18.05.1976
Neðri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4557 í B-deild Alþingistíðinda. (4158)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sjútvn. hv. d. hefur tekið til athugunar og umr. frv. til l. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands í þeim búningi sem hv. Ed. veitti því. Því ber ekki að neita að víð fyrstu sýn þótti ýmsum sér í lagi í hv. sjútvn., sem heldur gæfi á að líta þegar þeir sáu hinar fjölbreyttu brtt. sem hv. Ed. hafði gert við frv. Það kom þó í ljós að þær voru velflestar ekki mjög alvarlegs eðlis eða leiddu til mjög róttækra breytinga á frv. Þó er það svo að sjútvn. treysti sér ekki til að fallast á frv. í þeirri gerð sem hv. Ed. afgreiddi það og flytur því brtt. við frv. í núverandi búningi. Ég vil nú reyna að gera í sem stystu máli grein fyrir því í hverju brtt. eru fólgnar.

Ég skal geta þess að það hafa kannske orðið sjútvn.- mönnum ýmsum til enn meiri undrunar hinar fjölbreyttu breytingar af því að hún eða meginhluti hennar hafði unnið lengi að samningu frv. með ýmsum þeim sem í hv. Ed. höfðu nokkra forustu um breytingarnar sem gerðar voru. 5 af nm. sjútvn. Nd. áttu sæti í fiskveiðilaganefndinni sem endurskoðaði lögin sem í dag gilda, en nú er verið að gera breytingu á, ásamt með tveimur hv. Ed.-mönnum sem báðir eiga sæti í sjútvn. Ed. Það hafði tekið óhemjutíma og í raun og veru mikla vandvirkni fyrir þessa þm. að verða á eitt sáttir um gerð frv. eins og það var lagt fram á sínum tíma í hv. Nd., enda kom það á daginn að í hv. Nd. var um mjög veigalitlar breytingar að tefla frá því sem frv. var upphaflega lagt fram. Í fiskveiðilaganefndinni lögðu þm. hið mesta á síg til þess að ná samkomulagi af því að þeim bauð í grun að ella yrði mjög erfitt um vik að ná samstöðu á hinu háa Alþ. þegar málið kæmi þar til umfjöllunar. Á hitt ber að líta, að þetta er viðamikið og flókið mál, og eins og ástæður íslendinga í þessum efnum eru nú er ekki að undra þótt menn hafi stríðar meiningar í málinu og margvíslegar.

Sjútvn. Nd. hefur nú í dag lagt sig í framkróka um að hafa samráð við hv. nm. í sjútvn. Ed. Ætla ég að vænta að það hafi borið þann árangur að gera megi ráð fyrir því að nokkurn veginn sæmileg samstaða náist og í öllu falli að þetta lagafrv. nái lagagildi, því að með öllu væri það óviðeigandi á þessum tímum ef hið háa Alþ. næði ekki saman um lagaramma þann sem nýta á fiskveiðilandhelgi okkar eftir. Eins og ég hafði áður tekið fram margsinnis, þá er vitanlega hér um lagaramma að tefla og miklu meira undir því komið hvernig framkvæmdin fer úr hendi þegar til kastanna kemur.

Ég vil svo í sem stystu máli, eins og ég segi, gera grein fyrir brtt. okkar, en nauðsynlegt er tel ég, að bera þær saman jafnóðum við þær breytingar sem áttu sér stað í Ed.

Sjútvn. vill fallast á fyrstu brtt. hv. Ed. um það að nema brott nýjan viðmiðunarstað, Gölt eða Hellna-Gölt á Snæfellsnesi, og þess í stað að hverfa til þess sem áður var, Malarrifs. Auðvitað veldur þetta þeim breytingum að viðmiðunarlínan færist allmiklu utar þegar að Snæfellsnesi kemur, þannig að togveiðar verða ekki leyfðar á allvænni sneið eða geira sem liggur frá Garðskaga og að Snæfellsnesi, svo að þetta er frekar í friðunarátt, án þess þó að það sé rétt, sem fram kom í hv. Ed. í gær, að Gölturinn sé í sjálfu sér neitt vandfundinn staður, heldur að öllu leyti ágætur viðmiðunarstaður að álíti sjófarenda.

2. brtt., sem samþykkt var í hv. Ed., um frekari opnun svæðisins frá Fonti að Glettinganesi treystir sjútvn. Nd. sér ekki til að fallast á. Við afgreiðslu í hv. Nd. á sínum tíma var samþykkt að heimila ekki neinar togveiðar fyrir öllu Austurlandi frá Fonti og að Hvítingum. Breyting varð á einmitt á þessu svæði sem hér um getur að því leyti sem valinn var nýr viðmiðunarstaður á Skálatáarskeri, á Digranesi, þannig að heimilt var að veiða með botnvörpu og flotvörpu á allvænni sneið til viðbótar á Digranesflaki. Er þó þess að geta að Digranesflak og Bakkaflóadýpi og þær slóðir hafa orðið fyrir mjög mikilli áníðslu breskra veiðiþjófa um langa hríð þannig að svæðið má ekki við miklu. Enn fremur er á það að líta að ekki er hægt að fallast á þessa breytingu frá hv. Ed., þar eð fiskifræðingar álíta að svæðið frá Fonti og suður að Glettinganesi og þaðan á haf út eigi allsammerkt með svæðinu frá Hraunhafnartanga og að Fonti sem nú er friðað allt út í 200 sjómílur, þannig að með engu móti verður fallist á að rýmka veiðiheimildir á þessu svæði þótt aðeins sé um að tefla skip undir 39 metrum, enda eru það mjög öflug skip sum hver til togveiða.

