belga og færeyinga. Ég tel að það sé nauðsynlegt áður en þm. eru til þess knúnir eða af þeim ætlast að þeir ljái atkv. sitt með samningum við eina eða neina þjóð innan landhelginnar, þá sé það skylda stjórnvalda í því ástandi sem nú ríkir varðandi fiskstofna á miðunum að þm, fái að vita hvað ríkisstj, ætlar að gera varðandi íslendinga sjálfa, áður en farið er að ljá því máls að láta af hendi svo og svo mikið aflamagn útlendingum til handa af fiskimiðunum. En engin slík vitneskja hefur komið fram, og það verður að skoðast svo að hæstv. ríkisstj. sé ekki enn búin að mynda sér skoðun á því hvaða ráðum skuli beitt til þess að draga úr sókn. Og meðan hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til þess að leggja fram um það till. gagnvart íslendingum sjálfum, þá getur hún ekki ætlast til þess af alþm. að þeir ljái máls á því að leyfa útlendingum að taka svo og svo mikið aflamagn hér á miðunum þegar slíkt neyðarástand vofir yfir íslendingum sjálfum.

Auk þess að menn hafa talað um að banna þorskveiðar á Íslandsmiðum íslendingum sjálfum um lengri eða skemmri tíma, þá hafa einnig heyrst um það raddir að hæstv.ríkisstj. sé að velta því fyrir sér að setja kvóta á t.d. hvert byggðarlag, hvert sjávarpláss í landinu, hámarksaflamagn sem þar megi veiða og þar megi berast að landi. Við þessum spurningum hafa ekki fengist nein ákveðin svör, og meðan það fæst ekki vil ég fyrir mitt leyti lýsa því alveg sérstaklega yfir að ég mun greiða atkv. gegn öllum samningum við erlenda aðila um veiðiheimildir í íslenskri landhelgi, meðan það ástand ríkir sem nú er hér á Íslandsmiðum og ekki sjást nein viðbrögð af hendi hæstv. ríkisstj. til þessa að segja fyrir um hvað hún ætlar íslendingum sjálfum.

Það má auðvitað segja í sambandi við t.d. norska samninginn að þar er um tiltölulega — nú segi ég kannske of mikið þegar ég segi: þar er um tiltölulega lítið aflamagn að ræða, því að þar væri um að ræða, ef slík þáltill. yrði samþykkt eins og sú sem hér liggur fyrir varðandi norðmenn, óútfylltan víxil til handa hæstv. ríkisstj. til að segja til um aflamagn. Hún á sjálf samkv. samkomulaginu að ákvarða það aflamagn sem norðmönnum yrði heimilt að veiða hér á Íslandsmiðum. Og ég segi fyrir mitt leyti, með hliðsjón af því sem gerst hefur í landhelgismálinu af hálfu hæstv. ríkisstj. gagnvart útlendingum, þá vil ég gjalda varhuga við því að hæstv. núv. ríkisstj. séu fengin of mikil völd eða frjálst spil í því að ákvarða hvað útlendingar megi taka hér af fiskmagni við strendur landsins. Það, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur haldið á landhelgismálinu gagnvart erlendum aðilum, það ætti að vera til varnaðar því að henni sé gefið um of frítt spil til þess að fara með þessi mál án þess að Alþ. a.m.k. sé þá sá varúðarpóstur sem alltaf sé við höndina til þess, ef mögulegt reynist, að stöðva framkvæmdir af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessu máli sem í mörgum tilvikum eru skaðlegar íslenskum málstað.

