18.05.1976
Efri deild: 124. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4531 í B-deild Alþingistíðinda. (4125)

64. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh.— og viðskn. hefur fjallað um frv. um verðtryggingu fjárskuldbindinga, en frv. þetta fjallar um það að þrátt fyrir ákvæði samnefndra laga sé heimilt að kveða svo á í kaup- og verksamningum um hús og önnur mannvirki að söluverð megi breytast í samræmi við breytingar á verðlagsvísitölu.

Á nefndarfund vantaði þrjá nm., Albert Guðmundsson, Jón Árm. Héðinsson og Axel Jónsson, en aðrir nm. sameinuðust um þá afstöðu að leggja til að vísa þessu máli til ríkisstj. í trausti þess að hún hefji þegar undirbúning að samningu frv. sem kveði nánar á um reglur, sem varða verðtryggingu fjárskuldbindinga, og leggi það fram í upphafi næsta þings.

Þessi afgreiðsla n. er athyglisverð fyrir þær sakir að engum vafa er undirorpið að hér er um aðkallandi vandamál að ræða og nm. allir voru sammála um að á því þyrfti að finna lausn. Nd. hafði komist að ákveðinni niðurstöðu og samþ. hana og sent málið þannig frá sér, en við í Ed.- nefndinni töldum að við hefðum alls ekki nægilegan tíma til þess að kanna málið og gætum ekki staðið að þessari lausn eins og Nd. gekk frá henni. Það er því niðurstaðan hjá okkur að vísa málinu til ríkisstj., þó með mjög jákvæðri umsögn.

Mál þetta á sér þann uppruna að í lögum um verðtryggingu fjárskuldbindinga er skýrt tekið fram í 1. gr. að eigi sé heimilt, frekar en leyft sé í lögum þessum, að stofna til fjárskuldbindinga í ísl. kr. eða öðru verðmæti með ákvæðum þess efnis að greiðslur, þar með taldir vextir, skuli breytast í hlutfalli við breyt. á vísitölum, vöruverði, gengi erlends gjaldeyris o.s.frv. Þetta ákvæði hefur verið túlkað þannig að það væri óheimilt í verksamningum að setja vísitöluákvæði enda þótt það hafi verið gert í stórum stíl. Niðurstaðan hefur því orðið sú, að samningar af því tagi hafa verið dæmdir ógildir, og af þessu hefur hlotist mikill fjöldi deilumála milli byggingaraðila annars vegar og kaupenda húseigna hins vegar.

Hér var sem sagt flutt upphaflega frv. af hv. þm. Ellert B. Schram þess efnis að það væri einfaldlega heimilt að binda söluverð við vísitölu, nánar tiltekið verðlagsvísitölu, þannig að sá hluti byggingarinnar, sem ófullgerður væri, mætti breytast hvað söluverð snertir í samræmi við breyt. á verðlagsvísitölu. En það er skoðun nm. að þetta þurfi nánari athugunar við. Menn eru sammála um að þetta komi sterklega til greina, en vilja fá að sjá með hvaða hætti þetta gerist. Vonandi gera flestir sér grein fyrir því að það er stór munur á því hvort í samningi er fyrirvari um það að sölufjárhæð hækki í hlutfalli við almennar verðbreytingar, þannig að söluverðið sé tekið til endurskoðunar við afhendingu og hækkað í hlutfalli við hækkanir á einstökum liðum byggingarkostnaðar, eða þá hitt, að söluverðið hækki sjálfkrafa í hlutfalli við hækkun byggingarvísitölu. Á þessu tvennu er að sjálfsögðu reginmunur. Og í umsögnum, sem bárust um þetta frv., kemur m.a. fram hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins að þeir hafa farið inn á verðtryggingarkerfi sem er einmitt fólgið í því að byggingarkostnaðurinn er hlutaður niður í marga verkþætti, miðaður við ákveðnar grunntölur og síðan verður þá við afhendingu að taka hvern einasta lið fyrir síg og átta sig á því hvort um hefur verið að ræða sannanlega verðhækkun eða ekki. Þannig getur að sjálfsögðu orðið um að ræða mjög misjafnlega mikla hækkun á söluverði á sama tíma, allt eftir því á hvaða byggingarstigi íbúðin var og hvað hefur raunverulega hækkað af því sem keypt hefur verið til hennar. Húsnæðismálastjórn og fyrir hönd hennar Sigurður E. Guðmundsson bendir á það, að eðlilegast sé að hafa þetta með þessum hætti. Og í umsögn Seðlabankans er á það bent að húsnæðismálastjórn hafi fundið upp prívat byggingarvísitölu fyrir hvert hús, eins og það er orðað í bréfi Seðlabankans, og í bréfi Seðlabankans er mælt með því að húsnæðismálastjórn eigi hugsanlega aðild að eftirliti með vísitöluákvæðum af þessu tagi.

