18.05.1976
Neðri deild: 117. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4537 í B-deild Alþingistíðinda. (4135)

257. mál, jarðalög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Við fjöllum hér um frv. sem í þrjú ár hefur verið til meðferðar í landbrn. Það var lagt fyrir hv. Alþ. í því formi að í því voru ekki færri en ferns konar atriði sem stríddu ýmist ótvírætt gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar eða gegn anda stjórnarskrárinnar. Þetta segir sína sögu um það, að það kann að vera tilefni til að endurskoða starfsaðferðir embættismannakerfisins, Starfsaðferðir Alþ. eru oft gagnrýndar, en mér sýnist á þessu frv. að það sé ekki minna tilefni til að athuga vel starfsaðferðir stjórnarráðsins. Ég veit að stjórnarráðið hefur fjölmörgum mjög vel hæfum embættismönnum á að skipa. Ég veit líka að þetta frv. hefur verið athugað af fjöldamörgum mönnum. Það hefur verið rætt á mjög mörgum fundum, að því er mér er tjáð. Það er alveg ljóst að í frv. er fjallað nm atriði þar sem menn hafa óhjákvæmilega mjög skiptar skoðanir. Engu síður ættu eftir allan þennan tíma að hafa fundist viðunanleg úrlausn þannig að unnt væri að leggja slík mál fram sem sæmilegt frv. ríkisstj. sem í eru Sjálfstfl. og Framsfl. Ég hef velt þessu mikið fyrir mér, hvernig því getur víkið við að svo stórgallað frv. getur komið úr höndum svo margra færra manna. Ég held að það, sem gerst hefur, sé að einmitt vegna þess hve margir hafa um það fjallað, þá hafi menn hneigst til þess að ætla hver öðrum að hafa athugað frv. nægilega vel. M.ö.o.: það hefur verið Þríbjörn í Tvíbjörn-reglan sem hefur gilt við samningu þessa frv. Þeir, sem hafa setið á einum fundi og lítið á frv., hafa sennilega verið að flýta sér við athugun einhverra annarra mála og hafa treyst því að þeir, sem áður höfðu athugað málið, hlytu að hafa gengið frá ýmsum bæði formsatriðum og efnis, þannig að óhætt væri að leggja blessun sína yfir það. En árangurinn varð, eins og oft er um störf þar sem hver ætlar öðrum að vinna verkin, að verkið varð ekki unnið, þ.e.a.s. það verk að búa til frambærilegt frv.

Ég veit að það er nokkuð mikið upp í sig tekið að segja þetta, en því miður er þetta staðreynd.

Það kann að vera að önnur ástæða liggi til þess, að frv. þetta varð svo úr garði gert sem raun ber vitni, heldur en sú hve margir fjölluðu um það. E.t.v. er höfuðástæðunnar að leita í öðru, sem sé í því, að um þetta frv. hafa einungis fjallað aðilar sem allir hafa sömu hagsmunina að leiðarljósi. Það eru einungis hagsmunaaðilar landbúnaðarins sem hafa fjallað um þetta frv. Árangurinn er sá að ákvarðanir samkv. þessu frv., ef svo illa færi að það yrði samþ. á Alþ., ákvarðanir samkv. því væru einnig allar í höndum hagsmunaaðila landbúnaðarins, — þótt svo þær snerti og bitni á hagsmunum annars fólks, þá eiga allar ákvarðanir annað hvort að vera teknar af landbrh., jarðanefnd, I.andnámi ríkisins eða þá sveitarstjórnum með hagsmuni þessara aðila fyrir augum. Ef ágreiningur verður milli sveitarstjórna og jarðanefnda, þá á landbrh. að skera úr.

Það er sem sagt ekki hægt að finna annars stað í þessu frv. en að allar ákvarðanir eigi að vera í höndum aðila sem hafa sömu hagsmunina að leiðarljósi. Og það er ekki einungís að allar ákvarðanir eigi að vera í höndum þessara hagsmunaaðila, heldur er gildissvið frv. svo stórt að það er í raun og veru verið að leggja allt landið undir stjórn þessara aðila eða a.m.k. fasteignir á öllu landinu nema í kaupstöðum og skipulögðum kauptúnum. Ég veit ekki hvort hv. þdm. hafa gert sér grein fyrir þessu, en hér er um hlut að ræða sem grípur svo alvarlega inn í mörg stór atriði í verkefnum ríkisstj, og í verkefnum annarra ráðh. að það er alveg ótrúlegt að þetta skuli hafa komist í þessu formi inn í sali Alþingis.

