20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

39. mál, eignarráð á landinu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, þá er ég samþykkur ýmissi orðanna hljóðan í þáltill. sem hér um ræðir, þó að hún eigi sér þá sögu, tilorðning hennar, og sé af þess háttar anda sprottin að ég hljóti að greiða atkv. gegn henni. Ágæt ræða hv. þm. síðasta ræðumanns um afstöðuna til eignarhalds á háhitasvæðunum og ýmsu öðru þess háttar er sannarlega til þess fallin að vekja vonir um það að sá tími renni upp að við Alþb.- menn getum einhverju réttlæti til leiðar komið með atfylgi svo ágætra manna. Tíminn mun leiða í ljós hvenær það verður.

Í þessari þáltill. er víða drepið niður. Sjálfsögðum réttlætismálum er þar raðað upp við hliðina á rætnum aths. í því skyni, að því er virðist, að þessar rætnu ályktanir geti tekið einhvers konar gyllingu af réttlætinu. Í 2. málsgr. grg. á bls. 2 er fjallað nokkuð um sérstakt áhugamát mitt, þar sem er veiðiskapur á stöng og okurútleiga veiðibænda á veiðidögum í ám, svo að þorra landsmanna gerist það frístundagaman ofviða að skreppa í lax eða silung, en erlendir veiðimenn sitji að þeim gæðum. Ekki hef ég farið dult með það, að mér þykir það harla vont að íslenskir stangveiðimenn, aldnir sem ungir, þurfi að keppa við erlenda auðmenn um rétt til þess að kasta flugu í á. Þrátt fyrir það fer því víðs fjarri að ég vilji kalla þá menn bændur sem hafa sett þessi gæði á uppboð úti í löndum handa þessum erlendu auðmönnum til að bjóða í og kaupa þetta frá okkur. Það eru ekki bændur. Það eru allt aðrir aðilar heldur en bændur. Þetta hefur verið gert að braski. Veiðirétturinn hefur verið gerður að braskvöru eins og ýmislegt annað í þessu landi á hinum síðari tímum, og það eru ekki þau efnahagslögmál sem bændum koma að mestri stoð sem þar hafa ráðið. Það er allt annað uppi á teningnum þar.

Ég hef verið formælandi þess að bændur ættu að því frumkvæði að koma þannig fyrir reglum og þannig yrðu sett lög að landar þeirra yrðu tryggðir gegn því að þessi unaðssemd yrði seld úr landi á þennan hátt, að þeir beittu sér sjálfir fyrir þessu. Ég hef ýmsa kollega mína í veiðimannastétt grunaða um það, þegar þeir ræða þessi mál og kveða sem harðast að orði um bændur, að þeir vilji kannske fá þetta fyrir fulllítið, þessi réttindi. Og ég á ekki algera samstöðu með þeim, því miður. Sjálfur þekki ég þó nokkra unglinga sem stunda nú skólanám vegna þess að feður þeirra búa við veiðiá og hafa af henni svolitlar tekjur. Ég er þeirrar skoðunar að veiðiáin með lífi sínu öllu verði betur vernduð undir handarjaðri bóndans, sem býr á bakkanum, ekki bara að sumrinu, heldur líka á veturna og sinnir henni dálítið, heldur en undir handarjaðri ráðuneytisstjóra í Reykjavík.

Ég vék að því í fyrri ræðu minni að eignarréttur, réttur bóndans til þess að ráðskast með bújörð sína, þessi réttur væri þegar býsna mikið takmarkaður af löggjöf, gamalli og nýrri. Ef við miðum við þau 1100 ár sem þetta land hefur verið byggt og einstaklingar hafa skipt því í reiti í samræmi við lög sem þeir settu sér ýmist sjálfir eða höfðu með sér austan um haf, þá er það býsna skammur tími sem eignarrétturinn er bundinn við annað en nytjar landsins til búskapar og svo til hlunninda veiðivatna og reka. Og alla þessa löngu stund hefur eignarrétturinn á landinu verið takmarkaður við almannaþarfir og alþýðu ætluð hlutdeild í hlunnindum er nauðsyn krafði: reka, veiði, varpi, fugli og berjanytjum. Það er ekki fyrr en þriðjungur er af þessari öld að þess er farið að gæta að ráði að aðrar nytjar en þær, sem að búskap lúta, fara að hafa áhrif á jarðarverð. Samtímis er svo stoðunum kippt að meira eða minna leyti undan lögum og hefð varðandi alþýðurétt til landsins. Þá eflast til valda á þessu landi þeir aðilar sem lifa af öðru en landsins gæðum, og þá hefst jarðabrask sem síðar hefur vaxið svo að til landauðnar horfir nú í sumum héruðum. Ég er ekki lögfróður, en hvernig sem ég hef rýnt í sögu þessarar þjóðar og skráðar heimildir, þá hef ég hvergi fundið vísbendingu um það að neinum einstaklingi væru talin til eigna nein þau gæði sem felast undir klöppinni sjálfri: varminn, vatnið, heitt eða kalt, sem okkar ágæta fóstra lætur í té af sjálfsdáðum á hverjum tilteknum stað — ég hef ekki fundið staf fyrir slíku — eða aflið í fossunum. Allt þetta er undanskilið eignarréttinum.

