18.05.1976
Sameinað þing: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4523 í B-deild Alþingistíðinda. (4092)

283. mál, réttindi og skyldur stjórnmálaflokka

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eftir að þáltill., sem við fluttum nokkrir þm. Alþb. um fjárreiður stjórnmálaflokka, hafði verið tekin til umr. í þinginu og eftir að einnig höfðu spunnist hér nokkrar umr. um frv., sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flutti í Nd., varð það að óformlegu samkomulagi milli þingflokkanna að einn maður frá hverjum flokki kannaði samkomulagsmöguleika um þessi mál. Þessi óformlega n. kom saman á nokkra fundi í kringum hátíðarnar.

Þessi n. stóð fyrir því að aflað var gagna um fjárreiður stjórnmálaflokka í nálægum löndum og reyndist það allmikið upplýsingaefni sem þar var saman komið. Má segja að það samkomulag, sem liggur fyrir um afgreiðslu þessarar till. sem hér er til umr., sé ávöxtur af þeim viðræðum um þessi mál sem fram fóru óformlega í n. í vetur, þ.e.a.s. að málefni stjórnmálaflokkanna, jafnt fjárreiður sem önnur mál þeirra, réttindi þeirra og skyldur, verði tekin til sérstakrar athugunar í mþn. Þar sem ég var að athuguðu máli vonlaus um að sú till., sem við alþb: menn höfðum flutt hér í Sþ., næði fram að ganga, þá tók ég þátt í að semja um afgreiðslu málsins með þessum hætti. Ég er eftir atvikum ánægður með þessa niðurstöðu og mæli því eindregið með því að till. þessi nái fram að ganga. Það er von mín að sú n., sem skipuð verður í framhaldi af samþykkt þessarar till., taki rösklega til starfa og skili áliti um viðfangsefni sitt í þingbyrjun næsta haust.