18.05.1976
Efri deild: 122. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4526 í B-deild Alþingistíðinda. (4106)

267. mál, sala Reykhóla í Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandasýslu

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., er heimildarlög fyrir ríkisstj. til að selja Reykhólahreppi jörðina Reykhóla í Austur-Barðastrandarsýslu. Landbn. hefur fjallað um frv. og mælir með því að það verði samþ. eins og það kom frá Nd., en á því var gerð nokkur breyt. frá upphaflegu frv., — breyt. sem er að finna á þskj. 808.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta frv. Að áliti n. gegnir nokkuð öðru máli að heimila sölur til sveitarfélaga en til einstakra manna, þarf að gæta fleiri atriða þegar um það er að ræða. Hins vegar liggur það fyrir að við vaxandi byggð á Reykhólum í sambandi við þörungaverksmiðjuna og fleiri starfrækslu þar á staðnum hafa umsvif sveitarfélagsins aukist og því eðlilegt að það vilji tryggja sér nokkurn rétt til þess lands sem þéttbýlið stendur á. Með tilliti til þessa varð landbn. sammála um að mæla með því að frv. yrði samþ.