18.05.1976
Neðri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4551 í B-deild Alþingistíðinda. (4148)

257. mál, jarðalög

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Hér er mjög veigamikið frv. á ferðinni sem sannarlega hefði þurft að fá nákvæmari og betri skoðun heldur en nú hefur unnist tími til. Í hv. landbn. var ákaflega naumur tími til að skoða þetta mál. Lokafundurinn og kannske mætti segja eini reglulegi fundurinn um málið var boðaður kl. 8.30 í gærmorgun og þá höfðu menn ráðstafað tíma sínum. Ég fékk ekki fundarboð fyrr en á sunnudagskvöld nokkuð seint, og ég tel að það hafi verið engan veginn vel að því staðið eða nægur tími gefinn til þess að skoða jafnveigamikið mál og hér um ræðir.

Hins vegar hefur þetta mál áður verið til umfjöllunar. Ég átti þess þá kost að fylgjast nokkuð með skoðun þess. Ég tel að þetta frv. hafi ýmsa ágalla sem ég út af fyrir sig ætla ekki að fara að telja hér upp, en m.a. komu vísbendingar um það á þskj. í hv. Ed. þegar málið var þar til umfjöllunar, þskj. frá flokksbróður mínum.

En þrátt fyrir marga ágalla sem eru á þessu frv., og ég tel að bað gangi allt of skammt í þá átt að gera landið frjálsara og meira tillit yrði tekið til allra hagsmuna þjóðarheildarinnar en gert er í þessu frv., — þrátt fyrir það felur þetta frv. þó í sér mjög veigamiklar lagfæringar frá því sem nú er í lögum um sama efni, og þess vegna mun ég styðja frv. við lokaafgreiðslu þess hér úr hv. Nd. Ég held að það væri ekki til bóta á þessu stigi að fara að vísa málinu til ríkisstj. Ég ber satt að segja ekki það traust til þeirrar ríkisstj. sem nú situr að ef Alþ. sendi málið nú til hennar, þá kæmi það til baka í betri búningi heldur en það nú er. Því miður held ég að það mundi verða í lakara búningi, ef eitthvað er.

Ég hef hlustað með athygli á ræðu hæstv. forseta okkar hér í dag. Ég er í veigamiklum atriðum sammála þeirri gagnrýni sem hún hefur komið fram með á vinnubrögð við alla vinnslu þessa máls. Hins vegar er ég algerlega andstæðrar skoðunar um margt af því sem ég tel að hún hafi verið að reyna að færa hér rök fyrir.

Ég ætla ekki að tefja hér með neinum ræðuhöldum, en lýsi því yfir að ég mun fylgja frv. nú við lokaafgreiðslu þess.