Til þess að gera svolítið skýrari grein fyrir því hvaða vankantar eru á að tengja söluverð við byggingarvísitölu, þá vil ég nefna hér bara eitt einfalt dæmi. Við skulum hugsa okkur, að hús sé selt fokhelt og frá því að húsið er selt og fram að afhendingardegi á sér stað hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar sem nemur 50%. Þá er hugsanlegt að vísitöluákvæðið, ef farið er að orðanna hljóðan eftir gr. eins og hún kemur frá Nd., að það leiði til þess að verð hússins í heild hækki um 50%, ef enginn fyrirvari hefur verið gerður, sem er að sjálfsögðu mjög ósanngjarnt vegna þess að það er aðeins sá hluti hússins, sem eftir var að byggja, sem ætti að hækka um 50%, en ekki það sem búíð var að byggja áður en samningurinn var gerður. En samkv. orðanna hljóðan er vel hugsanlegt að slyngur og slunginn byggingarmeistari kæmi orðalagi fyrirvarans fyrir í samningnum með þeim hætti að það leiddi til þess að söluverð í heild hækkaði. Það verður sem sagt að tryggja það að slíkt geti ekki átt sér stað.

Í öðru lagi er rétt á það að benda, að hugsanlegt er að eftir að sala á sér stað, þá sé meginvinnan unnin, síðan liði kannske 10 mánuðir vegna þess að það standi á einhverjum ákveðnum verkþætti, það sé búið að vinna mestallt sem vinna á við húsið, og skömmu áður en afhending á sér stað hækki byggingarvísitala mjög snögglega og valdi stórhækkun á söluverði. Ef slíkt gerðist mundi byggingarmeistarinn fá stórhækkun á söluverði hússins í sinn hlut þó að ekki sé hægt að benda á það að kostnaður hans við byggingu hússins hafi orðið að sama skapi mikill vegna þess að hann lauk kannske að mestu leyti við húsið strax á fyrstu tveimur mánuðunum eftir að samningurinn var gerður, en hækkunin af völdum vísitölunnar kemur kannske löngu seinna.

Þriðja atriðið, sem vert er að hafa í huga í þessu sambandi, er að það þarf alls ekki að vera að hækkunin á byggingarvísitölu sé í neinu samræmi við þá hækkun á byggingarkostnaði viðkomandi húss sem um er að ræða. Það er t.d. hugsanlegt að gífurleg hækkun verði á verði timburs og valdi mjög mikilli hækkun byggingarvísitölu en notkun timburs er kannske fyrir löngu hætt í sambandi við viðkomandi hús, innréttingar hafa verið keyptar og þar af leiðandi engin rök fyrir því að húsið eigi að hækka í verði af þessum sökum. En sé tengt beint við byggingarvísitölu, þá er sem sagt hættan sú að söluverð fasteignar, sem verið er að byggja, hækki stórlega af orsökum sem eru ekki í nánum tengslum við byggingarkostnað viðkomandi húss.