Við eigum, eins og ég sagði áður, ágæta löggjöf sem tryggir þjóðinni í heild bæði aðgang og afnotarétt að þessum gæðum þegar nauðsyn krefur. Hitt virðist hafa ráðið mestu, að þeir menn hafa verið við völd í landinu og ráðið framkvæmd laga sem hag hafa af því að braska með önnur gæði landsins en þau sem lúta að búskaparnytjum þess. Á árunum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar hafa ríkt sjónarmið þeirra manna sem miklu fremur tilbiðja rétt einstaklingsins til gróða, rétt einstaklingsins til þess að braska, heldur en rétt einstaklingsins eða samfélagsins til eignar. Svo hefur líka farið í umfjöllun hins opinbera með sameign þjóðarinnar á gæðum landsins að þeim hefur verið stefnt í brask. Vatnsafli Þjósár hefur verið ráðstafað í makki við erlenda auðhringa með þeim afleiðingum sem við okkur blasa, ekki til ágóða fyrir fólkið í landinu, heldur til fjárdráttar fyrir einstaka gróðahyggjumenn. Og þar vann að hið háa Alþ. og ríkisstj. sem hafði fengið þessi réttindi, þessi yfirráð á hendi. Fyrirhuguð er sams konar verslun með sameign okkar í vatnsafli Blöndu, að því er mér skilst. Við skulum vona að þar verði grafnar jafnmargar holur til þess að standa auðar áður en hætt er við byggingu stóra álversins á Gáseyri við Eyjafjörð. Þar stendur nú aðeins fyrir sá þröskuldur sem myndast af eignarhaldi um það bil 150 bænda á grónu landi á afrétti. Enn eru á döfinni sams konar áætlanir um ráðstöfun landsgæða á Norðaustur- og Austurlandi, og eigi heldur þar mun annað standa miklu fremur í vegi en lögbundin ítök og áhrif takmarkaðs fjölda bænda um það er lýkur. Og allt ber þetta að sama brunni, að þjóðnýting á pappírnum þjóðnýtingarinnar vegna við óbreytt stjórnarfar er ekki aðeins gagnslaus með öllu, heldur í sumum tilfellum, eins og því sem hér um ræðir, beinlínis stórhættuleg.

Ég vil aðeins leiðrétta ugg hv. síðasta ræðumanns um það að Alþb. sé komið á þá skoðun að ekki megi fjalla um slík mál fyrr en það eitt er orðið allsráðandi um stjórn þessa lands. Það kemur mér ekki til hugar. En ég er þeirrar skoðunar að því meira vald sem vondri ríkisstj. er fengið yfir landinu, því verra sé hag þess komið. Ríkisstj. taumlausrar gróðahyggju og braskaralýðs, eins og sú sem nú ræður ríkjum á þessu landi, er illa trúandi til þess að halda í hendi sér og fjalla um sameign okkar á Íslandi. Af þessu leiðir að ég tel að um sinn sé þeim hluta landsins, sem ekki er þegar í eigu hins opinbera, sem mun vera um það bil til fjórðungur allra jarðeigna, — að um sinn sé þeim hluta landsins, sem ekki er þegar í eigu hins opinbera, betur varið í höndum rúmlega 4000 hænda en í höndum nokkurra íhalds- og jafnvel krataráðherra. Núverandi skipan með einkaeign nokkurra þúsund bænda er sem sagt að minni hyggju nær því sem kalla mætti þjóðareign en eignarupptaka af hálfu siðlítils íhaldsríkisvalds.

Svo að ég rökstyðji nokkru nánar en ég gerði í upphafi staðhæfingu mína um ástæðuna til tortryggni í garð flm., sem ég vona innilega að tíminn haldi áfram að göfga að því markmiði að betur megi treysta þeim en ég geri nú, þá má minna á afstöðu flm. og flokksbræðra þeirra í Alþfl. til samningsins við Union Carbide um ráðstöfun á raforku Sigöldu og landgæðum við Hvalfjörð. Það má minna á afstöðu Alþfl. til erlendrar hersetu á Íslandi, þar sem íslensku landi og vinnuafli er ráðstafað undir herstöðvar heimsauðvaldsins. Það má minna á afstöðu þessara manna til álversins í Straumsvík og afsals landsréttinda og landsgæða þar með þeim eindæma samningi. Og það má síðast en ekki síst minna á afstöðu flm. þessa frv. til Laxárdeilunnar, þess máls sem þáltill. þessi er beinlínis sprottin upp af, löngum rótum, en svo gildum, að þær blasa enn í dag við augliti hvers manns. Sem sagt, af því að hv. síðasti ræðumaður tók sér bessaleyfi fyrir nokkrum dögum til þess að lesa upp orðrétta þingræðu eftir mig til stuðnings í máli sínu, þá leyfi ég mér vegna óbreytts hugarfars sjálfs mín, frá því að um þetta mál var fjallað í fyrra, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp niðurlag ræðu sem ég þá flutti, eins og það er prentað í þingtíðindum. Þar sagði ég og segi enn með óbreyttu hugarfari:

„Af þáltill., sem hér liggur fyrir, er lykt, þó að hún hafi verið sápuþvegin nokkuð á þeim þingum sem liðið hafa frá því að hún sá dagsins ljós í ófrýnilegri mynd. Þrátt fyrir þennan þvott er af henni fyrst og fremst lykt þess stjórnmálaflokks sem vegið hefur að hagsmunum bænda, sem þjónað hefur undir íhaldið, strandað úr þessum ræðustól, sitjandi í þingsætum sínum, flötum beinum, út af liggjandi og á grúfu.“

Ég mun kjósa mér um sinn aðra fylgisveina, aðra frumkvöðla og annars konar heiðarleika, þegar fjallað verður um eignarhald á jörðum bænda.