Fallist er á till. Ed. um lokun fyrir togveiði frá Hvítingum og vestur að 18. lengdarbaug. Í afgreiðslu Nd. áður hafði einvörðungu verið miðað við Ingólfshöfða, þannig að lokunin nær allmiklu vestar eða að Skarðsfjöruvita þar sem greindur lengdarbaugur liggur nokkurn veginn um, og ég tek það fram að í mjög mörgum atriðum er af sjútvn. Nd. fallist á brtt. hv. Ed.

Þá er ekki fallist á að í lög verði sett lokun fyrir togveiðum á svæði sem er réttvísandi suður af Hvalnesi, 6 mílur frá landi og nær að lengdargráðu 15 gráðum 45 mínútum vestur lengdar. Þetta hefur í máli manna gengið undir nafninu ánamaðkur, það er hlykkjótt svæði sem þarna var lokað fyrir togveiðum á tímabilinu 1. maí til 1. okt. Á þessa breytingu er ekki fallist. Hins vegar er það mál kunnugra manna að oft gangi á þetta svæði smáfiskur, og ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. muni í máli sínu hér á eftir koma til móts við vilja áhugamanna sem beitt hafa sér fyrir þessari breytingu, enda minni ég á að hér er sú nýbreytni tekin upp í þessum lögum að hallast að beitingu skyndilokana og þar af leiðandi náttúrlega auknu eftirliti og þess vegna ætti ekki að þurfa eins að njörva þetta niður í lögum. Hins vegar er samkomulag að fallast á að á litlu svæði, sem afmarkast réttvísandi austur frá Hvítingum og suður frá Hvalnesi 6 mílur frá landi, þar verði öllum skipum heimilt að veiða á tímabilinu 1. maí til 31. des. Þarna hafa togarar náð allgóðum árangri undanfarin ár og þarna er um stórfisk að tefla yfirleitt. Þess vegna þótti mönnum ástæða til, þar sem yfirleitt er nú mjög þrengt að togskipum, að gefa þeim kost á þessu veiðisvæði og á það er fallist.

Síðan er enn fremur fallist á takmörkun veiða á svæði vestur frá Grindavík og austur fyrir Krýsuvíkurbjarg, að það verði ekki heimilt að veiða þar frá 20. júní til 1. ágúst, styttur tíminn. Enda þótt ég fyrir mitt leyti hafi ekki fengið að heyra neinar röksemdir sem að þessu hníga, þá þótti samt ekki ástæða til að fetta fingur út í það.

Hins vegar er ekki samkomulag um það að fallast á nýja reglu varðandi Faxaflóa- og Reykjanessvæðið sem samþykkt hafði verið í hv. Ed., þar sem í 3. gr. E-lið 1 þar sem miðað hafði verið við að utan línu, sem dregin er 5 sjómílur utan við Geirfugladrang úr punkti í 5 sjómílna fjarlægð réttvísandi suður frá Geirfugladrang í punkt í 6 mílna fjarlægð réttvísandi vestur frá Skálasnaga o.s.frv., þessu hefur verið breytt á þann veg að miðað var við 10 sjómílur réttvísandi vestur frá Skálasnaga. Till. n. er að hverfa aftur til ákvæða um 6 mílna fjarlægð réttvísandi vestur frá Skálasnaga eins og áður hafði staðið.

Á breytingu í hv. Ed. samkv. 2. brtt. er fallist. Sömuleiðis 3. brtt. um orðalag 8. gr. eftir þær umbætur sem á henni voru gerðar við 3. umr. í hv. Ed.

Þá er enn fallist á að þrengja heimildir til dragnótaveiða. Áður hafði verið heimilt að veita þær til 20. des., en þessu var breytt í hv. Ed. þannig að þær verða ekki leyfðar eftir 30. nóv. Á þetta er fallist

Enn fremur — og ég legg mikla áherslu á það og það er mjög mikilvægur liður og óhætt að tala um það upphátt í þeim samkomulagstilraunum sem gerðar hafa verið til þess að menn nái höndum saman að lokum um þetta frv. — er ekki gerð brtt. við þá ákvörðun hv. Ed. að útiloka leyfi til dragnótaveiði í Faxaflóa. Á þetta vil ég leggja alveg sérstaka áherslu. Hér er auðvitað ekki verið að versla með eitt eða neitt, heldur eru menn að leggja sig í framkróka við að ná samkomulagi. Það sýnist sitt hverjum í þessu efni, einnig hér á hinu háa Alþ. En það verður varla ofgert í friðunarmálum og þess vegna er fallist á þessa grundvallarbreytingu sem ég vil nefna.

