15.10.1975
Efri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

10. mál, grunnskólar

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur, hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, og ég, að endurflytja frv. til l. um breyt. á l. um grunnskóla, sem flutt var á síðasta þingi af þáv. varaþm. Sigurði Blöndal. Við töldum rétt að gera þetta í upphafi þings, svo að gott ráðrúm gæfist til skoðunar á þessu frv., og það var samkv. sérstakri ósk Sigurðar Blöndals sem við lögðum þetta frv. fram nú strax.

Það má segja að þessa dagana, sem við erum að skoða fjárlögin, séu ekki miklar líkur á því að frv. sem þetta nái fram að ganga. Þarna er um að ræða óneitanlega nokkuð auknar byrðar á ríkissjóð, þar sem um yrði að ræða breytingu á þeim hluta grunnskólalaganna sem lýtur að skólakostnaðinum og skiptingu skólakostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga. Það fer hins vegar ekkert á milli mála að hér er um ótvírætt réttlætis- og jöfnunarmál að ræða, og ég held að flestir geri sér það orðið ljóst að það þarf einhverja lausn að fá á málinu. Ég veit það t. d. að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur rætt þetta mál mjög náið og talið sjálfsagt að reyna úr að bæta. Ég þykist vita að það sé öruggt að jákvætt álit hennar gæti legið fyrir nú þegar, og það á jafnt við um fulltrúa strjálbýlis og þéttbýlis í stjórninni, fulltrúa heitu svæðanna og köldu svæðanna, eins og segir í grg. með þessu frv.

Það er spurning um það vitanlega, eins og Sigurður Blöndal benti á á síðasta þingi, hvort ástæða sé til að hrófla við svona nýjum lögum eins og grunnskólalögin eru, einnig þegar það er haft í huga að í þeim lögum eru glögg ákvæði um ákveðna endurskoðun. En málið er aðeins orðið svo brýnt að það verður ekki hjá því komist að hreyfa því á einhvern hátt.

Vegna þess hvernig þetta mál er, þá þykir mér rétt að benda á forsöguna áður en ég fer beint út í að rekja efni frv., og þá verður að rifja upp — ekki sögu grunnskólalaganna, heldur rétt aðeins að minna á það hvernig skólakostnaðarlögin 1967 voru til komin. Þau voru til komin til þess að fá hreinni línur á milli ríkis og sveitarfélaga í hinum einstöku útgjöldum varðandi menntamál, þ. e. a. s. að ríkið tæki að sér alveg alfarið ákveðna þætti og sveitarfélögin svo aftur alfarið aðra þætti,en nokkrir þættir voru þó sem voru skiptir. Þá var þetta atriði ekki vandamál, þá kom það sem sagt alfarið í hlut sveitarfélaganna að sjá um kyndingu á skólahúsnæðinu.

Þá var mismunurinn að vísu til staðar milli þeirra skóla, sem búa við jarðvarma, og þeirra skóla, sem verða að kynda upp með olíu, en auðvitað ekki nema brot af þeim mismun sem er í dag.

Sú varð svo raunin á í sambandi við grunnskólalögin að þessi hluti þeirra um skólakostnaðinn breyttist sáralítið. Aðalumr. um grunnskólalögin fóru fram um annað sem menn töldu þá mikilvægara og var það í sjálfu sér. Ég bendi aðeins á að síðan þetta var, 1967, hefur á öðru einnig orðið breyting litlum fjárvana sveitarfélögum í óhag. Það er ekki bara þetta atriði Þar á ég við spurninguna um sérstaklega fámenn sveitarfélög, sveitahreppa ýmsa, sem þurfa að annast akstur skólabarna, — atriði sem ekki kemur við kaupstaði eða stærri þéttbýlisstaði, en er orðið mjög þungbært fyrir þessi fámennustu sveitarfélög þó að þar sé aðeins um að ræða 15% af heildarkostnaði, því að 85% af þeim kostnaði tekur ríkið að sér. Ég minni aðeins á að það dæmi í dag stendur allhrikalega fyrir þessi sömu sveitarfélög sem þetta frv. snertir. Ég veit sönnur þess að það eru sennilega engar líkur á því í dag að sveitarfélögin geti fengið í ár endurgreiddan aksturskostnaðinn sem þau greiða allan í upphafi. Þar er sem sagt um algjöra vonleysu að ræða. Þetta bætist ofan á hinn gífurlega kyndingarkostnað og þá er von að svartsýni og uppgjöf ríki hjá mörgum þessara aðila.