Þegar ég ræði um gildissvið frv., þá vil ég lesa 3. gr. frv. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lög þessi taka til jarða, jarðarhluta, afréttarlanda, öræfa, lóða og landspildna“ — það er að vísu till. um að orðið ,,lóða“ falli burt, ef ég man rétt. Já, það er hér í brtt, frá n., en það skiptir engu, ég held lestrinum áfram, með leyfi hæstv. forseta. Ég hafði lesið að lögin tækju til jarða, jarðarhluta, afréttarlanda, öræfa, lóða og landspildna. Enn segir: „svo og til ítaka, skóga, vatnsréttinda, veiðiréttinda og hvers konar annarra hlunninda, hvort sem þau eru skilin frá jörð eða ekki. Þéttbýlissvæði, sem skipulögð eru fyrir fasta búsetu manna sem ekki stunda landbúnað, eru undanskilin ákvæðum laga þessara.“

Þá þarf að átta sig á, hvað er landbúnaður. Svar við því er í þessari sömu gr., og enn segir, með leyfi hæstv, forseta:

„Rísi ágreiningur um það, hvað teljast skuli landbúnaður samkv. lögum þessum, eða um starfssvið jarðanefnda að öðru leyti, sker landbrh. úr þeim ágreiningi.“

Sem sagt, landbrh. sker nánast úr um það, hvar þessi lög skuli gilda, Veiðiréttindi, vatnsréttindi, hvers konar önnur hlunnindi, hvort sem þau eru skilin frá jörðu eða ekki, — menn muna kannske eftir biturri reynslu í sambandi við land sem hefur átt að taka til mikilvægra orkuframkvæmda ríkisins, — hvernig halda menn að slíkt gæti farið eftir gildistöku þessara laga? Svo er að sjá sem hæstv. iðnrh. hafi ekki af þessu atriði minnstu áhyggjur.

Í II. kafla frv. segir í 4, gr. að í hverri sýslu skuli starfa jarðanefnd. Í þessari jarðanefnd eiga að vera 3 menn, búnaðarsambandið í sýslunni nefnir tvo, sýslunefnd einn, svo að það er alveg öruggt að hagsmunir þessara sömu stétta ráða jarðanefndinni. Síðar í frv. segir að þóknun jarðanefnda skuli ákveðin af landbrh., það er í 20. gr., og í þeirri sömu gr. segir að kostnaður — ekki aðeins laun jarðanefndarinnar, heldur kostnaður við störf jarðanefndar greiðist að hálfu af viðkomandi sýslu og búnaðarsambandi og að hálfu úrríkissjóði. Það er oft gerð um það krafa, a.m.k. þegar þm. flytja mál sem hafa í för með sér kostnað, að slíkum frv. fylgi einhver kostnaðaráætlun. Ég hélt kannske sem þm. að það skipti einhverju máli að það lægi fyrir einhver kostnaðaráætlun. Ég hélt kannske að hæstv. fjmrh. teldi það einhverju skipta. Í þessu frv. eða grg. þess er ekkert sem segir til um það hvað þetta á að kosta. Ákvörðun um það er einfaldlega lögð í hendur hæstv. landbrh.

Það er ekki eitt, heldur næstum því allt, sem er að þessu frv. Þetta hvort tveggja var um viss atriði sem varða þetta frv. nokkuð almennt, vítt og breitt. Ég vil víkja að öðru sem líka varðar þetta frv. vítt og breitt, en felst þó fyrst og fremst í vissum ákvæðum þess. Það er pólitísks eðlis. Það er þess eðlis að ég tel að þeir stjórnmálaflokkar, sem fylgja jafnrétti þegnanna, og þeir stjórnmálaflokkar, sem fylgja réttindum einstaklinga, geti ekki stutt þetta frv. Þetta er frv. um misrétti þegnanna, þetta er löghelguð mismunun eftir stéttum, og þetta gengur í berhögg við andann í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég mun ekki sem sjálfstæðismaður geta stutt þetta frv. og ítreka það sem ég sagði við 1. umr., að ég mun greiða atkv. gegn því.

