20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

39. mál, eignarráð á landinu

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég flutti alllanga ræðu í fyrra um þetta mál, ég hef þar ekki skipt um meginskoðun. Ég tók þá undir þýðingarmestu þætti þessarar till. sem ég kem að síðar, en ég gerði einnig ýmsar aths.

Þau undur gerðust þá að tveir hv. þm., sem ekki heyrðu mína ræðu, lögðu út af ýmsu sem þar var aldrei sagt. Því miður eru þeir báðir fjarstaddir nú, enda báðir ómissandi hérlendis sem erlendis.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson kvað mig hafa talað um það sem goðgá að launþegasamtök t. d. gætu eignast orlofsheimili og eðlilega griðastaði úti í guðsgrænni náttúrunni. Ég benti hógværlega á það að sjálfur hefði ég verið í framkvæmdanefnd slíkra heimila á Austurlandi og sýnt því máli álíka áhuga og hv. þm. sjálfur. Ég varaði hins vegar við sumarbústaðaásókn auðmanna héðan úr Reykjavík, sennilega margra eða flestra úr flokki hv. þm., sem keyptu upp heilar jarðir til þess arna. Slíkt fordæmi ég enn harðlega, en það hefur ekki þessi hv. þm. og mjög fáir samflokksmenn hans gert.

Enn lakar þótti mér þó þegar hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason flutti ræðu af alkunnri mælsku og rökfræði um fullyrðingar og skoðanir sem ég átti að hafa látið í ljós, m. a. það að engin réttindi mætti skerða, allt skyldi landeigendanna og ég væri í heild andvígur till. Þetta var auðvitað afar eðlilegur málflutningur þegar haft var í huga að hv. þm. hafði aldrei heyrt orð úr minni ræðu, en haft um hana fréttir frá samflokksmanni sínum, sem sagði þó í svarræðu við minni tölu að ég hefði eiginlega bara rætt um rjúpnadráp. En þetta leiðréttist furðanlega í umr. Hins vegar brá svo við að í útvarpsumr. þá stuttu á eftir og í Alþýðublaðinu var lagt út af þessari ræðu á furðulegasta hátt. Afturhaldssjónarmið tröllriðu húsum í huga mér, landeigendaauðvaldið átti þarna verðugan fulltrúa, engin réttindi mætti af landeigendum taka, þjóðnýting hvers konar náttúruauðlinda eitur í mínum beinum og fleira í þeim dúr.

Nú vildi svo vel til reyndar að enginn tók á þessu mark nema ég sjálfur. Ég var nefnilega svo sammála ýmsum meginatriðum þessarar till. að mig tók nokkuð sárt hvernig öllum staðreyndum var þarna við snúið. Ég hlýt því að minna nú á meginatriði míns máls í fyrra og skal þar reyna að sleppa rjúpnadrápinu að mestu sem var tilefni hjartnæmra hugleiðinga í fyrra, að öðru leyti en því að ég þekki af eigin reynslu hve hve hvimleið þessi drápsnáttúra getur verið og gengið út í hreinar öfgar. Ég t. d. minnti á ágætan samanburð: hugsa sér byssuglaðan náunga í t. d. Arnarnesi fátæktarinnar hér í nágrenninu, hvernig mönnum litist þar á slíkan náunga skjótandi af handahófi á hvað eina kvikt, eins og ég hef horft á í næsta nágrenni bóndabæja. Ég lái bændum sem sagt ekki þótt þeir vilji ekki eiga á hættu að búfé þeirra ferfætt sé tekið í misgripum fyrir fljúgandi rjúpur eða jafnvel að þeir sjálfir verði aðnjótandi nokkurra hagla í skrokk sinn, fyrir utan erfiða leit í hríðum og þoku að þessum fjallvilltu sauðum stórborgarsvæðisins. En nóg um það.

Ég skal minna á helstu atriðin og byrja þá á því, sem ég gerði í fyrra, að skilja algerlega á milli þeirra gæða, sem beint snúa að atvinnugrein bænda, búskapnum, og því sem óhjákvæmilega kemur þar inn í, og hinna gæðanna, sem mér skilst að séu meginatriði þessarar till., þ. e. ýmissa þeirra náttúrugæða sem eðli sínu samkv. eiga ekki heima í landbúnaði sem slíkum, auðæfi sem þjóðarheildin sem slík á að njóta, en á ekki að vera féþúfa einstakra aðila. Þetta kom skýrt fram, að þarna greindi ég á milli, þessi atriði till. studdi ég alfarið.