Eðli málsins, sem ég er hér að flytja sérstaklega ásamt Stefáni Jónssyni, kemur skýrt fram í 1. gr., en þar segir:

„Ríkissjóður greiðir upphitun skólahúsnæðis á móti sveitarsjóðum í því hlutfalli sem nú skal greina:

Sveitarsjóðir greiða upphitun sem nemur meðaltalskostnaði á fermetra í skólahúsnæði þar sem nýtur jarðhita.

Ríkissjóður greiðir eftir á samkv. endurskoðuðum reikningum og fylgiskjölum upphitun sem er yfir því marki, sem 4. mgr. tiltekur, upp að meðaltalskostnaði á fermetra í skólahúsnæði þar sem hitað er með olíu eða rafmagni.“

Það er sem sagt miðað við meðaltalskostnað, þar sem jarðhiti er, og þann umframkostnað, sem þar er um að ræða, mundi þá ríkissjóður taka á sig. Auðvitað má deila um það við hvað á að miða og e. t. v. segja margir og með réttu að hér sé of langt gengið. Það má vera og það má lagfæra það, þetta er okkur ekkert heilagt. En ef litið er til baka til skólakostnaðarlaganna og skiptingar kostnaðarliða milli ríkissjóðs og sveitarfélaga og röksemda með og móti, hvor aðili ætti að greiða hvern lið, þá kemur glögglega í ljós að hefði núverandi ástand í olíukostnaði ríkt, þá hefðu skólakostnaðarlögin verið með einhverju slíku jöfnunarákvæði. Það hefur m. a. verið staðfest við mig af þeim sem þar að unnu.

Það er svo annað mál og erfiðara, eins og alltaf er, að breyta gerðum hlut. Í grg. í fyrra benti Sigurður Blöndal glögglega á ástæðurnar fyrir þessum frv.- flutningi og ég leyfi mér að lesa þær höfuðástæður:

„1. Hin gífurlega hækkun á verði olíu leggst af miklum þunga á þau sveitarfélög sem hita skóla sína með olíu, alveg sér í lagi þá sem hafa heimavist, en það er einmitt í fámennum sveitahreppum.

2. Mismunurinn á kostnaði við hitun skólahúsnæðis annars vegar með jarðhita og hins vegar með olíu er svo mikill að við það skapast aðstöðumunur milli sveitarfélaga af slíkri stærð að eðlilegt og sjálfsagt sýnist að ríkið jafni hann“

Hann fékk svo nákvæmt yfirlit ráðuneytis og samanburð sem hér fylgir í grg. og ég tel óþarft að lesa hér upp, en í framsöguræðu sagði hann orðrétt um þennan mikla mismun, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef fengið frá menntmrn. upplýsingar um hitunarkostnað skólahúsnæðis víðs vegar á landinu árið 1974. Þegar þetta yfirlit var tekið saman lágu að vísu ekki fyrir upplýsingar frá alveg öllum skólum landsins, en kostnaðurinn við þá, sem hitaðar voru með olíu eða rafmagni, 112 talsins, var rúmar 50 millj. kr., en með jarðhita utan Reykjavíkur, 24 skólar, tæpar 5 millj., og þá vantaði ekki upplýsingar nema um 5 skóla sem hitaðir voru með jarðhita svo að telja má að sú tala sé nokkuð nærri sanni. Hitakostnaður við skólana hér í Reykjavík á skyldunámsstigi, sem grunnskólalögin ná yfir, nam rétt rúmum 17 millj. kr. Hins vegar vantaði um þá skóla, sem hitaðir eru með olíu eða rafmagni, upplýsingar frá rúmum 30 aðilum. Það verður að geta þess hér til að viðhafa fullan heiðarleika að í sumum þessum skólum er rafmagnskostnaður ekki sundurliðaður frá hitakostnaði því að sveitarfélögin bera þessa tvo liði, hita og ljós, saman, það kemur á sveitarfélögin ein. Það er í einstaka tilfellum sem ljós og hiti eru færð í einni tölu, en það eru svo fá tilfelli sem ég gat fengið staðfest að það breytir ekki heildarmyndinni. Heildarupphæðin hér að ofan verður þá heldur í óhag þeim sem hitaðir eru með jarðhita, þ. e. frekar of há en of lág.“

