18.05.1976
Sameinað þing: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4517 í B-deild Alþingistíðinda. (4069)

248. mál, samkomulag um takmarkaðar veiðar norskra skipa innan fiskveiðilögsögu Íslands

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef áður gert grein fyrir því að sú skoðun okkar alþb: manna, að almennt séð séu engin tök á því nú, eins og fiskstofnum okkar er komið, að gera samninga við erlendar þjóðir, og þar teljum við að ekki geti verið um neina undantekningu að ræða aðra en tekur til færeyinga sem hafa algera sérstóðu, eins og ég hef þegar rökstutt og þó alveg sérstaklega við 1. umr. þess máls, samningsgerðar víð færeyinga. Þetta gildir því bæði um þá samningsgerð við norðmenn, sem hér er til umr., og þá samningsgerð við Belgíu, sem er næsta mál á dagskránni. Við teljum að það sé ekki gerlegt fyrir okkur, eins og nú er komið fiskstofnunum og þá alveg sérstaklega þorskstofninum, að gera slíka samninga við aðrar þjóðir. Ég bendi einnig á það í nál. mínu að það fiskmagn sem þarna er í rauninni um að ræða og er að sjálfsögðu takmarkað af þeim fiskiflota sem heimild er fyrir að veita veiðileyfi og er að vísu ekki mikið, — ég bendi á það að þetta er ákaflega lítið mál fyrir norðmenn og skiptir í rauninni ekki nokkrum sköpuðum hlut í norskum þjóðarbúskap. Einnig bendi ég á það, að sú röksemd er ákaflega haldlítil að við þurfum að kaupa það einhverju sérstöku verði með samningum um veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu að norðmenn viðurkenni að einhverju takmörkuðu leyti, með hálfkveðnum orðum, útfærslu okkar í 200 mílur. Í því sambandi vil ég aðeins benda á það, að nú fyrir fáum dögum mun forsrh. norðmanna hafa lýst því yfir að verði ekki komin niðurstaða á Hafréttarráðstefnu fyrir lok þessa árs, þá muni norðmenn færa út einhliða fyrir eða um næstu áramót.

Ég legg sem sagt til að þessi till. til þál. um staðfestingu á samkomulaginu við norðmenn verði felld, og ég tel að hin sömu rök gildi um þáltill. um staðfestingu á samkomulagi við Belgíu og mun láta þessi orð nægja í sambandi við báðar þessar þáltill. Ég legg til að þær verði báðar felldar.