20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Hv. flm. þessarar þáltill. kvartaði mjög undan því að hm. Sjálfstfl. sérstaklega og raunar stjórnarflokkaþm. tækju ekki nægilegan þátt í þessum umr. og sagði jafnvel að hann teldi ástæðu til að ráðherrar hefðu hér tekið til máls um þetta efni.

Víst er hér um mikilvægt efni að ræða þar sem eru fyrningarákvæðin. Þau eru mjög flókið mál, eins og greinilega kom fram í ágætum ræðum hv. 5. þm. Austurl. nú á þessum fundi, og ekki skal ég gera lítið úr því. Ég er líka sammála um að það þurfi breytingar á þessum reglum. Þetta eru reglur þær sem lögfestar voru á tímum vinstri stjórnarinnar með lögum nr. 7/1972, eins og raunar kemur fram í sjálfri þáltill. Þessar reglur, sem hv. flm. kallar hneyksli og annað í þeim dúrnum og eru það kannske að einhverju leyti, það eru reglur hans eigin stjórnar. Það eru þær reglur sem vinstri stjórnin lögfesti. Það er rétt að menn hafi það í huga. (Gripið fram í.) Það, sem núv. stjórn gerir og yfirvöld, er auðvitað ekki annað en að framfylgja lögum, þeim lögum sem í gildi eru, lögunum sem sett voru í tíð vinstri stjórnar.

En að það sé um að ræða málefnafátækt og rökþrot af hálfu sjálfstæðismanna sérstaklega í þessu efni, það er mikill misskilningur. Það liggur fyrir að það er n. að vinna að endurskoðun þessara laga, eins og kom fram í ræðu áðan. Þessi till. er þess vegna tilefnislaus með öllu. Hún er um það að fela ríkisstj. að gera það sem hún er að gera, að skoða þessi lög. Hví skyldum við þá vera að ræða þetta mál hér fram og til baka? Að því er mig sérstaklega varðar, þá á ég sæti í fjh.- og viðskn., þangað koma væntanleg frv. ríkisstj., þar verður efnislega um þau fjallað, og skal ég þess vegna ekki fara langt út í þá sálma.

En hv. flm. gerir enga tilrann til þess sjálfur að færa að því rök hvað hann vilji gera. Hann flytur þáltill. sem byrjar á þessum orðum með leyfi hæstv. forseta: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa lagafrv. um breyt. á tekjuskattslögum“ o. s. frv. Hann segir ekkert hvað hann vill sjálfur. Hann reynir ekki að flytja frv. til breyt. sjálfur. Hann vill fela ríkisstj. að gera það sem hún er að gera. Hann treystir ríkisstj. miklu betur til þess að gera það en sjálfum sér og sínum flokksmönnum, og þar loksins kom að því að við erum sammála.