Annað, sem rétt er að benda hér á, er að í umsögn Seðlabanka Íslands var skýrt tekið fram að rétt væri að miða við eitt ár sem lágmark þegar vísitölusamningar af þessu tagi væru gerðir. Og staðreyndin er sú, að þegar upphaflega frv. var flutt af hv. þm. Ellert B. Schram, þá var það gert að skilyrði að liðið hefðu minnst 12 mánuðir frá samningsdegi og þar til afhending færi fram. Þetta var hins vegar afnumið við breyt. á frv. í Nd., og verður nú að skoða miklu betur en gert hefur verið hvort eðlilegt sé að vísitölusamning af þessu tagi megi gera til hvað stutts tíma sem vera vill, því að þeim mun styttri sem tíminn er, þeim mun meiri hætta er á því að ekkert samræmi sé á milli hækkunar byggingarvísitölunnar annars vegar og svo hins vegar raunverulegs kostnaðarauka við viðkomandi íbúð.

Í þessu sambandi er rétt að benda á það, að það er ekki aðeins sjónarmið Seðlabankans að hér eigi að vera lágmark eitt ár, heldur er á það að benda einnig að í frv., sem hér er verið að gera breyt. á, er yfirleitt lágmark miðað við 3 ár.

Það er skemmst frá að segja að húsnæðismálastjórn varar við því að þessi breyt. sé lögtekin eins og hér hefur verið gerð till. um. Þeir, sem bréfið rita fyrir hönd húsnæðismálastjórnar, vilja að verðhækkanir séu reiknaðar miðað við byggingarkostnað hvers húss fyrir sig, en ekki sé miðað við almennan vísitölumælikvarða. Og Seðlabankinn skilur bersýnilega þetta sjónarmið og vill að húsnæðismálastjórn taki að sér að hafa eftirlit með samningum af þessu tagi og fái jafnvel það hlutverk að löggilda sérhvern verðtryggingarsamning.

Þetta eru sem sagt atriði sem þarf að athuga nánar af þeirri ástæðu hafa nm. talið eðlilegt að þetta mál fengi frekari skoðun í félmrn.

Þess skal getið að Meistarasamband byggingarmanna hefur sent umsögn sína um þetta frv. og mælir eindregið með samþykkt þess.

Ég vil láta þess hér getið að ég geri hér fyrst og fremst grein fyrir þessu máli eins og það birtist frá mínu sjónarmiði séð. Einn nm., Jón G. Sólnes, sem ritar undir nál. með fyrirvara, mun væntanlega gera grein fyrir sínum sjónarmiðum. Hann var einnig þeirrar skoðunar að eðlilegt væri að vísa þessu máli til ríkisstj. og vafalaust að einhverju leyti með svipuðum rökum og ég hef hér gert grein fyrir. En auk þess taldi hann að þessi vísitölumál almennt hvað lánamál og fjárskuldbindingar snertir væru það slitið fat að til lítils væri að gera þar á eina litla bót og væri það krafa hans, að þessi mál í heild væru tekin til endurskoðunar. Það var því kannske ekki hvað síst af þeim ástæðum sem hann var þeirrar skoðunar að eðlilegast væri að vísa þessu máli til ríkisstj.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta mál. Vissulega má draga í efa réttmæti þess að vera nú á síðasta stigi að koma í veg fyrir að frv. þetta hljóti lagagildi, þar sem bersýnilegt er að hér er um mikið vandamál að ræða sem þarf að leysa til þess að eyða þeirri réttaróvissu sem er ríkjandi á þessu sviði. En það verður hins vegar að undirbúa þetta mál betur, og vegna þess hversu gífurlega viðkvæmt þetta mál er gagnvart húsbyggjendum og gagnvart hinum almenna manni og nauðsynlegt að ekki séu samþ. ákvæði sem séu þess eðlis að hætta sé á því að hundruð manna verði hlunnfarin í samningum, þá er óhjákvæmilegt að Alþ. viti hvað á að felast í þeim nýju ákvæðum sem sett verða um þetta efni, þannig að félmrn. fái ekki bara auðan víxil til að útfylla í þessu efni.

Því teljum við rétt að málið verði undirbúið vandlega og vei í sumar og lagt síðan að nýju fyrir þingið þegar þeirri athugun og þeim undirbúningi er lokið.