25.11.1975
Sameinað þing: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

25. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Axel Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér, að bera fram eftirfarandi fsp. á þskj. 28 til menntmrh.:

„Hvað líður meðferð á frv. til l. um kvikmyndasjóð, sem Ed. Alþ. samþ. 15. maí 1975 að vísa til ríkisstj.?“

Það mun vera svo komið og raunar vera búið að vera svo um nokkurt skeið að Ísland er einasta Evrópulandið sem ekki hefur neina löggjöf um stuðning við kvikmyndagerð. Kvikmyndagerð er hins vegar mjög kostnaðarsöm, en nútímatækni hefur leitt það af sér að einmitt kvikmyndir eru öðru fremur til þess fallnar að ná til fólksins, hvort heldur er í kvikmyndahúsum eða þó miklu fremur, vil ég segja í sjónvarpi. M. a. þess vegna hafa hér verið framkvæmdar nokkrar athuganir til undirbúnings þessa máls, því að árið 1972 safnaði menntmrn. upplýsingum fyrir milligöngu sendiráða Íslands í Vestur-Evrópu um opinbera fyrirgreiðslu við innlenda kvikmyndagerð í Evrópulöndum. En eins og ég gat um fyrr hefur enn ekki verið samþ. um þetta nein löggjöf hérlendis. Þó hefur málinu verið hreyft á tveimur síðustu aðalþingum án þess að það næði fram að ganga, en á s. l. þingi varð afgreiðsla málsins sú, að því var vísað til ríkisstj., eins og fram kemur í fsp.

Ég legg áherslu á að kvikmyndagerð er sú listgrein sem er hvað yngst í okkar landi, en skapar mikla möguleika. Íslensk náttúra er stórbrotin og það er mikils virði að festa á kvikmyndir sérkenni Íslands og íslensku þjóðarinnar í lífi hennar og starfi. Slíkt verður aldrei til fjármagns metið.

Eins og ég gat um, herra forseti, var afgreiðsla þessa frv. á s. l. þingi sú, að því var vísað til ríkisstj. með eftirfarandi ályktun, með leyfi forseta:

N. hefur rætt frv. og kynnt sér þær umsagnir, sem borist hafa. N. telur tilgang frv. þess verðan að Alþ. setji um þetta lög. N. er hins vegar ekki sammála um fjáröflunarleið til að standa undir þeim kostnaði, sem þessu er samfara, og leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstj. í trausti þess að hún semji löggjöf um aðstoð við kvikmyndagerð og leggi fram í upphafi næsta reglulegs Alþingis.“