Áður en þetta frv. kom til umr. í þessari hv. d., en þó eftir að eitt ákvæði þess, sem gekk í berhögg við stjórnarskrána, hafði verið lagfært í Ed., þá sá ég að eitt ákvæði annað gekk tvímælalaust í berhögg við stjórnarskrá. Það ákvæði gerði ráð fyrir heimild til eignarnáms án þess að fullt verð kæmi fyrir. En eins og allir hv. þdm. muna, þá er í 47, gr. stjórnarskrárinnar skýrt kveðið á um það að engan mann megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, enda skuli það gert með lögum og fullt verð komi fyrir. Þetta er beinlínis verndað af stjórnarskránni, og stjórnarskráin er þau lög sem þm. ber að hafa að leiðarljósi og þeir vinna eið að þegar þeir taka við störfum sínum. Mér bar að mínu mati sem forseta að taka þetta mál ekki á dagskrá með því ákvæði eins og það var. Hv. Ed. hafði þó hleypt frv. í gegn, og mér er það alveg ljóst að málið er svo stórt og margslungið að það gat eins komið fyrir hv. þdm. þar, eins og þá fimm lögfræðinga og þar af tvo fyrrum prófessora í stjórnlagafræðum í hæstv. ríkisstj., að láta sér sjást yfir þetta, svo að mér fannst úr því sem komið var að ég yrði að benda hæstv. landbrh. á þetta ákvæði áður en málið væri rætt í d. Hann brá við skjótt og lagði fram brtt. um þetta atriði strax við 1. umr., þannig að svo mátti líta á að ekki væri lengur um frv. til stjórnskipunarlaga að ræða. Þess vegna taldi ég rétt að leyfa málinu að koma á dagskrá. Hitt er annað mál, að eftir standa í frv. ákvæði sem að mínu mati stríða gegn anda stjórnarskrárinnar. Það er að vísu dálítið annað en skýlaust bókstaflegt brot, en það er nægilegt til þess að Alþ. á ekki að afgreiða slík lög, því síður að samþykkja þau.

Menn spyrja kannske: Af hverju stendur hér hv. 5. þm. Reykv., sem er forseti Nd., og færir fram slík rök í stað þess að fara í forsetastól og vísa málinu frá sem óþinglegu af þessum sökum sem máli sem ekki stenst gagnvart stjórnarskránni? Ég mun leitast við að svara því. Ég hef um helgína og í þeim fáu frístundum, sem gefist hafa í seinni tíð, setið yfir þeim lagabókum sem mér hafa verið handbærar um þetta efni, og ég hef fundið þar álit margra fræðimanna þess efnis að þegar um er að ræða það skilyrði stjórnarskrár að almenningsþörf sé fyrir hendi til þess að eignarnám megi fara fram, þá sé það efni sem löggjafinn á að ákveða. Það er löggjafans að ákveða hvort almannaþörf sé fyrir hendi, segja margir fræðimenn, en þó ekki allir. Mér verður litið til míns gamla læriföður, hæstv. dómsmrh. sem hér situr, því að þannig er að hann er ekki sammála í riti sínu, Stjórnskipunarrétti, vissum öðrum fræðimönnum um þetta atriði. Ég veit að hér í salnum eru menn mér færari til að vitna í ýmis rit eða þá höfunda sem ég var að fletta upp í, en engu að síður er það nú svo, ef mér leyfist að vitna í þann danska lögspeking, Alf Ross, þá heldur hann því fram að löggjafinn eigi að ákveða hvað sé almenningsþörf. Dómstólar munu ekki telja sig bæra til að ákveða hvað sé almenningsþörf. Þess vegna munu vafaatriði um það ekki valda því að dómstóll skeri úr um þetta atriði. Það, sem ég á við með þessu, er að einstaklingur telur að eign, sem hann á, hafi veríð tekin eignarnámi og ekki hafi verið til þess almenningsþörf, hins vegar eru um það atriði skýr ákvæði í lögum. Einstaklingurinn telur að þessi lög gangi gegn stjórnarskránni vegna þess að það sé ekki rétt mat að þarna sé um almenningsþörf að ræða og þess vegna sé eignarnámi hnekkt. Þetta telur Alf Ross og fleiri, prófessor Gaukur Jörundsson, ef ég man rétt, í sinni doktorsritgerð, að sé ekki verkefni dómstóla að skera úr um, ef löggjafinn hafi ákveðið að þetta atriði eða hitt sé almenningsþörf, þá verði dómurinn að byggja sina niðurstöðu á því. Hins vegar segir prófessor Ólafur Jóhannesson sem þá var, núv. hæstv. dómsmrh., að yngri fræðimenn margir haldi fram að þessi kenning sé ekki rétt, dómstólar eigi einmitt úrskurðarvald um það — eða geti átt — hvað sé almenningsþörf. Þetta segi ég aðeins mönnum til athugunar, ekki af því að ég telji mig færa um að segja til um það hvor kenningin sé réttari. Þetta segi ég aðeins til að undirstrika hve geysiviðkvæmt atriði við erum hér að fjalla um, og þegar löggjafinn tekur ákvörðun um það í lögum hvað sé almenningsþörf, þá er það tvímælalaust skylda, stjórnskipuleg og siðferðileg, að hafa það álit rökstutt, skýrt og vandað.