Varðandi samkomulagið við færeyinga, þá er þar aftur á móti um að ræða ákveðið aflamagn og þar er gert ráð fyrir að færeyingar megi veiða hér við land um 17 þús. lestir og þar af um 8 þús. lestir af þorski. 8 þús. lestir af þorski eru ærið mikið magn miðað við ástand þorskstofnsins eins og hann er nú hér á Íslandsmiðum og er álíka, ef ekki meira en sæmilega stór verstöð hér á Íslandi hefur til vinnslu yfir vertíðina. Hér er því um verulegt aflamagn að ræða sem í þessu tilviki færeyingum er heimilað að veiða af þorskstofninum á sama tíma og yfir höfðum íslendinga sjálfra vofir sú ákvörðun af hendi hæstv. ríkisstj. að banna með lögum veiðar á Íslandsmiðum um tiltekið tímabil. Og ég hygg að það sjái það hver maður, að það er óeðlilega með mál farið að ætlast til þess af hv. alþm. að þeir ljái máls á slíku, a.m.k. fyrr en þá það er séð hvað hæstv, ríkisstj. ætlar að gera varðandi íslendinga sjálfa.

Ég hef með þessum fáu orðum gert hv. þm. það ljóst hver afstaða mín er til þessara mála, allra þriggja. Ég hef kosið að hafa þann hátt á að gera grein fyrir þeim öllum hér í einu því að ég þykist vita að þau eigi að afgreiða öll nú á þessum sama fundi. En áður en ég lýk máli mínu, vil ég aðeins spyrja hæstv, utanrrh, eða hæstv. forsrh., hvor þeirra sem heldur vill svara, hvort þeir geti gefið um það upplýsingar hér og nú hvað langur tími á að líða áður en til framkvæmda kemur frestun á samningunum við vestur-þjóðverja, sú frestun sem marggefnar yfirlýsingar voru um hafðar hér á Alþ. í nóv. s.l. af hæstv. utanrrh., og eins og ég sagði áðan, ég tel alveg vist að hæstv. utanrrh. hafi ætlað sér að standa við þessar yfirlýsingar, en það hafi aðrir komið í veg fyrir það að honum haldist það uppí. Ég vil því spyrja: Er hægt að fá um það yfirlýsingu nú hvenær á að fresta framkvæmd samningsins við vestur-þjóðverja ef bókun 6 er ekki komin í gildi? Ég spyr um þetta ekki síst vegna þess að núna i. júní opnast veiðisvæði fyrir vestur-þjóðverja úti fyrir Vestfjörðum. Er það meining hæstv. ríkisstj. að auk þess að nú hafa bretar farið á Vestfjarðamið með öllum þeim hugsanlegu afleiðingum sem af því verða, — er það meining hæstv. ríkisstj, að stefna auk bretanna vestur-þjóðverjum á miðin úti fyrir Vestfjörðum núna 1. júní? Eða ætlar hæstv. ríkisstj. að manna sig upp í það að fresta framkvæmd samkomulagsins við vestur-þjóðverja eins og hún hefur marggefið yfirlýsingar um? Ég tel að það sé nauðsynlegt að fá um þetta vitneskju, og því nauðsynlegra er það með hliðsjón af því að það er vitað að vestur-þjóðverjar hafa brotið það samkomulag sem hefur verið í gildi að því er varðar miðin úti fyrir Vestfjörðum. Þar hafa þýskir togarar stundað veiðar á því tímabili sem þeim er það óheimilt. Hefur því gerst að því leytinu til það sama sem gerðist á Austfjarðamiðum, þó að þar væri að vísu um miklu alvarlegra brot að ræða, þ.e.a.s. úti fyrir Austfjörðum, heldur en hefur verið þó að því er varðar Vestfirði, en brot er það samt.

Ég vænti þess að annar hvor hæstv. ráðh, geti upplýst um það hér á Alþ. nú áður en þingið verður heim sent hvort það er meining hæstv. ríkisstj. að bíða endalaust eftir því að þjóðverjum þóknist með einhverjum hætti að láta á það reyna hvort þeir fái því til leiðar komið að bókun 6 komi til framkvæmda, — eða ætlar hæstv. ríkisstj. að manna sig upp í það að standa við marggefnar yfirlýsingar um það að vesturþýska samningnum skuli fresta ef bókun 6 kemur ekki til framkvæmda?