18.05.1976
Neðri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4553 í B-deild Alþingistíðinda. (4150)

257. mál, jarðalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er með mig eins og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, ég hef hlustað hér með andakt í dag á ræðu hæstv. forseta okkar við 2. umr. þessa máls. Ég skal ekkert segja hvað hefði gerst hefði hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir tekið til fyrr og haldið jafnhjartnæmar ræður við hverja umr. málsins hér í hv. d. En hvað sem því líður, enn er ég ekki sannfærður.

En nú hefur gerst sá atburður að fram er komin frávísunartill. á stjfrv. frá einum hv. stjórnarþm. Og mér hefur fundist aðalröksemd hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur gegn þessu frv. vera sú að sumar gr. þess og ákvæði gangi í berhögg við stjórnarskrá lýðveldisins. Hún hefur hér talað til þess að reyna að sannfæra hv. þdm. um að verði þetta frv. gert að lögum í þeirri mynd sem það nú er, þá hafi sómi Alþ. beðið hnekki. Hér er því um það að ræða að einn af aðalforustumönnum annars stjórnarflokksins hér á hv. Alþ. hefur með ummælum sínum lýst því yfir að með þessu stjfrv.hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir brotum á stjórnarskrá lýðveldisins. Og það, sem mér þætti fróðlegt að fá inn í umr. eða afstöðu til þessa máls, er það, hvort hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir getur hugsað sér það, eftir að slík hneisa hefur verið unnin á hv. Alþ. ef samþykkt verður þetta frv. fyrir atbeina hæstv. ríkisstj., — hvort hún getur áfram hugsað sér að styðja þá menn í hæstv. ríkisstj. sem beita sér fyrir slíkum málum á hv. Alþ. Ég fyrir mitt leyti mundi vart treysta mér til þess, hefði ég talað á svipaðan hátt og þessi hv. þm. hefur gert um sum ákvæði þessa frv. sem algert brot á stjórnarskránni, þá hefði ég vart treyst mér til þess að styðja þá hina sömu menn, sem ætla sér að framkvæma slík brot, til áframhaldandi valda innan ríkisstj. Mér þætti því fróðlegt að fá um það vitneskju hjá hv. þm. hvort hún þrátt fyrir þetta, ef það gerist, sem mér þykir líklegt, að frv. nái fram að ganga eins og það nú liggur fyrir, hvort þessi hv. þm. geti samt sem áður hugsað sér að styðja þá hæstv. ríkisstj. sem beitir sér fyrir slíkum vinnubrögðum.