Í lögum um — nú man ég því miður ekki nákvæmlega nafn laganna, annaðhvort heita þau byggingarlög Kaupmannahafnarborgar eða lög um byggingarsamþykktir Kaupmannahafnarborgar — er heimild til eignarnáms fyrir Kaupmannahafnarborg á lóðum í nágrenni mannvirkja borgarinnar sem gætu talist nauðsynlegar almannavaldinu frá sjónarmiði Kaupmannahafnarborgar. Það er sem sagt í lögum þessum heimild til að taka eignarnámi vissar lóðir og lendur — ja, við skulum segja í dag eða mjög fljótlega, ef Kaupmannahafnarborg eða yfirvöldum hennar sýnist að þessar lóðir eða lendur muni geta orðið nauðsynlegar því borgarfélagi síðar. Ástæðan gæti verið sú að viðkomandi borgaryfirvöldum þætti líklegt að vegna framkvæmda borgarinnar hækkuðu þessar lóðir eða lendur í verði og þætti sér þess vegna hentara að taka þær eignarnámi fyrr en síðar. Þessi lög fjalla að vísu um réttindi Kaupmannahafnarborgar einnar, en þau hafa verið látin gilda eða yfirfærð á önnur sveitarfélög í Danmörku. Af þessu hafa risið alvarleg dómsmál, og svo að ég vitni enn til Alfs Ross, þá rekur hann það að undirréttardómur hafi komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði sem þetta stríddi ekki gegn stjórnarskránni. En aðrir hafa hnekkt þessu áliti undirréttarins og halda því fram að löggjafinn geti ekki falið sveitarfélögunum að ákveða hvað sé almannaþörf, það sé löggjafans að ákveða hvað er almannaþörf. Það skal tekið fram að þessu máli hafði a.m.k. ekki þegar sú bók var rituð, sem ég tala hér um, verið vísað til hæstaréttar Danmerkur, en miklir sérfræðingar nágrannaþjóða okkar um þessi efni eru ósammála niðurstöðu þessa undirréttardóms.

Þetta rek ég hér vegna þess að hv. landbn. telur sig hafa gert bragarbót á 13. og 14. gr. frv. þar sem einmitt er fjallað um eignarnámsheimildir sem eru vafasamar í meira lagi. Hv. landbn. hefur lagt til að inn í þessar greinar verði skeytt setningunni: „ef hagsmunir sveitarfélags krefjast“ og telur sig þar með hafa gegnt skyldu sinni að því er þetta varðar. Ef niðurstaða þeirra fræðimanna, sem ég gat hér um áðan, er rétt, þá getur þetta ekki staðist. Með þessu er löggjafinn að veita sveitarfélögum almennt úrskurðarvald um það hvað séu almannahagsmunir. Það er ekkert tekið fram um það hvers konar hagsmunir sveitarfélags það séu, heldur almennt hagsmunir sveitarfélags. Þetta er svo teygjanlegt og óljóst að Alþ. getur ekki látið slíkt frá sér fara. Við það bætist að ef þetta ætti að standa, þá sýnist mér að það hefði þurft að breyta ýmsum öðrum gr. frv. í samræmi við þetta. En látum það nú vera, við skulum vona að þetta verði allt saman fellt hvort sem er svo að til þess komi ekki að þess þurfi. En ég veit ekki hvað hv. landbn. hefur hugsað þegar hún skeytti inn þessum orðum: „ef hagsmunir sveitarfélags krefjast.“ Hver á að meta þá hagsmuni? Er það ekki sveitarfélagið sjálft? Þar með erum við búnir að fela sveitarfélaginu þetta úrskurðarvald, öllum sveitarfélögum í landinu, að ákveða sem sagt að ábúandi eða eigandi jarðar geti leyst til sín úrskiptan jarðarpart, hvað sem eigandi þess úrskipta jarðarparts segir, einungis ef þessi tiltekna hreppsnefnd og hinir hagsmunaaðilarnir, sem hafa sömu hagsmunina að leiðarljósi allir saman, ákveða. Og þessir jarðarpartar geta verið hvort heldur er það sem hv. landbn. mundi kannske telja — ja, ég veit reyndar ekki hvað hv. landbn. telur landbúnaðarjarðir, það er hvergi skilgreint í þessum lögum hvað landbúnaður er. Ég spurði um það við 1. umr, og fékk engin svör hjá hæstv, ráðh. En þá er að fletta upp til hvers taka þessi lög. Hvers konar land er það sem sveitarstjórn getur ákveðið að tekið verði eignarnámi ef henni sýnist svo? Ekki er svo að sveitarstjórnin sjálf taki þau eignarnámi, hvers konar land er það sem sveitarstjórn getur rétt einstökum bónda í sveit sinni, ef henni sýnist svo, til kaups? Það voru jarðir, jarðarhlutar, afréttarlönd, öræfi, — ekki lóðir, ef brtt. verður samþ., — landspildur, ítök, skógar, vatnsréttindi, veiðiréttindi og hvers konar önnur hlunnindi, hvort sem þau eru skilin frá jörð eða ekki. Ég spyr aftur hæstv. iðnrh. — Nei, hann gekk nú út úr salnum. Ég skil ekki hvernig stendur á því að menn hafa ekki áhyggjur af slíku ákvæði í sambandi við orkuréttindi? Ég veit að hæstv, ríkisstj. telur sig ekkert upp á það komna að hlusta á röksemdir alþm. þessa seinustu daga, en það verður þá a.m.k. ekki hægt að segja að það hafi ekki verið reynt að benda á þessa hluti. Þetta er kannske nokkuð mikið sagt, heyrist mér hæstv. dómsmrh. segja hér í sæti sínu, en hvað á maður að halda þegar frv. eins og þetta liggur fyrir í alvöru til umr?