Þá vil ég geta þess sérstaklega að mjög veruleg breyting hafði verið gerð á Breiðafjarðarsvæðinu í hv. Ed. — breyting sem er fjarri öllu lagi að nokkurt samkomulag geti orðið um, en það var um orðalag Breiðafjarðarsvæðisins sem er í 3. gr. undir F-lið, orðalag F 1, þar sem samþykkt var að togveiðar með botnvörpu og flotvörpu skyldu ekki leyfðar innan svæðis sem takmarkaðist 18 sjómílur réttvísandi frá Malarrifi og síðan í punkt dreginn í 12 mílna fjarlægð réttvísandi vestur frá Bjargtöngum. Sjútvn. Nd. varð sammála um að hverfa til sömu reglu sem áður hafði verið gert ráð fyrir í frv. og gilti í lögunum frá 1973. Ég veit að hér er um allmikinn ásteytingarstein að tefla, en ég vænti þess einnig að hæstv. sjútvrh. muni í máli sínu hér á eftir koma að einhverju leyti til móts við tillögumenn eða þá sem forustu hafa haft um stóraukna friðun fyrir togveiðum á þessu svæði og hafa raunar, þótt miklu vægilegar sé farið í sakirnar, flutt till. um breytingar á þessu svæði við þessa einu umr. hér í hv. d. sem er að finna á þskj. 933. Ég tek skýrt fram, þótt það sé kannske ekki viðfelldið að taka hana til sérstakrar umr. áður en fyrir henni hefur verið mælt, að það er ekkert samkomulag um samþykkt þeirrar till. En eins og ég sagði, þá kann að vera að það megi sættast á aðra tilhögun um aðgæslu og verndun á þessu sviði sem ég vænti þá að hæstv. sjútvrh. láti í ljós hér í umr. á eftir.

Það er í sjálfu sér mjög lítilvæg breyting sem gerð er till. um við 15. gr. Þar hafði því einu verið breytt í hv. Ed. að þegar slíkar tilraunir, vísindalegar tilraunir og rannsóknir erlendra aðila, fara fram, þá hafði upprunalega verið ráð fyrir gert að þær færu fram undir eftirlíti Hafrannsóknastofnunarinnar, svo sem sjálfsagt er. En hv. Ed. bætti þar inn í undir eftirliti og í umsjá Hafrannsóknastofnunarinnar. Þetta þykir of í lagt því að þetta mætti túlka sem svo að eftirlitsmann yrði að skipa í hvert skipti um borð í þessi skip. En alveg er óþarft í því samstarfi sem hlýtur að vera á milli rannsóknaraðila innlendra og erlendra að leggja svo stórt undir í þessu efni og þess vegna till. um að þessi orð: „í umsjá“ falli brott.

Breytingarnar frá Ed. við 16. gr. eru samþykktar, sömuleiðis við 17, um löghald o.s.frv. við 19. gr. og við ákvæði til bráðabirgða.

Þá hef ég lokið að fara yfir þær brtt. sem sjútvn. þessarar hv. d. leyfir sér að leggja fram, og ég hef borið þær saman við þær breytingar, sem gerðar voru í Ed., og upplýst að að verulegu leyti hefur sjútvn. hv. Nd. fallist á þær breytingar sem gerðar voru í hv. Ed. Að sjálfsögðu er ekkert við því að segja þótt verulegar breytingar séu gerðar á þessu frv. En ef menn nú á þessari stundu ná ekki höndum saman um lagasmíðina, þá er örvænt um að takist að setja þessa rammalöggjöf, og það yrði að mínum dómi alveg ófyrirgefanlegt og óforsvaranlegt af hinu háa Alþ. ef því tekst ekki að setja nú lög um þetta lífshagsmunamál sitt. Þess vegna er það, þótt mér sé kunnugt um að allir hv. þm. gangi ekki hlæjandi til þessa leiks eða glaðir í sinni og þurfi e.t.v. að heygja af leið, þá álít ég, eins og komið er málum, að það séu svo miklu minni hagsmunir sem þar verði að víkja fyrir meiru að ég skora á þá að líta til hinnar miklu nauðsynjar sem okkur er á að ná saman höndum um málið. Enda þótt þetta mál gangi að sjálfsögðu, ef breytingar verða samþykktar sér, til hv. Ed., ef við nú tökum enn til við að kasta málinu á milli d., þá er alveg augljóst mál, að það nær ekki fram að ganga á þessu þingi. Ég leyfi mér að treysta því að til þess dragi ekki, eins og ég segi, svo mikil nauðsyn sem okkur er á að koma þessum lögum á.