Ég benti líka á tvö mikilvæg atriði sem fóru fram hjá hv. flm. Ég benti á það að bændur ættu að íhuga án allrar þröngsýni og sérgæðingsháttar, sem vissulega ber á hjá þeim eins og öðrum stéttum, annars vegar örlög þeirra fjölmörgu bænda sem neyðst hafa til að flytja af bújörðum sínum eftir erfitt starf og þrotlaust strit og oft verulega uppbyggingu og dýra í húsakosti og öðrum framkvæmdum, skilja við þessar eignir sínar verðlausar með öllu, ganga bótalaust frá búum sínum, af því að þeir áttu þau sjálfir, — bera það saman við þá, sem þó á ríkisjörðum sitja, og þau kjör, sem þeir þó njóta, svo að sannarlega er þetta sterkur rökstuðningur fyrir kostum þess að jarðirnar séu í ríkiseign, því verður ekki neitað.

Hitt atriðið var það, sem sífellt ber meira á, ásókn auðmanna í jarðir bænda og gífurleg boð sem sumir hafa hreinlega ekki staðist og fórnað þar með mörgum ágætum bújörðum á altari gróðahyggjunnar. Þessar jarðir hafa svo orðið einskis virði í þágu landbúnaðar í þessu landi, verið hreinlega teknar út úr búskap til þess eins að vera eins konar stöðutákn broddborgaranna. Þróunin í þessum efnum er uggvekjandi og bændastéttinni og landbúnaðinum í heild svo óhagstæð sem frekast er. Þótt bændur séu nú almennt að vakna til meðvitundar um þessa hættu, þá er ekki um að ræða nógu öfluga andstöðu stéttarinnar sem slíkrar. Þetta ætti sömuleiðis vissulega að vera ærið umhugsunarefni fyrir bændur, hvort ríkiseign jarða væri ekki gagnvart þessu nokkur vörn, þótt því miður sé hún ekki eins algild og vera ætti og hv. flm. vilja stundum vera láta.

En fyrir tveimur árum var hér í þingi til umr. frv. til jarðalaga þar sem gerð var virðingarverð tilraun til að stemma stigu við þessari háskalegu þróun, þótt skemmra væri gengið en t. d. við Alþb.-menn hefðum talið þörf á. Mikið er minni mínu tekið að förlast ef sú var þá ekki raunin á að fulltrúar hins víðsýna þjóðnýtingarflokks í Ed. skipuðu sér við hlið sjálfstæðismanna í afstöðunni til þess frv. og skiluðu ásamt þeim neikvæðu nál. Ekki kann ég nú við að nota jafnsterk orð um þessa afstöðu þeirra Alþfl.manna og þeir viðhöfðu um orð mín og hv. þm. Stefáns Jónssonar í fyrra, en eitthvað mætti nú samt út af þessu leggja sem gæti hljómað nokkuð hjáróma í ljósi þessa annars göfuga tillöguflutnings.

Ég benti á það í fyrra einnig og ítreka það sterklega einnig nú að þetta frelsishjal þéttbýlisbúanna hljómar ekkí nógu sannfærandi í mínum eyrum. Ég vara við of miklu frelsi í þessum efnum. Umgengni við landið og náttúruna er atriði sem þarf að sitja í fyrirrúmi, ekkí síst þegar menn eru að vakna til aukinnar meðvitundar um gildi óspilltrar náttúru, einkum á ýmsum þeim stöðum sem nú eru í hættu af örtröð ferðafólks sem haldið er misskilinni frelsisþrá til þess að haga sér að vild sinni, oftlega í skjóli annarlegra áhrifa sem hvarvetna þykja sjálfsögð. Ég gagnrýndi þá harðlega umgegni ferðafólks á ýmsum fegurstu stöðum lands okkar. Varúð og varkárni þarf hér að viðhafa. Um þverbak keyrir þó þegar maður heyrir að flokkar útlendinga valda hreinni örtröð á ferðamannastöðum án þess að greiða fyrir einn eyri, þegar innfæddir greiða sín sjálfsögðu gjöld fyrir tjaldstæði sín á sömu stöðum.

Gagnvart hlunnindum ýmsum skal ég lítt út í fara. Það gerði ég í fyrra einnig. En ég minni enn á varðandi árnar okkar að ég er algerlega andvígur þeirri stefnu margra bænda, allt of margra bænda, að græða of fjár á ám sínum með því að leigja þær forríkum útlendingum. En hinu skyldi þá ekki gleymt, að þar eiga bændur ekki verri hlut en ýmsir aðrir, m. a. ráðamenn þjóðarinnar ýmsir sem vilja að íslensk þjóð lifi að verulegu leyti með tilstyrk „aðkomufés“, svo sem segir í frægu leikriti. Og smár verður hlutur bænda við braskara höfuðborgarsvæðisins í þessu efni sem öðrum. En ég spyr hv. flm. þá um leið: Væri kannske ekki nær að byrja á þeim. Og ég vona að þeir séu mér sammála í því.