Ég beindi því til hæstv, ríkisstj. af fyllstu einlægni og frá mínu sjónarmiði af ráðhollustu hvort hún vildi ekki draga þetta frv. tilbaka,taka það til nýrrar athugunar og ef endilega þarf að bera fram nýtt frv. til jarðalaga, bera þá fram nýtt frv. og miklu betra í haust. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. ekki talið ástæðu til að gera, en telur hins vegar, að því er virðist, sóma sinn meiri fyrir það að standa á bak við mál eins og þetta, Ég verð að segja að þetta þykir mér dapurleg niðurstaða. Ég vona þó að það sé of snemmt fyrir mig að segja að þetta sé niðurstaða. Það er enn tími til að bjarga þessu máli. Svona frv. til jarðalaga er ekkert hægt að gera við — ja, nema að jarða það. Það er bókstaflega að mínu viti ekki frambærilegt af Alþingi íslendinga, sem hefur stjórnarskrá Íslands að leiðarljósi, sem hefur í huga mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, að samþykkja svona frv.

Svo að ég víki aftur nánar að 13. og 14, gr. þessa frv., þá var aðalatriðið að þar er einstaklingum gefin eignarnámsheimild. Ég vitnaði til þess við 1. umr. málsins, og ég ætla að gera það aftur, að í stjórnskipunarrétti sínum segir fyrrum prófessor Ólafur Jóhannesson, núv. hæstv. dómsmrh., að hagsmunir einstaklings mundu ekki vera taldir nægilegur grundvöllur eignarnáms. Skilyrði stjórnarskrárinnar er almenningsþörf. Hitt er svo annað mál, að löggjafinn getur leiðst út á þá glapstigu að telja að ein stétt í þjóðfélaginu sé svo miklum mun rétthærri en aðrar stéttir að henni beri heimild til þess að taka eignarnámi eigur annars fólks í þjóðfélaginu. Það er stefnan í þessu frv. Landbúnaður er merkileg atvinnugrein. Það er sjávarútvegur ekki síður, það er iðnaður, það er verslun. Ég skil ekki að menn sjái ekki út á hvaða braut Alþ. fer með því að samþykkja slíkar heimildir. Er það raunverulega svo að hv. þm, komi ekki auga á það fordæmi sem gefið er með þessu?

Í áhuga sínum fyrir eflingu landbúnaðarins og yfirgengilegri umönnun, liggur mér við að segja, hafa höfundar þessa frv. látið sér detta í hug að semja slík ákvæði eins og þetta. En einungis þetta, að einn maður fái í atvinnuhagsmunaskyni að leysa til sín eign nágranna síns þótt svo að hann kaupi hana fullu verði, það er ekki alltaf sem menn vilja selja eigur sínar. Ef einn maður færi í atvinnuhagsmunaskyni að leysa til sín og kaupa eign nágranna síns til þess sjálfur að geta ráðstafað þeirri eign, þá erum við að lögleiða þvílíkt misrétti í þjóðfélaginu að ég sé ekki hvernig hv. þdm. ætla að horfa uppréttir framan í sína kjósendur þegar þessu þingi okkar verður nú lokið, hvenær sem það verður, nema þá það komi í ljós að hv. þdm. þyki alveg rétt að leggja slík réttindi með lögum upp í hendurnar á — ekki einstökum heilum stéttum, heldur einstaklingum, vegna þess að þeir tilheyra einhverri ákveðinni stétt. Mín niðurstaða, hvernig sem ég velti þessu fyrir mér, er ekki önnur en sú að þetta sé hreint og beint ósiðlegt. Það er sterkt til orða tekið, en ég segi, hv. þdm., þetta getum við ekki gert.

