18.05.1976
Neðri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4554 í B-deild Alþingistíðinda. (4151)

257. mál, jarðalög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að taka aftur til máls vegna þess að hv. 5. þm. Vestf. fór hér orðum um það að ég teldi að hér hefði verið framið stjórnarskrárbrot. Þetta er nærri því rétt, en ekki alveg rétt. Sannleikurinn er sá, að ef ég teldi að þetta væri stjórnarskrárbrot, þá hefði ég vísað þessu máli frá sem deildarforseti. Ég taldi, áður en það hér fór til n., að í því fælust viss ákvæði sem hefðu valdið frávísun ef ekki strax hefði komið leiðrétting frá hæstv. ráðh. sem bar að líta á eins og part af frv. í raun og veru, en það var ákvæði í 26. gr. sem fól það í sér að fullt verð yrði ekki greitt eiganda við eignarnám. Við 1. umr. málsins benti hæstv. ráðh. á að það ákvæði hefði raunar verið tekið orðrétt upp úr lögum frá 1948 um kauprétt jarða og taldi þar með að þetta ákvæði væri á grænni grein. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar, að jafnvel þótt stjórnarskrárbrot finnist í lögum í lagasafni Íslands, þá sé þar með búið að helga það hér á Alþ., að þá eigi bara að endurtaka slíkt. Því miður hefur það komið fyrir stundum í þingsögunni að slæm lög hafa slæðst í lagasafnið. Það er það sem ég er að reyna að koma í veg fyrir núna. Ég er að reyna að koma í veg fyrir að mjög slæm lög bætist í lagasafnið. Ég er að reyna að fá hv. þdm. til að sjá með mér um það að ríkisstj. fái tækifæri til þess að athuga þetta mál að nýju og Íeiðrétta á því gallana.

Ég vil skýra svolítið nánar þetta sem ég sagði, að væri nærri því rétt, en ekki alveg rétt. Það, sem stendur í minni frávísunartill., er að viss ákvæði þessa máls gangi í berhögg við anda stjórnarskrárinnar. Eftir því sem ég hef lesíð mér til um skyldur forseta Alþ. þegar svona stendur á, þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ef um skýlaust og bókstaflegt stjórnarskrárbrot er að ræða beri forseta að vísa málinu frá, en þótt ákvæði gangi í berhögg við anda stjórnarskrárinnar sé það ekki frávísunarsök, heldur beri Alþ. að skera úr um það hvað það telji vera anda stjórnarskrárinnar að þessu leyti. Þess vegna er það mikilvægt í þessu máli að hér sé ekki kastað til höndum. Það er ekkert gamanmál og það er ekkert skyndiafgreiðslumál þegar Alþ. á að ákveða það hvort mjög tvísýnt ákvæði samrýmist anda stjórnarskrárinnar. Það, sem ég á hér við, er tilgangurinn á bak við mannréttindaákvæðin, og það, sem ég á hér líka við, er ákvæðið um meðferð dómsvaldsins. Ég álít að þessi atriði séu þess eðlis að Alþ. eigi að skera úr um þetta sjálft.

Ég tel mig nú hafa skýrt enn betur þá afstöðu sem ég hef til þessa frv. að því er varðar samband þess við stjórnarskrána. Hv. þm. spurði hvort ég treysti mér eftir þau orð, sem ég hef hér viðhaft um þetta frv., til þess að styðja hæstv. ríkisstj. sem stendur að svo afleitu máli. Ja, ég geri ráð fyrir að flestir, sem hér eru inni, hafi staðið andspænis því að sjá einhvern, sem þeim er ákaflega annt um, gera hörmuleg mistök. Ef þetta frv. verður samþykkt, þá er afstaða mín slík til hæstv. ríkisstj. Ég mun styðja ríkisstj., en ég mun gera bað með hryggum huga að því er þetta mál varðar. (Gripið fram í) Ég hugsa það. Og það verða kannske fleiri sem gráta þegar það rennur upp fyrir þeim hvað hér hefur verið gert ef menn ekki átta sig. Til þess er enn þá tími, og það eru mörg dæmi þess að menn hafi áttað sig á seinustu stundu. Margir hafa snúið við frá glapræði þegar komið er á ystu nöf.