18.05.1976
Neðri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4570 í B-deild Alþingistíðinda. (4163)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki ræða þetta mál neitt á við og dreif eða eyða löngu máli í þessar umr., en mig langar að vekja hér athygli á tilteknum greinum eða einni grein einkum og er það raunar það sama sem hv. 2. þm. Austurl. minntist á hér sérstaklega ásamt ýmsu öðru, en það er till. hv. sjútvn. um að liðurinn B 3 fyrir Austurland falli brott. Mig langar til þess að vekja athygli á þessari till. og benda á að ég tel að það væri mjög óheppilegt ef sú till. yrði samþykkt.

Það, sem hér er um að ræða, er að hafa nokkra ræmu sunnan við Langanes eða frá Langanesi og suður undir Gletting fyrir togbátana sem gerðir eru út, bæði af Norðurlandi og frá Austurlandi. Ég held að ég hafi í huga alveg töluna um það hvaða bátar það eru sem hér er um að ræða. Þetta eru 5 skip sem hér hafa sérstakra hagsmuna að gæta. Það er Sigurbjörgin frá Ólafsfirði, Þórður Jónasson og Ólafur Magnússon frá Akureyri, sem eru nú raunar gerðir út að mestu frá Seyðisfirði, og svo Emelie frá Seyðisfirði og Bjarni Ásmundar frá Húsavík. Þessi 5 skip hafa mikilla hagsmuna að gæta af því að þessu svæði sé ekki lokað, og það var einmitt vegna þessara báta sem breytingin var gerð í Ed. Ég teldi mjög miður farið ef Nd. féllist á þá till. sjútvn. þessarar d. að fella það niður sem Ed. samþykkti í þessu tilfelli. Ég vil því, eins og hv. 2. þm. Austurl. gerði áðan í ræðu sinni, beina því mjög ákveðið til sjútvn. og þá sérstaklega til frsm. n. að hann og n. taki þetta til sérstakrar athugunar. Ég vil líka taka undir það með hæstv. sjútvrh. að það verði gert stutt fundarhlé til þess að reyna að samræma þessar skoðanir þannig að menn geti nokkurn veginn orðið sammála um það hvernig þetta mál verði afgreitt.

Mér er alveg ljóst að það er mikill vandi að setja þessar reglur svo að öllum líki. Ég fæ ekki séð að miklar aths. hafi verið gerðar við verk þeirrar n. sem samdi þetta frv., og persónulega hef ég ekkert við hennar verk að athuga, hygg að hún hafi innt af hendi mjög gott starf og að hér sé um að ræða væntanlega löggjöf sem er ekki einasta brýn, heldur er nauðsynjamál fyrir fiskveiðar okkar og fyrir verndun fiskstofnanna. Um þetta erum við allir sammála. Hins vegar held ég að það sé nauðsynlegt, að hv. sjútvn. og þeir menn, sem hafa einkum staðið að samningu þessa frv., hafi þolinmæði til þess að hlusta á raddir einstakra þm. þannig að þeir fái tækifæri til þess að koma að sínum sjónarmiðum og að n. virði þau sjónarmið sem hér koma fram.

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að ég tala hér fyrir munn allra þm. Norðurl. e. þannig að það hefur verulegan stuðning norðlendinga að þetta máli nái fram að ganga, þ.e.a.s. þetta ákvæði sem kom í frv. í Ed. að það fái að standa. Þess vegna vil ég enn á ný beina því vinsamlegast til sjútvn. að hún taki þessar aths. til vinsamlegrar skoðunar og þá þannig að hún taki aftur a-liðinn í 1. till. á þskj. 926.

Ég held að ég hafi ekki fleira um þetta að segja. En ég vænti þess eindregið að hv. n. taki þessar aths. til greina.