Ég reyndi að bera þetta saman við aðrar atvinnugreinar við 1. umr, þessa máls. Ég hitti hv. þm., ég man nú ekki lengur hver það var, hér frammi á göngum sem sagði við mig: Þessi dæmi eru ekki sambærileg. — Og ég spyr: Af hverju eru þau ekki sambærileg? Eru menn virkilega svo blindaðir að þeir sjái ekki hvað er við það að athuga að stjórnarskrárákvæði um friðhelgi eignarréttarins, að stjórnarskrárákvæði um skilyrði eignarnáms, þar sem krafist er þess að almenningsþörf liggi fyrir, — þessu ákvæði sé beitt þannig að það sé lagt upp í hendurnar á einstökum manni í atvinnuhagsmunaskyni af þeirri ástæðu? Það eitt er fráleitt. Ástæðan er í frv. að maðurinn stundar landbúnað. Ef nú allir þeir, sem landbúnað stunda á Íslandi, væru þvílíkir snillingar að landið okkar þyrfti aldrei að hafa efnahagsáhyggjur framar ef þeir fengju allt sem þeir vildu, þá gæti verið að það rynnu tvær grímur á ýmsa hv. alþm., ef þeir skoðuðu nú reglulega vel samvisku sína. En það er bara svo með landbúnað eins og svo margar aðrar atvinnugreinar að þar eru því miður vafalaust margir búskussar innan um. Menn verða ekki snillingar af því einu að stunda landbúnað. Og ég get ekki séð að almenningsþörf krefji að maður, sem er búskussi, fái að leysa til sín eignir annarra manna til þess að nýta þær sjálfur. Til hvers? Menn geta verið góðir þm. sinna kjördæma og gætt hagsmuna bændanna í sínu kjördæmi án þess að rétta þeim verðmæti landsins með þessum hætti. Hver tryggir það að þeir bændur, sem leysa til sin jarðir eftir þessu ákvæði, veiti þeim jörðum þá meðferð sem landið okkar á skilið? Hvar koma þau sjónarmið inn í þessu frv.? Ég er ósköp hrædd um það að þau sjónarmið, sem liggja að baki þessu frv., séu að veita þeim mönnum sem mest réttindi sem reka starfsemi sem hefur í för með sér landeyðingu. Nú á ég við þá starfsemi sem — (Gripið fram í: Eru þetta nú ekki öfugmæli?) Það eru ekki aldeilis öfugmæli. Ég veit ekki betur en bæði meðlimir hv. landbn, og aðrir þm. hafi fengið í hendur margar skýrslur um beitarþol landsins. Ég veit ekki betur en í sögum okkar fornum sé skrifað um land sem var skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Ég veit ekki betur en hér séu í jörðu steingervingar sem sýna fram á það að fyrir að vísu löngu og áður en Stéttarsamband bænda kom til sögunnar hafi verið hér miklir og merkir skógar. Ég veit ekki betur en það hafi margsinnis verið sýnt fram á það að þetta land er miklu betra en það litur út fyrir að vera. Það er nýfarinn af þinginu einn hv. varaþm., andstæðingur minn í stjórnmálum, en sá hv. varaþm. vinnur með starfi sínu merkilegt verk á því sviði að sýna fram á það hvað þetta land er gott, að það er hægt að rækta það og bæta miklu meira heldur en margir þeir, sem landbúnað svonefndan stunda, vilja nokkurn tíma viðurkenna. En þetta er að vísu önnur saga. Hins vegar minnir hún okkur á það einu sinni enn, að það er ekki sama hvort að svona máli, sem í felast jafnvíðtæk réttindi örfáum manneskjum til handa, er staðið aðeins með hagsmuni örfárra fyrir augum og með viss, e.t.v. nokkuð takmörkuð sjónarmið að því er varðar nýtingu landsins. Ef hv. þdm. telja að hér sé um almenningsheill að ræða eða almenningsþörf, eins og segir í ákvæði stjórnarskrárinnar um skilyrði eignarnáms, þá eru þeir þar með að segja að búskussinn þjóni betur almenningsheill heldur en sá sem ræktar landið og bætir það og verndar það, nema þá að skilningur frv. — eða skilningur landbrh., ætti ég að segja — á því hvað sé landbúnaður sé einhver allt annar heldur en 10 kúgilda skilningurinn, sem fram kemur í 1. gr. ábúðarlaganna. Þar er talað um, ef ég man rétt, ég hef þau nú ekki hér hjá mér, en þar er talað um jörð eða bújörð sem ber 10 kúgildi. Það er fjöldamargt annað náttúrlega sem hægt er að nytja landið til og menn eru sem betur fer — nútímamenn a.m.k. — æ betur að opna augun fyrir því.