Síðan víkur Sigurður einmitt að dæmum um þennan mikla mismun. Hann segir „að í nokkrum þeirra skóla, sem hitaðir eru með jarðhita, er kostnaðurinn á árinu 1974, sem tölurnar ná til, núll, hann er enginn. En aftur á móti í sumum stórum heimavistarskólum í sveit er hitunarkostnaður þeirra skóla, sem hitaðir eru með olíu, gífurlega hár. Ég vildi aðeins nefna hér örfáar tölur þessum staðhæfingum mínum til stuðnings,“ segir Sigurður. „Ég hef umreiknað hita annars vegar með jarðhita og hins vegar með olíu á fermetra í skólahúsnæði sem er sú stærðareining sem byggingadeild menntmrn. notar nú um þessar mundir. Þá kemur t. d. í ljós að ef tekið er það skólahúsnæði, sem Reykjavíkurborg eða Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur hefur gefið upp, var kostnaðurinn árið 1974 samtals 17 millj. rúmar í 80 þús. fermetra húsnæði, þ. e. a. s. 203 kr. á fermetra fyrir árið 1974. Í Keflavík, sem hitar með olíu, það er heimangönguskóli eins og hér tíðkast í Reykjavík, er þessi sami kostnaður tæpar 293 kr. á fermetra, þar er hann þriðjungi hærri. Svo hef ég einn heimangönguskóla í þorpi utan Reykjavíkur. Þar fer fermetrakostnaðurinn upp á hvorki meira né minna en 1300 kr. Svo hef ég hér einn heimavistarskóla sem hitaður er með jarðhita þar sem kostnaðurinn er núll. Og ég hef annan heimavistarskóla í sveit þar sem kostnaðurinn er 56 kr. á fermetra. Það virðist vera hitaveita á staðnum þannig að það þarf að kaupa þar heitt vatn. Svo hef ég einn heimavistarskóla í sveit þar sem hitað er upp með olíu. Þar kom út 529 kr. á fermetra. Og ég hef annan sem er með 687 kr. á fermetra, sem sagt nærri 700 kr. Sést af þessu að þessi kostnaður er ákaflega breytilegur. Það er auðvitað viss ónákvæmni í þessum tölum, mundu kannske fást nákvæmari tölur ef væri tekið yfirlit yfir lengri tíma en eitt ár. Engu að síður held ég að þetta gefi vissa mynd af því hvað aðstöðumunurinn getur orðið gífurlega misjafn þarna.“

Hér lýkur tilvitnun í ræðu Sigurðar Blöndals frá í fyrra um þetta mál. Síðan þetta gerðist hafa komið fram mjög eindregnar óskir víðs vegar að af landinu, frá hinum svokölluðu köldu svæðum, einkum heimavistarskólunum, um að á þessu fengist breyting. Og ég veit, eins og ég sagði áðan, að Samband ísl. sveitarfélaga mun hér að vinna til einhvers jafnaðar og við töldum því rétt að hreyfa þessu máli nú þegar í þingbyrjun og fá kannaðan vilja til a. m. k. einhverjar lagfæringar frá núverandi ástandi. Menn kunna að benda á það að til sé olíustyrkur, að sá olíustyrkur hefði átt að koma hér inn í þegar hann var settur á. En þá var samkomulag milli allra um að miða við íbúðarhúsnæðið eitt og þótti mörgum fullnóg og vel það e. t. v. Og annað atriði kom einnig til, að þá blasti þessi mismunur varðandi skólana ekki eins við og raun er í dag.

Ég treysti á að sú n., sem fær þetta mál til umfjöllunar, skoði þetta mál ítarlega og leiti alveg sérstaklega til Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta, og ég treysti á góða fyrirgreiðslu þessa máls, eins góða og völ er á miðað við núverandi ástand. Hitt dylst mér ekki, að vandinn er ærinn, ekki síst eftir að hafa heyrt um tóma sjóði, minnkandi ríkisumsvif og fleira í þeim dúr og hafandi í huga hrikaleg dæmi um lögboðnar endurgreiðslur, svo sem til aksturs skólabarna, sem ekki sér neina lausn á í dag til sveitarfélaganna.

Ég vil enda þessi fáu orð mín með niðurlagsorðum Sigurðar Blöndals, með leyfi hæstv. forseta, en hann sagði í fyrra orðrétt:

„Það er skoðun mín, að þennan gífurlega aðstöðumun sveitarfélaganna að því er þennan útgjaldalið varðar beri að jafna, það sé rétt og skylt af ríkissjóði að jafna hann. Mér er kunnugt um það að meðal forráðamanna sveitarfélaga á því sem mætti kalla köldum svæðum, í þeim landshlutum þar sem ekki nýtur jarðhita, hefur lengi ríkt mikil óánægja yfir að þessi sérstaki útgjaldaliður í skólakostnaði, upphitunin, skuli alfarið færður á sveitarfélögin. Og eftir hina miklu olíuhækkun, sem átt hefur sér stað s. l. tvö ár, hefur þessi munur auðvitað orðið meiri, og það er sú staðreynd að þessi mikla hækkun hefur átt sér stað núna s. l. tvö ár sem gerir það að ég leyfi mér að hrinda þessu máli hér af stað.“

Þessi orð vil ég gera að mínum og leyfi mér svo að óska þess, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.