18.05.1976
Sameinað þing: 93. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4595 í B-deild Alþingistíðinda. (4198)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil nú byrja mál mitt á því að þakka hv. fjvn. fyrir störf hennar og það mikla álag sem fjvn.-menn hafa lagt á sig í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Þeim hefur verið fullkomlega ljóst að það hefur verið erfiðleikum háð að ná fjármagni til þess að koma áfram þeirri áætlun sem við þó erum með nú, og veit ég að hjá þeim er meiri skilningur á því heldur en hjá flestum öðrum. En ég vil sem sagt færa þeim öllum þakkir, bæði meiri hl. og minni hl., í þessu starfi þeirra og veit að það hefur verið mikið sem þeir hafa þurft á sig að leggja.

Þótt margt hafi nú komið fram í umr. með ýmsum hætti, þá hefur það þó glatt mig verulega að allir hv. þm. eru sammála um að það þurfi meira fé til veganna. En það hefur einmitt verið mjög áberandi á þessu ári að því væri lýst yfir að það ætti að draga úr fé til vega, en ekki auka það. Og það var eitt af því sem kom fram í umr. hjá samtökum vinnumarkaðarins sem kölluð voru og ávítuðu ríkisstj. fyrir það. Ég hef aldrei tekið þær ávítur mjög alvarlega, enda hefur mér skilist að það væri afskaplega erfitt að sameina það að draga úr slíkum framkvæmdum og halda þó fullri atvinnu, eins og var þó höfuðkrafan.

Áður en ég segi meira um þessi mál vil ég taka það skýrt fram, að það er rétt með farið að það er stefnt að því að bjóða út 500 millj. af happdrættisfé vegna Norður- og Austurvegar. Það er búið að bjóða 300 millj. út og það mun þegar selt, en hitt er eftir, en að því er stefnt.

Hins vegar skiptum við hér ekki nema 160 millj. kr. inn á þessi svið, og auðvitað var það hugsun okkar að fá þetta til viðbótar því sem fyrir var þó að það hafi ekki tekist sem skyldi vegna okkar fjárhagslegu erfiðleika nú. Það var ekki talið vogandi að bjóða út meira eða afla meira lánsfjár til vegagerðar á þessu ári. Hins vegar er samkomulag um að þessar 350 millj., sem fram úr standa, eru eign Norður-, Austur- og Vesturvegar, hvernig sem við höfum það nú, og ber Vegasjóði að skila því síðar, en ekki hefur verið um það samið hvenær það yrði gert og verður að reyna að haga því svo, eins og nú var reynt að gera, að það raski ekki þeim framlögum til annarra svæða sem það hefði gert verulega ef þetta hefði verið tekið núna, allar 500 millj., og aðeins sett inn á þetta svæði. Er ég þakklátur fyrir að samstaða tókst um þetta. En að sjálfsögðu var alltaf gert ráð fyrir því að skipta þessu í vegáætluninni í meðferð fjvn., en vegna þess að við höfðum ekki meira við að bæta heldur en gert var þó og þurftum svo mikið að auka við vegna vegaviðhaldsins og slíkra hluta, sem þó er of lítið að gert, þá var þetta ekki sundurliðað í upphafi, en tekið skýrt fram að þetta er fengið með þessum hætti, aðeins 150 millj. af þessum 500 er ráðstafað nú á þau vegasvæði sem til stendur, að það gagni til, hitt bíður síðari tíma.