Ef þetta frv. verður samþ., þá er þar með verið að sporna gegn því að aðrir en þeir, sem landbúnað í skilningi hæstv. landbrh. stunda, geti átt eignir utan kaupstaða og skipulagðra kauptúna. Hvað segðu menn nú ef Alþ. samþykkti lög um það að þeir, sem eiga lögheimili utan kaupstaða og utan skipulagðra kauptúna, mættu alls ekki eiga fasteignir í kaupstöðum eða skipulögðum kauptúnum? Hvað segðu menn ef það væri ákveðið með lögum á Alþ., — við skulum aðeins halda okkur við þann hagsmunahóp sem hér er um rætt í þessu frv., ef ákveðið væri með lögum á Alþ. að þeir, sem landbúnað stunda, mættu ekki eiga fasteignir í Reykjavík? Reykvíkingar hafa nóg við sínar fasteignir að gera. Það skortir oft húsnæði í Reykjavík. Það gæti vel farið svo að mönnum dytti í hug að setja lög um það að þeir, sem eiga heima utan Reykjavíkur, mættu ekki eiga þar íbúðir, a.m.k. að það væri svo að reykvíkingar mættu leysa þær til sín, mættu kaupa þær, hvort sem eigandanum — utanbæjareigandanum — sýndist svo eða ekki. Ég held að ef þetta frv. verður samþykkt, þá reisi það þvílíka öldu af mótmælum, ekki síst í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum, að ríkisstj. eigi eftir að iðrast þessa verks sárlega ef hún þá stenst það.

Þegar ég er að tala um 13. og 14. gr. frv., þá hef ég aðallega rætt um það að eigandi eða ábúandi jarðar leysi til sía úrskiptan jarðarpart. Í raun og veru er þetta ekki alveg nákvæmt að því er 14. gr. varðar því að þar er talað um það tilvik þegar jörð er í sameign, þá má sá sameigandinn sem rekur bú á jörðinni, hvað sem það er nú eftir skilningi hæstv. landbrh., og hefur þar fasta búsetu, þá má hann leysa til sín eignarhluta sameigendanna. Nú veit ég að hv. þm. hafa rætt um það sín á milli hve hörmulega sorglegt það væri að vegna ósamkomulags sameigenda yrði e.t.v. einn sameigendanna að bregða búi eða skipta um atvinnu. Hver veit um það hvaða áhrif það hefur á annaðhvort afkomu eða aðra hagsmuni hinna sameigendanna að þessi eign er af þeim tekin og nýtingarmöguleiki hennar er fenginn öðrum?

Nú segja e.t.v. ýmsir hv. þm.: Af hverju er þessi þm. að tala um þetta sem svona fráleitan hlut þegar fullt verð á að koma fyrir eignina? Ég spyr þá alla í einu: Eru þeir tilbúnir til þess að selja eignir sínar á morgun ef hreppsnefndin ákveður að nágranni þeirra skuli fá eignina? Eða ef einhver er hér inni, við skulum segja í þéttbýli, sem býr á næstu lóð við eitthvert iðnfyrirtæki, er hann tilbúinn til þess að hlíta því að þetta iðnfyrirtæki leysti til sín eignina og nýtti hana til þess sem því sýndist? Ég býst við að fáir mundu taka því með fögnuði. Hvernig ætlast menn þá til þess að þeir, sem eiga eignir utan þéttbýlis, uni því að með þá sé farið eins og þetta frv. gerir ráð fyrir?

