20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

39. mál, eignarráð á landinu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er nú harla illt til þess að vita að hv. þm. Pálmi Jónsson skuli vera horfinn úr salnum, svo að ég verð víst að ræða við þann hv. þm. þá frekar einslega um málið. Ég vil þó aðeins láta eitt koma fram. Það er það, að hann sagði það vera skröksögu, sem ég upplýsti, að ákveðnir landeigendur, sem teldu sig eiga jarðhitaréttindi, vildu virða þau réttindi eftir olíuverði. Hér er ekki um skröksögu að ræða. Mér er kunnugt um það að sú krafa hefur verið gerð til borgnesinga í sambandi við hitaveituframkvæmdir þeirra úr Deildartunguhver að heita vatnið yrði metið sem ákveðin hundraðshluti af olíuverði sem sérstaklega yrði samið um og færi svo hækkandi eftir hækkunum á heimsmarkaðsverði olíu. Ég held að ég fari líka rétt með það að í ákvæði samnings milli húsvíkinga annars vegar og landeigenda, sem eiga lendur þar sem heitt vatn er numið til hitaveituframkvæmda á Húsavík, þá sé svipuð klásúla í samningi. Mér er ekki kunnugt um á hve háa prósentu af olíuverði heita vatnið er metið, en mér er kunnugt um að það á að hækka heita vatnið með hækkun olíuverðs, þannig að þarna er raunar komið á milli algert samræmi i orkuverði frá jarðhita til hitaveituþarfa á Íslandi annars vegar og þeirrar stefnu sem alþjóðlegir auðhringar og olíufurstar móta um heimsmarkaðsverð á olíu á alþjóðlegum vettvangi. Hér er því ekki um skröksögu að ræða, heldur þekkingarskort hv. þm. Pálma Jónssonar.

Og að lokum örfá orð í tilefni af ræðu hv. þm. Stefáns Jónssonar. Ég vil skora á hv. þm. að endurskoða þá afstöðu sína að greiða þessari þáltill. mótatkv. Hann viðhafði þau orð, hv. þm., að hann vildi velja sér aðra fylgisveina í málinu heldur en okkur þm. Alþfl. Með því að greiða þessari þáltill. mótatkv. er hann að sjálfsögðu að velja sér slíka meðreiðarsveina. Og hverjir eru þeir? Það er m. a. hv. þm. Pálmi Jónsson, sem hv. þm. Stefán Jónsson komst að þeirri niðurstöðu um í pontu áðan að gæti hvorki skilið sinn hugsunarhátt né sinn orðahagleik. Ég vil því eindregið beina þeirri ósk til Stefáns Jónssonar að hann endurskoði afstöðu sína um að greiða þessari till. til þál. mótatkv. og benda honum um leið á það, hv. þm., ef hann heldur fast við þá afstöðu sína, hverja hann er þá að velja sér að fylgisveinum.