Ég vil svo í sambandi við það, sem sagt hefur verið um rýrnunina á framkvæmdamætti vegafjárins á milli áranna 1975 og 1976, geta þess, þar sem vegamálastjóri hefur reiknað það út, að þetta er nú ekki eins svart og ég hélt það vera, þótt nógu svart sé það. Þá er þetta þannig, að magnbreytingin á milli áranna 1975 og 1976 í vegaviðhaldi er 1.8%, en hækkun er þarna þó nokkur, í nýbyggingum vega er það 16.7% og í brúm er þetta 19%. Þetta eru öruggar tölur. Ég hafði áður haft samband við Vegagerðina um þetta og svo fengið líka tölur frá Framkvæmdastofnuninni og hafa þessar tölur nú verið bornar saman og þá er útkoman þessi.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði við fyrri umr. þessarar vegáætlunar, að á s.l. sumri skipaði ég n. til þess að endurskoða vegal. því að mér var fullkomlega ljóst að það er ekki hægt að framkvæma þessi mál, svo að í nokkru lagi sé, nema breyta vegal. frá því sem þau eru nú. Og þetta reyndi ég að gera á eins breiðum grundvelli og hv. 2. þm. Austurl. talaði um, með því að taka þm. úr öllum flokkum sem eiga fulltrúa á hv. Alþ. og einnig að dreifa þeim um landið eins og tök voru á. Það var kannske ekki alls kostar auðvelt að koma þessu fyrir, t.d. hjá minnsta flokknum sem hafði tvo þm. Ég vildi ekki velja tvo úr sama kjördæmi og varð því að hagræða því þannig að þetta mætti takast. Þessi n. var búin að gera drög að breytingum snemma á s.l. vetri, en í meðferð flokkanna var ekki hægt að fá um þetta samstöðu og ekkert óeðlilegt þó að hv. þm. þyrftu sinn tíma til þess að skoða þessar breytingar. Hins vegar voru undir lokin komnar upp hugmyndir hvernig með mætti fara, og þessi n. heldur áfram að vinna undir forsæti ráðuneytisstjórans í samgrn. og vegamálastjóra með þessum hv. þm. Ég geri mér vonir um að það takist nú að ná samstöðu um þetta og þegar búið er að fá ramma að þessu væntanlegu frv., sem n. gæti staðið sæmilega að, þá mun ég gefa þeim þm., sem eru hver úr sínum flokki, kost á því að senda samþm. sínum þetta, eins og ég mun gera við mína þm. Hins vegar tek ég það fram að slíkar till., sem ekki væru þá afgreiddar, mættu náttúrlega ekki fara í blöð eða til birtingar, heldur yrðu sendar sem trúnaðarmál til þess að þm. gætu átt auðveldara með að taka afstöðu til þessara mála.

Mér er það líka fullkomlega ljóst, eins og hefur komið fram hjá fleiri þm. og komið hefur fram í ræðum mínum um þessi mál, að það verða ekki frekar í vegum heldur en í öðru gerðir hlutir án fjármagns. Og okkur skortir meira fjármagn, um það er ekkert að efast. Hins vegar vitum við, að við erum í öldudal þar um og því höfum við þrengt að okkur eða ekki látið að óskum okkar í þessum efnum svo sem við vildum gera. En að þessum málum verðum við að vinna, og það gleður mig stórum að heyra að það er almennur áhugi á því að gera þetta. Þess vegna treysti ég því að okkur takist að sameinast um fjáröflun til Vegasjóðs, enda er ljóst að það verður að koma til tekjuöflun ef vel á að fara, því að því eru takmörk sett sem við getum framkvæmt fyrir lánsfé í sambandi við vegina, þó að ég hins vegar taki það fram að það verðum við einnig að gera.

Ég ætla ekki að fara hér að ræða um hraðbrautir, þjóðbrautir og landsbrautir vegna þess að ég er búinn að gera svo oft grein fyrir því í hverju þessar breytingar liggja. Þær liggja bara í umferðarþunganum, sem við köllum. Vegurinn, sem í dag er þjóðbraut, getur orðið hraðbraut á morgun bara vegna aukinnar umferðar, sem stafar af því að bílum okkar fjölgar óðum, svo að ekki þarf þar um að ræða. Þetta vita allir. Þess vegna er nauðsynlegt einmitt að gera breytingu á sjálfum vegal. því að þetta kerfi, sem var gott hjá okkur 1960, hentar ekki lengur.

Út af því, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, þá má ekki minna vera en vegamálaráðh. fái áætlanirnar ef hann á að samþykkja þær, og ætla ég ekki að fara frekar út í það.