Ég vil geta þess að það hafa margir rætt við mig og vafalaust aðra þm. a.m.k. hér á þéttbýlissvæðinu undanfarið og sagt: Það getur ekki verið að Alþ. ætli að afgreiða þetta frv. sem lög. — Það snertir hagsmuni svo margra sem alls ekki hafa fengið tækifæri til að tjá sig um þetta mál, til að ræða það sín á milli, þetta getur haft svo viðtækar afleiðingar úti í þjóðfélaginu að það er mjög óviðeigandi, óheppilegt og það er pólitískt óþolandi að slíku máli sé hespað af á Alþingi. Í gærkvöld kom áskorun til þingflokks sjálfstæðismanna frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna þar sem skorað er á alla þm, flokksins að leggjast gegn þessu frv. Ég þykist þó vita að það séu margir fleiri sem eiga eftir að koma auga á agnúana í þessu máli.

Eins og menn sjá, þá er þetta mál lagt fram seint á þinginu, þetta er 257. mál. Það er mjög flókið, kemur inn á ótrúlega marga viðkvæma hluti að því er varðar einstaklinga og getur einnig mjög skert það svið sem ríkisvaldið þarf að fást við, annað en hv. landbrh. Þess vegna er það einungis að vonum að menn séu nú smátt og smátt að koma auga á agnúana í málinu. Hitt er annað mál, að mönnum finnst það með ólíkindum að slíkt mál skuli geta komið í þessu formi inn í sali Alþ. eftir að hafa verið til meðferðar í höndum allra þeirra aðila sem ég ræddi um áðan.

Niðurstaða mín er þessi: Hér er um mál að ræða sem er undirbúíð af fjöldamörgum aðilum sem hafa allir hagsmuni sama þrönga hópsins fyrir augum. Hér er um frv. að ræða sem gerir ráð fyrir forréttindum handa þröngum hópi í þjóðfélaginu með stéttarhagsmuni hans fyrir augum. Hér er um mál að ræða sem er algerlega nýstárlegt í íslenskum lögum að því leyti til, að það er gert ráð fyrir að eignarnámsheimild samkv. stjórnarskránni sé notuð til handa einstaklingum í atvinnuhagsmunaskyni þeirra. Hér virðist löggjafinn ætla að stefna að því að telja það almenningsþörf að einn maður fái í eiginhagsmunaskyni að leysa til sín eign annars manns og hafa ráðstöfunarrétt þannig á eign annars manns. Og hér er enn um mál að ræða þar sem eru fjöldamörg vafaatriði. Alþ. varpar þeim frá sér með því að fá fyrir fram hæstv. landbrh. úrskurðarvaldið, — enn eitt dæmið um það að því miður hefur Alþ. ekki sinnt skyldum sínum í að lagfæra ágalla sem eru á framkvæmd ýmiss konar atriða er varða réttarágreining, enn eitt dæmið um það að dómsvaldíð í landinu er ekki nægilega eflt, heldur er ráðh. fengið úrskurðarvald um margvíslegustu efni. Og ég verð að segja það með allri virðingu fyrir hæstv. ríkisstj., að heldur vil ég eiga stjórn dómsmálanna undir hæstv. dómsmrh. en hæstv. landbrh. Hér er úrskurðarvald um öll möguleg atriði fengið hæstv. landbrh. Mér finnst talsverðu máli skipta að í slíkum hlutum komi einhvers staðar lagaþekking við sögu og þau fyrirmæli séu virt sem fela óháðum dómendum að fara með dómsvaldið í landinu. En hér er hæstv. landbrh. einfaldlega fengið úrskurðarvald um það hvar lög skuli gilda, um hvað sé landbúnaður, honum er einnig fengið úrskurðarvald ef ágreiningur verður milli þeirra aðila sem eiga að fjalla um margnefnda eignarnámsheimild fyrir einstaklinga, Það er varla hægt að taka þessa seinustu setningu upp í sig, en frv. fjallar nú um þetta, eignarnámsheimild fyrir einstaklinga. Ef úrskurðaraðilarnir eru ekki sammála, þá sker landbrh. úr.

Þetta er atriði sem ég held að hefði verið tiltölulega einfalt fyrir hv. n. að laga, svo að ég held að þetta hljóti að vera vangá eins og raunar margt fleira í þessu frv. sem má segja að sé allt saman vangá. Mér sýnist þetta frv. vera ein allsherjarmistök frá upphafi til enda. Og ég leyfi mér, herra forseti, að ljúka þessu máli mínu á því að segja við hv. þdm.: Við skulum taka þennan kaleik frá hæstv. ríkisstj. sem telur síg bundna við að bera þetta frv. fram. Hún hefur sjálfsagt í önnum sínum ekki haft tíma til að líta almennilega yfir það, Við skulum létta af þeim áhyggjum og því amstri, sem kemur til með að fylgja framkvæmd þessara laga, með því, að fella frv.