18.05.1976
Efri deild: 122. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4525 í B-deild Alþingistíðinda. (4100)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt við fyrri umr. um þetta lagafrv. að ég tel það mjög þarflegt að flestu leyti. Hv. síðasti ræðumaður, Steingrímur Hermannsson, tók af mér ómakið að mestu við gagnrýni á ákvæði um kjör í stjórn Fiskveiðasjóðs, tíundaði þar flest það sem ég vildi sagt hafa. Ég fagna vissulega eins og hann yfirlýsingu hæstv. forsrh. varðandi fyrirhugaða skoðun á þessum málum, en legg eigi að síður fram brtt. á þskj. 907 sem orðast svo:

„Upphaf 6. gr. orðist þannig:

Fiskveiðasjóður heyrir undir ráðh. þann sem fer með sjávarútvegsmál. Skal stjórn hans vera í höndum 7 manna. Fjórir skulu kosnir með hlutfallskosningu í Sþ. til 4 ára í senn. Aðra skipar ráðh. til 2 ára í senn eftir tilnefningum. Einn skal tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna. Eftirtalin samtök í fiskiðnaði tilnefna sameiginlega einn fulltrúa o.s.frv.“

Ég tel, að skipan stjórnar á þessa lund væri mjög æskileg, og óska því eftir því að hv. þm. hér í d. taki afstöðu til þessarar brtt. þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. forsrh.