Hitt vil ég svo segja, að ég ætla nú ekki að fara að eyða löngum tíma í að ræða þær till. sem hér hafa komið fram, vil þó víkja að till. hv. 5. þm. Vestf. og þeirra sem með honum eru. Ég vil taka það fram þó að ég á sínum tíma hafi staðið að því að gera till. um að tekið yrði umferðargjald af vegum sem væru með varanlegu slitlagi, þá mun ég ekki standa að slíkri till. nema það sé undirbúið áður en vegáætlun er lögð fram, hvort sem einn eða annar flytur, vegna þess að um þessa hluti vil ég hafa eðlileg vinnubrögð. Það auðvitað breytir ekki því hvað hv. þm. vill um þá hluti, en það segir ekki að slík hugmynd geti ekki komið til greina við vissar aðstæður.

Ég gæti farið út í það að ræða prósentuskiptingu á milli kjördæma, en ég ætla ekki að eyða tíma í það núna. Ég get látið þá ágætu vini mína hér, hv. þm., sem eru að ræða um þetta hafa þetta allt frá 1965–1976 með brúnni yfir Borgarfjörð, og þá verð ég að biðja bara eitt kjördæmi afsökunar á hvað það er lágt og það er Vesturland. (Gripið fram í.) Það er lægst á þessu tímabili þó að brúin sé tekin með. En ég skal ekki fara að fjalla um það.

Út af till., sem hér hefur komið fram frá hv. 5. þm. Reykv. um að fella niður framlag til brúargerðar yfir Borgarfjörð, þá var mér næst að álykta tvennt: Í fyrsta lagi héldi hv. 5. þm. Reykv. að þetta væri séreign fyrir mig, ég ætti þessa brú einn og þess vegna væri best að taka af mér þessa fjárveitingu. Ekki er ég alveg viss um, hv. 5. þm. Reykv., að samherjar þínir þar efra mundu vilja útskýra það með þeim hætti. Og ekki er ég heldur víss um að það þyki gott form á þskj. að fella niður þessi útgjöld án þess að gera upp vegáætlunina tekjumegin líka því að þar væri komin slagsíða á með þessum hætti, og þá veit ég ekki nema formið væri orðið gallað eins og hefur nú verið talað um hjá sumum ráðh., embættismönnum og þm. hér á þessum drottins degi, og sú kennslustund, sem við höfðum í þeirri fræðigrein í dag, ætti þá að ná eitthvað víðar.

En út af þessu ætla ég ekki að fara að eyða neinum orðum. Ég veit að hv. þm. eru raunsæir. Og það þarf enginn að halda að þó að hann vildi eitthvað fara að reyna að koma við skapið í mér með þessu, þá gerðist það með öðrum hætti en að gleðja mig. Og ég er ekki alveg víss um að það hafi verið hugsunin. En hafi það verið, þá þakka ég kærlega fyrir það. En ég segi hv. þm. það, að þetta tal um veginn fyrir Borgarfjörð læt ég mér í léttu rúmi liggja að öðru leyti en því, að ég kviði því ef úrlausnin verður á eftir því sem gamli vegurinn og gömlu brýrnar þola. Og alveg er ég nú víss um það, að vinur minn ágætur, hv. 5. þm. Vestf., það mundi nú heyrast í hinum yfir Hvítá ef hann kæmi að brúnni og kæmist ekki yfir vegna þess að hún hefði dottið niður. (KP: Færi bara aðra leið.) Það er kostnaður við 80 km til viðbótar og á þeirri leið eru enn þá eldri brýr sem mundu bila líka.

Ég skal svo ekki þreyta hv. þm, lengur með tali um þessa vegáætlun. Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt, að ég þakka hv. þm. fyrir störf þeirra í sambandi við þetta mál. Það er engum ljósara en mér að það hefur verið lítill tími til þess, og ég harma það ekki þótt við höfum verkefni fram undan samtímis í nýjum vegalögnum og nýrri vegáætlun. Mér finnst fara vel á því að svo verði.