Það er ekki lítil spurning í dag sem bæði þeir Alþfl.-menn og við aðrir sem styðjum almennt þjóðnýtingu, ekki bara á þessu sviði, heldur almennt, því að það vona ég að þeir Alþfl.-menn geri, — spurning sem við eigum að íhuga vel áður en við svörum. Það er sóst eftir landsgæðum og náttúruauðæfum okkar í dag erlendis frá. Fjölmargir erlendir aðilar hafa áhuga á því að klófesta þessi landsgæði að meira eða minna leyti. Við ríkjandi stjórnarhætti er viss hætta á ferðum og verður svo lengi enn. Það eru margir þeirra, sem við stjórnvöl standa, veikir fyrir erlendum gylliboðum. Væri nú allt land á þeirra valdi, þá er um það mikil spurning hvort sá varnaraðili væri ekki úr sögunni sem í dag er þó fyrir hendi í íslenskri bændastétt.

Nú veit ég að till. gerir ekki ráð fyrir því í núverandi búningi að land bænda eða bújarðir skuli skilyrðislaust vera ríkiseign. En þó hygg ég að upphaflegur tilgangur till. hafi verið sá, ég hygg að enn sé sú meining sem að baki liggur. Þá vaknar sú spurning hjá mér, hversu rétt þjóðnýtingarstefna sé varðandi þetta atriði við það hagkerfi kapítalisma sem við búum við í dag. Ég trúi ekki öðru en að við og flm. þessarar till. getum verið fyllilega sammála um það að ýmislegt annað þurfi á undan að ganga. Ég hef a. m. k. meiri áhuga á því að þjóðnýta stóreignir og stórfyrirtæki braskara hvers konar sem í krafti almannafjár og arðráns hafa komist yfir margfaldar upphæðir miðað við bújarðir bænda. Þetta var eitt megininntakið í minni afturhaldsræðu í fyrra. En ég spyr hv. flm. um þeirra álit hér á, varðandi þessar stóreignir. Væri kannske ekki nær, finnst þeim það ekki í raun, að þar væri nær að byrja þjóðnýtinguna?

Um landsgæði í þágu þjóðarheildar, svo sem háhitasvæði, þurfum við ekki að ræða. Þar er um algera samstöðu að ræða hjá mér og hv. flm. Það eru bújarðirnar sjálfar og landsgæði tengd atvinnugrein bænda sem ég staldra við og vil horfa af víðara sjónarhóli út yfir þjóðfélagið í heild og fá heildarmynd af óæskilegri einkaeign og óæskilegum gróða og ráðast svo þar á skipulega þar sem mest er þörf, og þar vona ég að ekki standi á liðsstyrk Alþfl.-manna. Það kæmi mér hins vegar mjög á óvart ef bújarðir bænda og bein gæði tengd landbúnaði kæmu þar í fremstu röð. Á því byggðust fyrirvarar mínir í fyrra og þeir gera það enn. Þessa afturhaldsræðu mína og andsósíalísku stefnumótun endaði ég í fyrra á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er mín skoðun að allur óeðlilegur gróði þurfi að hverfa úr þjóðfélaginu, allur óeðlilegur gróði, sem safnast á einstakar hendur. Þann gróða er ekki að finna hjá meginþorra bænda. En hann á ekki heldur að koma í hendur þeim sem við þá sérstöðu búa að í landi þeirra er að finna verðmæti sem ættu að vera þjóðareign. Ég ítreka aðeins það, að hér þarf að fara að með fullri gát og alveg sérstaklega án allrar skerðingar á búskaparmöguleikum bænda yfirleitt. Hins vegar þarf gróðamyndunin í þjóðfélaginu rannsóknar við í heild, og inn í þá mynd koma bændur að sjálfsögðu eins og aðrar stéttir. Það væri kannske brýnasta verkefni okkar í dag þegar þeir kvarta oft hæst sem mesta möguleika hafa á því að safna illa fengnum auði, en í þeim hópi eru bændur það fáséðir að á öðrum ber þá hiklaust að byrja.“

Ég held að hér um geti hver dæmt auðveldlega og mun því ekki elta ólar við þetta frekar. Meginatriði till. um þau landsgæði, sem ber hæst í dag, styð ég. En um þau atriði, sem ég hef sérstaklega rætt, þarf einnig að gæta fullkominnar varfærni og áður en í það er gengið þarf rækilega athugun og m. a. fullt samráð við bændastéttina sem í heild er víðsýnni en svo að hún styðji ekki sjálfsagðar umbætur í þessum efnum.